Umboðsmaður Alþingis, Skúli Magnússon, sendi fyrr í dag bréf á bæði Lilju Alfreðsdóttur ferðamála-, menningar- og viðskiptaráðherra og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, þar sem óskað er eftir því að ráðherrarnir skýri lagalegan grundvöll fyrir skipan eða tímabundinni setningu nýrra ráðuneytisstjóra í þeirra ráðuneytum.
Lilja Dögg tók ákvörðun um það í síðustu viku að skipa Skúla Eggert Þórðarson ríkisendurskoðanda sem ráðuneytisstjóra í sínu nýja ráðuneyti, en Áslaug Arna setti Ásdísi Höllu Bragadóttur í gær tímabundið í embætti ráðuneytisstjóra í sínu nýja ráðuneyti.
Af bréfum Umboðsmanns Alþingis til ráðherranna tveggja má merkja að hann átti sig ekki fyllilega á því hvaða lagalegi grundvöllur hafi verið fyrir þessari skipun og setningu í embætti – að minnsta kosti óskar hann skýringa.
Í tilfelli Skúla Eggerts fylgdi tilkynningu frá ráðuneytinu um skipan hans lítil klausa um að hann hefði verið skipaður án auglýsingar í embættið á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar sem kveðið er á um heimild til flutnings embættismanna ríkisins milli starfa í 36. grein laganna.
Umboðsmaður Alþingis bendir hins vegar á það í bréfi sínu til Lilju að ríkisendurskoðandi sé embættismaður sem heyri lagalega undir Alþingi og sé sjálfstæður og engum háður í störfum sínum.
Jóhann Páll Jóhannson þingmaður Samfylkingar gagnrýndi skipan Skúla Eggerts í embætti ráðuneytisstjóra á þessum sama grundvelli á þingi í dag og fullyrti að verið væri að misbeita 36. grein laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins með skipan ríkisendurskoðanda í þetta embætti.
Umboðsmaður óskar eftir skýringum á því frá Lilju á hvaða lagagrundvelli ákvörðun um skipunina, án auglýsingar, hafi verið reist.
Ef skýringin sé sú að það hafi verið gert á grundvelli ákvæðis starfsmannalaga um flutning embættismanna milli embætta óskar Umboðsmaður eftir því að ráðherra geri grein fyrir því hvaða forsendur og lagasjónarmið bjuggu þar að baki.
Vill fá að vita af hverju staðan var ekki auglýst
Síðdegis í gær var tilkynnt af hálfu nýs ráðuneytis háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytis að Ásdís Halla hefði verið sett í embætti ráðuneytisstjóra tímabundið til þriggja mánaða, á meðan auglýst yrði eftir ráðuneytisstjóra.
Í bréfi Umboðsmanns Alþingis til Áslaugar Örnu segir að ekki verði annað ráðið, í ljósi þess að verið sé að setja á fót nýtt ráðuneyti, að um nýtt embætti innan ráðuneytisins sé að ræða.
Umboðsmaður óskar því eftir upplýsingum „um hvort umrætt embætti hafi verið auglýst til umsóknar“ og ef svo hafi ekki verið, óskar hann eftir skýringum frá ráðherra á því á hvaða lagagrundvelli það hafi verið gert.
Í tilfelli beggja ráðherra óskar Umboðsmaður Alþingis eftir því að fá svör eigi síðar en þann 11. febrúar næstkomandi.