Tvö ný smit af kórónuveirunni greindust innanlands í gær. Hvorugur einstaklingurinn var í sóttkví. Samkvæmt upplýsingum á COVID.is eru sextán nú í einangrun vegna COVID-19. Í gær voru tekin yfir 1.500 einkennasýni, m.a. af fólki sem sótti tónleika í Hörpu á föstudagskvöld. Smitaður einstaklingur var á tónleikunum.
Starfsmaður Hagkaups í Garðabæ greindist með COVID-19 í gærkvöldi. Greint var frá smitinu í tilkynningu frá versluninni. Þar kom fram að starfsmaðurinn ynni á nóttunni við áfyllingar og að hann hefði verið við störf aðfaranætur laugardags og sunnudags.
Þeir starfsmenn sem unnu á sömu vöktum um helgina fara í skimun í dag og munu halda sig heima, að því er segir í tilkynningu Hagkaups, þar til rakningarteymið gefur grænt ljós á endurkomu þeirra til starfa.
Þrír greindust með veiruna um helgina, einn á föstudag og tveir á laugardag. Staðfest hefur verið að tveir þeirra eru með hið breska afbrigði veirunnar, afbrigði sem er meira smitandi en önnur sem greinst hafa á Íslandi. Yfir níutíu manns hafa síðustu vikur greinst með afbrigðið hér á landi, þar af yfir 20 innanlands og allt, þar til um helgina, fólk sem tengdist þeim sem greinst höfðu á landamærunum nánum böndum.
Á sunnudag og í gær, mánudag, voru hundruð manna sem tengdust fólki sem greindist um helgina skimaðir, m.a. starfsfólk og sjúklingar á Landspítala.