Lífeyrissjóður verzlunarmanna, sem er þriðji stærsti eigandi Arion banka, leggst gegn því að laun stjórnarmanna í bankanum verði hækkuð með ákvörðun á aðalfundi hans, sem fram fer á morgun. Lífeyrissjóðurinn Gildi, stærsti einstaki eigandi bankans, hafði áður tilkynnt að hann myndi greiða atkvæði gegn tillögunni.
Stjórn Arion banka hefur lagt til að mánaðarlaun stjórnarmanna verði 600 þúsund krónur á mánuði, að mánaðarlaun varaformanns verði kr. 900 þúsund krónur og að mánaðarlaun stjórnarformannsins, Brynjólfs Bjarnasonar, verði 1,2 milljónir króna á mánuði. Auk þess áttu stjórnarmenn sem búsettir eru erlendis að fá 300 þúsund krónur fyrir ferðalög vegna hvers stjórnarfundar sem þeir sækja í eigin persónu. Þar að auki yrði heimilt að greiða þeim stjórnarmönnum sem sitja í undirnefndum stjórnar 200 þúsund krónur fyrir hvern setinn fund, en þó að hámarki 400 þúsund krónur á mánuði. Formenn stjórnarnefnda áttu að geta fengið 300 þúsund krónur fyrir hvern setinn fund, en þó aldrei meira en 600 þúsund krónur á mánuði.
Breytingartillaga lífeyrissjóðsins er m.a. eftirfarandi:
,,Lagt er til að mánaðarlaun stjórnarmanna verði kr. 490.900, mánaðarlaun varaformanns verði kr.736.200 en mánaðarlaun stjórnarformanns verði kr. 981.400. Stjórnarmenn búsettir erlendis skulu fá endurgreiddan útlagðan kostnað fyrir ferðalög vegna stjórnarfunda sem þeir sækja í eigin persónu, þó að hámarki kr. 300.000 fyrir hvern fund. Þar að auki verði heimilt að greiða þeim stjórnarmönnum sem sitja í stjórnarnefndum félagsins að hámarki kr. 196.300 á mánuði fyrir setu í hverri nefnd og formönnum stjórnarnefnda kr. 255.000 á mánuði. Stjórnarlaun varamanna verði kr. 248.600 fyrir hvern setinn fund, þó að hámarki kr. 490.900 á mánuði, ef um fleiri en einn fund er að ræða á mánuði."
Stjórnarmönnum fækkar um tvo
Tillagan um hækkun stjórnarlauna byggir á skýrslu tilnefningarnefndar Arion banka. Þegar liggur fyrir að það eigi að ráðast í nokkrar breytingar á stjórn bankans. Þannig á að fækka stjórnarmönnum úr sjö í fimm og hætta að greiða þeir stjórnarmönnum sem búa erlendis tvöfalt fyrir stjórnarsetu. Með því yrðu laun erlendu stjórnarmannanna, sem verða tveir eftir aðalfundinn á morgun, 37 prósent lægri þrátt fyrir að fyrirhuguð hækkun á grunnlaunum yrði að veruleika. Stjórnarlaun íslensku stjórnarmannanna myndu hins vegar hækka um 22 prósent. Samanlagt myndi kostnaður vegna launa stjórnarmanna í Arion banka dragast saman um 27 prósent á næsta ári samkvæmt tillögunni, en þar skiptir eðlilega mestu máli að stjórnarmönnum verður fækkað um tvo og afnám þeirrar reglu að borga þeim stjórnarmönnum sem búa erlendis tvöfalt.
Í greinargerð sem fylgir breytingartillögu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna segir að við mat á fjárhæð stjórnarlauna horfi sjóðurinn meðal annars til „eðlilegs umfangs og eðlis rekstrar og ábyrgðar líkt og fram kemur í hluthafastefnu LV. Í tilviki Arion banka er horft til sambærilegra starfseininga hérlendis og í því ljósi lagt til að stjórnarlaun verði óbreytt og að ekki verði gerður greinarmunur á fjárhæð eftir búsetu stjórnarmanns.“
Gildi ætlar líka að greiða atkvæði gegn tillögunni
Fleiri eigendur Arion banka hafa gert athugasemdir við tillögur stjórnar bankans. Þannig hefur Gildi lífeyrissjóður, sem er stærsti einstaki eigandi bankans með 9,61 prósent eignarhlut, tilkynnt að hann ætli líka að greiða atkvæði gegn tillögu um þóknun til stjórnarmanna á þeim grundvelli að fjárhæðir sem þar eru lagðar til séu hærri en það sem gengur og gerist.
Gildi ætlar auk þess að greiða atkvæði gegn tillögu um starfskjarastefnu Arion banka. Í bókun sem sjóðurinn hefur birt og hyggst leggja fram á aðalfundinum segir að hann telji stjórnina ekki hafa „með fullnægjandi hætti rökstutt þörfina og tilgang þess að nýta heimild til að koma á fót árangurstengdu launakerfi, aukningu kauprétta og áskriftarréttindum. Laun stjórnenda bankans virðast að mati sjóðsins, þegar tillit er tekið til möguleika á árangurstengdum greiðslum, kaupréttum og áskriftarréttindum, hærri en það sem gengur og gerist hjá öðrum íslenskum bönkum og skráðum fyrirtækjum sem starfa á íslenskum markaði.“