Tuttugu og eitt COVID-19 smit greindust hér á landi í gær – 16 innanlands. Þar af voru 10 einstaklingar utan sóttkvíar. Þetta er haft eftir Má Kristjánssyni, yfirlækni á smitsjúkdómadeild Landspítala, í frétt RÚV.
Almannavarnir boðuðu í morgun að haldinn yrði upplýsingafundur á vegum almannavarna og Embættis landlæknis í dag kl. 11 þar sem farið yrði yfir þá stöðu sem komin er upp.
Það fundarboð hefur verið afturkallað og í nýrri tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir að upplýsinga sé að vænta síðar í dag.
Nokkur smit hafa komið upp hjá nemendum í Laugarnesskóla, en einn kennari við skólann greindist með COVID-19 um liðna helgi. Af þessum sökum eru allir nemendur skólans og Laugalækjarskóla sömuleiðis í sóttkví eða úrvinnslusóttkví á meðan smitrakning stendur yfir og frístundastarf barna í Laugardal liggur niðri að nær öllu leyti.
Leiðrétt: Fréttin hefur verið uppfærð og fyrirsögnin sömuleiðis. Rangt var farið með fjölda smita innanlands, þau eru 16 að sögn Más en ekki 21.