Fagráði Háskóla Íslands (HÍ) bárust alls 25 tilkynningar um kynferðislega áreitni eða ofbeldi á árunum 2017 til 2020, að því er fram kemur í svari frá skólanum við fyrirspurn Kjarnans.
„Mál geta ýmist varðað starfsfólk, nemendur eða samskipti milli starfsfólks og nemenda, en meirihluti þessara mála hefur varðað samskipti milli nemenda. Í sumum tilvikum lýkur máli með sátt milli aðila en sum mál hafa rektor eða eftir atvikum aðrir stjórnendur tekið til meðferðar í kjölfar niðurstöðu fagráðsins,“ segir í svarinu.
Samkvæmt HÍ er skólinn með skýra verkferla í málum er varða kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi.
„Háskólinn setti sér verklagsreglur um þennan málaflokk árið 2014. Þær voru endurskoðaðar árið 2018, þar á meðal ákvæði um meðferð kvartana. Árið 2014 var jafnframt sett á fót fagráð Háskóla Íslands sem hefur það hlutverk að fjalla um mál er varða brot starfsfólks og nemenda Háskóla Íslands. Fagráðið er skipað þremur aðilum og er í verklagsreglum kveðið skýrt á um að formaður þess sé aðili með fagþekkingu og reynslu af meðferð mála af þessu tagi og sé ekki í föstu starfi við HÍ.“
Fram kemur í svarinu að áhersla sé lögð á fræðslu til stjórnenda, starfsfólks og nemenda við HÍ um kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi og ekki síst að kynna verklagsreglurnar og fagráð HÍ svo fólk viti hvert það eigi að leita, komi slík mál upp. Enn fremur sé lögð áhersla á þennan málaflokk í jafnréttisáætlun HÍ.