Uppsveifla er á ný í faraldri COVID-19 í að minnsta kosti átján Evrópulöndum. Smitum fjölgar m.a. í Bretlandi, Frakklandi, á Ítalíu og í Þýskalandi og sagði Hans Kluge, yfirmaður Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), í gær að hörðum takmörkunum sem settar voru á er ómíkron-afbrigðið kom fram á sjónarsviðið hafi verið aflétt of skarpt þegar ljóst var að sjúkdómseinkenni eru almennt vægari en af fyrri afbrigðum kórónuveirunnar. Takmarkanir vegna ómíkron hafi verið „of miklar“ en svo skyndilega „of litlar“ og á of stuttum tíma. Smitum fækkaði hratt í lok janúar eftir stærstu bylgjuna hingað til en hefur farið fjölgandi síðustu daga og vikur. Fimm milljónir nýrra tilfella hafa greinst í Evrópu síðustu viku og 12.500 manns með COVID-19 hafa látist. Kluge segir „nýja umferð“ af sýkingum í álfunni hafna sem rekja megi til undirafbrigðis ómíkron; BA.2.
Það er hægt að endursýkjast af þessu undirafbrigði, segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir við Kjarnann, en það er sennilega mjög sjaldgæft. Af þeim sem greinst hafa á Íslandi eftir 1. desember, þ.e. eftir að ómíkrón-bylgjan hófst, hafa tæplega 500 manns greinst tvisvar. Á þessu tímabili hafa 170 þúsund manns greinst með veiruna.
Hann segist ekki hafa af þessu sérstakar áhyggjur. Um 11 prósent þeirra sem sýktust af öðrum afbrigðum á fyrri stigum faraldursins endursýktust af ómíkron. Hins vegar er ekki hægt að gera greinarmun á BA.1 (ómíkrón) og BA.2 (undirafbrigðinu) í gögnum íslenskra heilbrigðisyfirvalda.
Sennilega fyrr á ferðinni en aðrar þjóðir
En eigum við von á nýrri bylgju smita, líkt og hafin er í nokkrum löndum Evrópu?
„Ólíklega eins og staðan er núna,“ segir Þórólfur. „Við erum búin að ganga í gegnum ómíkron-bylgjuna og smit eru núna á niðurleið hjá okkur. Við erum sennilega fyrr á ferðinni en margar þjóðir.“
Hvað síðan taki við sé óljóst. „Munum við fá ný afbrigði sem bóluefnin vernda ekki gegn eða fyrri sýkingar? Mun verndin eftir bólusetningu eða náttúrulega sýkingu ekki endast nema einhverja mánuði og mun ómíkron þá aftur komast á strik? Það eru fjölmörg „ef“ í þessu.“
Skoða að bjóða öldruðum fjórða skammtinn
Um 205 þúsund landsmenn hafa fengið örvunarskammt af bóluefni gegn COVID-19. Flestir fengu örvun sína í lok síðasta árs eða byrjun þessa árs. Einstaklingum með undirliggjandi ónæmisvandamál stendur nú til boða að fá fjórðu bólusetninguna að sögn Þórólfs. „Til skoðunar er að bjóða öldruðum fjórða skammt því þar gæti ávinningurinn verið talsverður. Á þessari stundu er ólíklegt að öllum verði boðinn fjórði skammtur þar sem ávinningurinn hjá þeim er líklega ekki mikill með núverandi bóluefnum.“
Frá upphafi faraldursins hafa 93 einstaklingar með COVID-19 látist hér á landi. Þrír voru undir þrítugu.