Dönsk og sænsk stjórnvöld hafa sent Sameinuðu þjóðunum bréf í tengslum við umræður á fundi öryggisráðs stofnunarinnar um gaslekann í Eystrasalti. Fundurinn fer fram í kvöld og á honum er staðan á stríðinu í Úkraínu einnig til umræðu.
Rússnesk stjórnvöld fóru fram á að fundur yrði haldinn í öryggisráðinu til að ræða gasleka á leiðslunum Nord Stream 1 og 2 sem liggja frá Rússlandi til Þýskalands.
Bréf Norðurlandanna tveggja var sent stofnuninni til að tryggja að umræðan um lekann yrði á „faglegum og staðreyndamiðuðum“ grunni.
Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, segir að í bréfinu hafi verið upplýst um allt sem vitað er á þessari stundu um lekann, „nefnilega það að um viljaverk var að ræða,“ segir hann. Tvær sprengingar urðu skammt frá dönsku eyjunni Borgundarhólmi á mánudag. Í kjölfarið hafa uppgötvast 4 göt á leiðslunum og streymir nú jarðgas í gríðarlegu magni upp á yfirborðið.
Í bréfinu kemur m.a. fram að jarðskjálftafræðingar hafi staðfest sprengingar sem jafnast á við notkun „nokkurra hundraða kílóa“ af sprengiefni. Þá kemur ennfremur fram að umfang lekans sé gríðarlegt og af yfirborði sjávar megi ráða að götin á leiðslunni séu risavaxin, milli 200-900 metrar á lengd.
Dönsk og sænsk stjórnvöld hafa tekið höndum saman við rannsókn málsins enda er eitt gat á leiðslunni innan danskrar lögsögu og annað innan sænskrar. Öllum steinum verður velt við, segir í bréfinu, til að fá „skýra mynd af því sem gerðist og af hverju“.
Gas streymir enn úr leiðslunum. Ekki er vitað með vissu hversu mikið magn af gasi, sem aðallega er metangas, var í þeim er þær sprungu.
Stjórnvöld í bæði Úkraínu og Póllandi telja að rússnesk stjórnvöld hafi staðið að sprengingunum. Stjórnvöld í öðrum löndum Evrópu fara varlegar í síkar yfirlýsingar en segja flest ljóst að um skemmdarverk sé að ræða.
Nord Stream gasleiðslurnar eru að mestu í eigu rússneska ríkisfyrirtækisins Gazprom. Rússar hafa ítrekað notað gasið, sem Evrópa er mjög háð, sem vopn gegn viðskiptaþvingunum sem Evrópusambandið og fleiri hafa beitt þá vegna innrásarinnar í Úkraínu. Verulega var dregið úr gasflæðinu í sumar og loks var alveg skrúfað fyrir. Skömmu síðar urðu sprengingarnar.
Norska loftslagsstofnunin telur að í það minnsta 80 þúsund tonn af metani hafi nú þegar sloppið út í andrúmsloftið frá götum leiðslunnar. Til samanburðar er öll losun Norðmanna á metani árlega í kringum 17 þúsund tonn. „Við höfum aldrei áður séð neitt þessu líkt,“ sagði Cathrine Lund Myhre, rannsakandi við stofnunina, á blaðamannafundi í gær.