Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, mun fara til fundar við Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta á næstunni til að ræða fullgildingu aðildar Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, segir að það sé undir Tyrkjum og Ungverjum komið hvenær umsóknin verði fullgild.
Þetta var meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi forsætisráðherra Norðurlandanna í Helsinki í Finnlandi í morgun þar sem þing Norðurlandaráðs stendur yfir.
Mikilvægi Norðurlandanna í öryggismálum mun aukast með aðild Svíþjóðar og Finnlands
Kristersson sagði ferlið hafa gengið hratt og þakkaði hann hinum Norðurlöndunum fyrir ómetanlegan stuðning við aðildarferlið. Að hans mati mun fullgilding umsókna Svíþjóðar og Finnlands auka mikilvægi Norðurlandanna þegar kemur að öryggismálum.
Tvær vikur eru síðan Kristersson tók við sem forsætisráðherra Svíþjóðar. Fullgilding aðildar að NATO er meðal stórra verkefna sem hann stendur frammi fyrir og var eitt af hans fyrstu verkum að ræða við Erdogan Tyrklandsforseta um umsókn Svíþjóðar.
Aðeins Tyrkland og Ungverjaland eiga eftir að samþykkja umsóknirnar en hin aðildarríkin 28 hafa öll veitt samþykki. Ísland var með fyrstu ríkjunum sem samþykkti aðild ríkjanna þann 5. júlí.
Kristersson og Erdogan ræddu saman símleiðis á dögunum þar sem þeir ákváðu að hittast í Ankara sem fyrst og ræða umsókn Svíþjóðar að NATO. Nákvæm dagsetning liggur hins vegar ekki enn fyrir.
Meðal þess sem Kristersson og Erdogan munu ræða er að öllum líkindum krafa tyrkneskra yfirvalda um framsal níu meintra „hryðjuverkamanna“ frá Svíþjóð og sex frá Finnlandi til Tyrklands. Á fundi sendinefndar Finnlands í Ankara í síðustu viku fullyrtu fulltrúar í sendinefnd Tyrklands að um væri að ræða „hryðjuverkamenn“ sem tilheyra flokki aðskilnaðarsinna Kúrda í Tyrklandi (PKK) og Gülen-hreyfingunni, flokkum sem eru gagnrýnir á stjórnvöld í Tyrklandi.
„Ekki undir okkur komið hvenær Ungverjaland og Tyrkland samþykkja aðild“
Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, hefur ekki óskað eftir fundi með Erdogan en hún vonast til að ferlinu ljúki sem fyrst. „Það er ekki undir okkur komið hvenær Ungverjaland og Tyrkland samþykkja aðild, auðvitað vonum við að það verði sem allra fyrst. Öll hin ríkin hafa samþykkt aðild og gerðu það fljótt, sem undirstrikar að Finnland og Svíþjóð eru reiðubúin að gerast aðildarríki eins fljótt og mögulegt er,“ sagði Marin.
Aðspurð hvort ríkin verði tilbúin til að ganga að kjarnorkustefnu NATO, eða hvort Svíar og Finnar muni fara að fordæmi Noregs og Danmerkur og leyfa ekki kjarnorkuvopn í ríkjunum á friðartímum, segir Sanna forgangsmálið að fá aðildarumsóknir ríkjanna samþykktar að fullu. „Við viljum ekki loka neinum dyrum en við erum ekki að ræða þetta sérstaklega á þessu stigi,“ sagði Marin.
Umsóknir ríkjanna tveggja voru samþykktar á leiðtogafundi NATO í sumar. Finnar hafa uppfært sína löggjöf og Svíar hafa lagt fram breytingar á löggjöf sinni.
Sauli Niinistö, forseti Finnlands, hefur sagt að það komi ekki til greina að aðskilja umsóknir Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu. Kristersson tekur í sama streng og segir að það sé mikilvægt að Svíþjóð og Finnland fylgist að í ferlinu.
Átakanlegar afleiðingar stríðsins sem hefur áhrif á okkur öll
Umsókn ríkjanna að NATO er til komin vegna stríðsins í Úkraínu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á blaðamannafundinum að frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar hafi hún, og afleiðingar hennar, haft áhrif á öll samtöl leiðtoga Norðurlandanna.
Katrín sagði stjórnmálalandslagið gjörbreytt frá því að Norðurlandaþingið kom síðast saman í nóvember fyrir ári síðan. „Hræðilegt stríð hefur nú staðið yfir í Úkraínu í 250 daga með átakanlegum afleiðingum fyrir fólkið í Úkraínu auk áhrifa á okkur öll, á öryggismál, orkumál, efnahagsmál og fæðuöryggi um heim allan.“ Líkt og Kristersson er Katrín sannfærð að aðild Finnlands og Svíþjóðar að NATO muni gera samstarf Norðurlandanna enn nánara á sviði öryggismála.
Búast má við að umsókn Svíþjóðar og Finnlands að NATO verði áfram til umræðu á þingi Norðurlandaráðs sem stendur yfir fram á fimmtudag. Framtíðarhlutverk Norðurlanda í heiminum verður þema þingsins í ár þar sem áhersla verður lögð á öryggisáskoranir, stríðið í Úkraínu og orku- og loftslagsvána.