Ný reglugerð um aðgerðir innanlands mun taka gildi á fimmtudag og er hún samhljóða tillögum sem komu fram í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við Vísi eftir ríkisstjórnarfund í morgun. Hún sagði að „gegnumsneytt“ hafi verið mjög mikil samstaða um aðgerðirnar í ríkisstjórn.
Að því er fram kemur á Vísi munu nýjar aðgerðir taka gildi á miðnætti aðfaranótt fimmtudag og gilda í þrjár vikur. Helstu atriðin eru þau að tuttugu mega þá koma saman í stað tíu, sund- og líkamsræktarstaðir mega opna með 50 prósent af leyfilegum fjölda gesta og krár geta haft opið til kl. 21. Þá verða fjarlægðarreglur í skólum færðar niður úr tveimur metrum í einn.
Helstu breytingar á almennum samkomutakmörkunum
Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu er sagt frá helstu breytingum á almennum samkomutakmörkunum:
- Almennar fjöldatakmarkanir verða 20 manns.
- Sund- og baðstöðum og heilsu- og líkamsræktarstöðvum heimilt að opna fyrir 50% af leyfilegum hámarksfjölda gesta, auk annarra skilyrða.
- Íþróttaæfingar og -keppnir barna og fullorðinna með og án snertinga í öllum íþróttum heimilar, án áhorfenda. Hámarksfjöldi fullorðinna verður 50 manns en fjöldi barna fer eftir sömu takmörkunum og í skólastarfi.
- Skíðasvæðum heimilt að taka á móti 50% af hámarksfjölda móttökugetu hvers svæðis.
- Sviðlistir, þar með talið kórastarf, heimilar með allt að 50 manns á sviði og 100 sitjandi gestum í hverju hólfi, auk annarra skilyrða.
- Hámarksfjöldi við athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga áfram 30 manns en fjölgar í 100 manns við útfarir.
- Öllum verslunum heimilt að taka á móti 5 viðskiptavinum á hverja 10 m², þó að hámarki 100 manns, auk 20 starfsmanna í sama rými og viðskiptavinir.
- Skemmtistöðum, krám, spilasölum og spilakössum heimilt að hafa opið með sömu skilyrðum og veitingastöðum þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar.
- Verklegt ökunám og flugnám með kennara heimilt.
Reglurnar gilda um alla, óháð því hvort fólk er bólusett eða með mótefni.