Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála eru með mál 12 umsækjenda um vernd frá Afganistan til meðferðar. Hvort ástandið í heimalandi hafi áhrif á niðurstöðu málanna veltur á því hvort umsóknir þeirra fái efnislega meðferð hér á landi eða hvort þeim ljúki með endursendingu til annars Evrópuríkis.
Þetta kemur fram í svari Útlendingastofnunar við fyrirspurn Kjarnans. Mál Afgana hafa verið í brennideplinum undanfarna daga og vikur þar sem Talíbanar komust aftur við stjórnvölinn þar í landi eftir að bandaríski herinn hóf að draga sig til baka og fara af landi brott. Margir hafa kallað á að íslensk stjórnvöld bregðist við með einhverjum hætti.
„Í þeim málum sem tekin eru til efnislegrar meðferðar er það ástandið í heimalandi umsækjanda og persónulegar aðstæður hans þar sem ráða niðurstöðunni en þá er tekin afstaða til þess hvort umsækjandinn þurfi á vernd að halda eða ekki. Í málum sem afgreidd eru með endursendingu til annars Evrópulands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar eða á grundvelli verndar í öðru Evrópulandi er það ástandið og persónulegar aðstæður umsækjandans í viðkomandi Evrópulandi sem ræður niðurstöðunni,“ segir í svarinu.
Einn verður sendur til baka til annars Evrópuríkis
Fram kemur hjá Útlendingastofnun að allir umsækjendur um vernd frá Afganistan sem hafa fengið efnislega meðferð umsóknar sinnar hér á landi á undanförnum árum hafi fengið jákvæða niðurstöðu, ýmist vernd eða viðbótarvernd, og því ekki verið sendir aftur til Afganistan.
Einn er á lista stoðdeildar og bíður endursendingar til annars Evrópuríkis, að því er fram kemur hjá stofnuninni. „Eins og áður sagði hefur ástandið í Afganistan ekki áhrif á ákvarðanir um endursendingar til annarra Evrópulandi og engar ákvarðanir hafa verið teknar um endursendingar til Afganistan á undanförnum árum,“ segir í svarinu.
Skila tillögum til stjórnvalda í næstu viku
Flóttamannanefnd fundaði á þriðjudag um ástandið í Afganistan. Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra sendi erindi til flóttamannanefndar, sem skipuleggur komu flóttamanna, en í viðtali við Fréttablaðið í gær sagði hann að hann væri ekki að biðja um ráð flóttamannanefndar „ef við ætluðum ekkert að aðhafast“.
Samkvæmt svari félagsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans mun flóttamannanefnd funda aftur í vikunni og í framhaldinu skila tillögum til stjórnvalda, líklega snemma í næstu viku.
Vilja aðgerðir
Hópur Íslendinga sem starfað hefur með NATO og öðrum alþjóðlegum stofnunum í Afganistan sendi í fyrradag ákall til íslenskra stjórnvalda um að grípa tafarlaust til aðgerða til að bregðast við þeim veruleika sem blasir við almennum borgurum – ekki síst konum og börnum – í Afganistan í ljósi atburða undanfarinna daga.
Fer hópurinn á leit við íslensk stjórnvöld og Alþingi að þau bjóði einstaklingum, sér í lagi konum og stúlkum, alþjóðlega vernd. Sjónum verði sérstaklega beint að konum og stúlkum sem stafar bein ógn af valdatöku Talibana m.a. vegna baráttu sinnar fyrir frelsi og réttindum kvenna og þátttöku í verkefnum sem voru studd af NATO eða öðrum alþjóðlegum stofnunum, samanber konur í leiðtogastöðum, blaðakonur, mannréttindafrömuðir og konur sem tilheyra ofsóttum minnihlutahópum.
Íslensk stjórnvöld leiti enn fremur samstarfs við önnur Norðurlönd og/eða NATO ríki um flutning fólks sem er í mikilli hættu vegna starfa sinna fyrir og/eða með Íslenskum friðargæsluliðum sem starfað hafa í Afganistan og veiti þeim einstaklingum og fjölskyldum þeirra alþjóðlega vernd.
Þá vill hópurinn að íslensk stjórnvöld beiti sér sérstaklega fyrir því að Sameinuðu þjóðirnar standi vörð um réttindi og vernd kvenna og að stúlkum verði tryggður réttur til skólagöngu og konum til atvinnuþátttöku. Íslensk stjórnvöld beiti sér jafnframt fyrir áframhaldandi uppbyggingar- og þróunarstarfi í landinu á grundvelli gagnrýnnar endurskoðunar á þeirri aðstoð, sem veitt hefur verið, og sem taki mið af Marshall-aðstoðinni, þ.e. markmiðssetning og framkvæmd verði miðstýrð í auknum mæli og aðstoðin taki mið af aðstæðum í landinu til að auka möguleikana á raunverulegum árangri.