Stefnt er að því að COVID-bólusetning barna á aldrinum 5-11 ára fari fram í skólum á höfuðborgarsvæðinu dagana 10.-14. janúar. Bólusett verður í sautján skólum á hverjum degi. Tryggt verður að eitt foreldri eða annar forsjáraðili geti fylgt hverju barni í bólusetninguna. Bólusetning barna mun einnig fara fram í skólum á landsbyggðinni víðast hvar en á minni stöðum verður bólusett á heilsugæslustöðvum.
Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, við Kjarnann.
Sóttvarnalæknir ákvað fyrir nokkrum dögum að börnum á aldrinum 5-11 ára verði boðin bólusetning gegn COVID-19. Hann segir ákvörðunina í samræmi við ákvarðanir í mörgum löndum eins og Danmörku, Írlandi, Austurríki, Bandaríkjunum, Kanada og Ísrael. Auk þess hafi Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins bent á fjölmargar ástæður þess að bólusetja börn á þessum aldri.
Ástæðurnar fyrir þeirri ákvörðun að bjóða 5-11 ára börnum bólusetninguna eru nokkrar, að því er fram kemur í pistli sóttvarnalæknis á síðunni covid.is
Í fyrsta lagi nefnir hann að COVID-19 geti verið alvarlegur sjúkdómur hjá börnum í þessum aldurshópi. Nefnir hann máli sínu til stuðnings að í samantekt Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins sem gefin var út í byrjun desember komi fram að 0,6 prósent 5-11 ára barna sem sýkjast af COVID og fá einkenni þurfi að leggjast inn á spítala og að 10 prósent þess hóps þurfi á gjörgæslumeðferð að halda. Ennfremur er það niðurstaðan í samantektinni að 0,006 prósent smitaðra barna látist.
„Ef ofangreindar tölur eru yfirfærðar á íslensk börn á aldrinum 5-11 ára og öll börn á þeim aldri myndu smitast (32.000), þá gætum við búist við að 134 börn þyrftu að leggjast inn á sjúkrahús, 13 legðust inn á gjörgæsludeild og eitt barn myndi látast vegna COVID-19,“ skrifar Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. (Setningin hefur verið uppfærð í kjölfar nýrrar færslu hans á covid.is)
Þá tekur hann einnig fram að virkni bólusetningar hjá börnum í þessum aldurshópi sé góð og veiti um 90 prósent vörn gegn því að smitast og fá einkenni.
Ekkert hægt að fullyrða um alvarlegar aukaverkanir
Alvarlegar aukaverkanir eftir bólusetningu 5-11 ára barna hafa enn ekki verið tilkynntar en Þórólfur bendir þó á að á þessari stundu hafi ekki mörg þeirra verið bólusett og því ekki hægt að fullyrða með vissu hvort alvarlegar aukaverkanir muni sjást. Hjá eldri börnum hafi bólgum í hjartavöðva og/eða gollurhúsi verið lýst hjá einum af hverjum 10 þúsund bólusettum. „Ef tíðni alvarlegra aukaverkana COVID-19 og bólusetningar er yfirfærð frá aldurshópnum 12-16 ára yfir á aldurshópinn 5-11 ára á Íslandi, þá má búast við að 32 fengju hjartavöðvabólgu eftir COVID-19 en einungis 2 börn eftir bólusetningu. Að auki má búast við öðrum alvarlegum aukaverkunum eftir COVID-19 sem ekki sjást eftir bólusetninguna,“ skrifar Þórólfur.
HÉR GETUR ÞÚ LESIÐ ÍTARLEGAN PISTIL HANS UM VÍSINDIN AÐ BAKI ÁKVÖRÐUNINNI.
Ragnheiður Ósk segir útfærslu framkvæmdar við bólusetningu barnanna óðum vera að skýrast. „Hér á höfuðborgarsvæðinu hafa skólahjúkrunarfræðingar verið að útfæra skipulag, og staðsetningu í hverjum skóla fyrir sig í samráði við skólastjórnendur þessa vikuna.“
Áætlað er að senda foreldrum upplýsingar frá skólaheilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu um dagsetningu og skipulag hvers skóla þann 4. janúar. Boð á alla forsjáraðila á landinu verða send miðlægt frá sóttvarnarlækni 6.-7. Janúar ef áform standast. Í þeim skilaboðum verður tengill á vefsíðu þar sem forsjáraðilar skrá barn sitt í bólusetningu og hafa þar einnig tækifæri til að skrá leyfilega fylgdarmenn. Við þessa skráningu fá forsjáraðilar sent strikamerki sem þau mæta með í bólusetninguna.
„Hér á höfuðborgarsvæðinu og víða á landsbyggðinni þar sem skólarnir eru mjög stórir erum við að óska eftir því að skóli verði felldur niður bólusetningardaginn, eða þá allavega skertur skóladagur,“ segir Ragnheiður. Það sé gert vegna sóttvarnarsjónarmiða „en líka til að lágmarka samanburð milli barna“.
Fræðlsuefni fyrir börn og fullorðna í smíðum
Spurð hvort hún telji þörf á því að miðla sérstaklega og ítarlega upplýsingum, m.a. vísindalegum gögnum, til foreldra og annarra forráðamanna um bólusetningar barna svarar hún því játandi. Verið sé að vinna að fræðsluefni á vegum sóttvarnalæknis. Þær upplýsingar verða á um 16 tungumálum, segir Ragnheiður.. „Auk þess verður sérstakt fræðsluefni unnið fyrir börn sem foreldrar geta skoðað með börnum sínum. Allt þetta er væntanlegt innan skamms á covid-síðuna.“