Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) samþykkti í dag að leggja til að Úkraína fái formlega stöðu umsóknarríkis að sambandinu.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, klæddist fánalitum Úkraínu þegar hún greindi frá þessari ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar í morgun, sem metur það svo að Úkraína hafi sýnt skýran vilja til að hafa gildi og staðla Evrópu í hávegum. Sagði hún Úkraínumenn tilbúna til að „deyja fyrir sjónarmið Evrópu“. „Úkraína hóf þessa vegferð fyrir stríð og síðustu átta ár hefur ríkið færst hægt og rólega í átt að sambandinu okkar,“ sagði von der Leyen.
Volodomír Zelenskí, forseti Úkraínu, fagnar ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar og segir í færslu á Twitter að með henni færist Úkraína nær sigri í stríðinu við Rússland. Hann segir ákvörðunina sögulega og þakkar von der Leyen og öðrum stjórnarmönnum framkvæmdastjórnarinnar fyrir.
I commend the positive @EU_Commission Conclusion on 🇺🇦’s candidate status. It’s the 1st step on the EU membership path that’ll certainly bring our Victory closer. Grateful to @vonderleyen & each EC member for a historic decision. I expect the positive result from #EUCO next week.
— Володимир Зеленський (@ZelenskyyUa) June 17, 2022
Stuðningur framkvæmdastjórnarinnar færir Úkraínu skrefi nær aðild að Evrópusambandinu. En leiðin er þó ekki alveg greið.
Verði Úkraína gerð að formlegu umsóknarríki bætist ríkið í hóp fimm ríkja sem nú þegar hafa formlega stöðu umsóknarríkis. Það eru Albanía, Norður-Makedónía, Svartfjallaland, Serbía og Tyrkland. Moldóva gæti einnig bæst í hópinn þar sem framkvæmdastjórnin lýsti yfir stuðningi við að gera ríkið að formlegu umsóknarríki líkt og Úkraínu á fundi sínum í morgun.
Leiðtogaráðið tekur tillögu framkvæmdastjórnarinnar til umfjöllunar í næstu viku
Svo að Úkraína verði formlegt umsóknarríki verða leiðtogar allra 27 aðildarríkjanna að samþykkja tillögu framkvæmdastjórnarinnar. Tillögur framkvæmdastjórnarinnar verða teknar fyrir á leiðtogafundi aðildarríkjanna sem fram fer í Brussel í næstu viku. Leiðtogar Frakklands, Þýskalands og Ítalíu hafa nú þegar lýst yfir stuðningi við að gera Úkraínu að formlegu umsóknarríki.
Aðildarumsókn Úkraínu að Evrópusambandinu var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta á Evrópuþinginu nokkrum dögum eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst í lok febrúar. Von der Leyen sagði innrásina marka nýtt upphaf í Evrópu en ljóst er að aðildarferlið fram undan verður langt og strangt, óháð stríðsátökum.
Úkraína mun til að mynda þurfa að gera ýmsar breytingar, allt frá dómskerfinu til spillingar í stjórnkerfinu.
Umsóknarferli í Evrópusambandið er langt og strangt og getur tekið allt að áratug líkt og dæmin sanna. Pólland sótti til að mynda fyrst um árið 1994 en fékk inngöngu formlega tíu árum síðar, 2004.
Stjórnvöld í Rússlandi fylgjast náið með tilraunum Úkraínu til að verða hluti af Evrópusambandinu. Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Kreml, segir þróunina „krefjast náinnar athygli, þar sem við erum meðvituð um umræðuna í Evrópu um að efla varnir Evrópusambandsins.“