„TM líftryggingar hf. hefur haft umsókn þína um líf- og sjúkdómatryggingu til skoðunar. Það er niðurstaða áhættumats félagsins að það verður því miður að fresta henni vegna óljósra aukaverkana af bóluefni. Félagið er reiðubúið að skoða nýja umsókn frá þér síðar.“
Þannig hljómar svar tryggingafélagsins TM við umsókn konu um líf- og sjúkdómatryggingu, sem Kjarninn hefur undir höndum. Samkvæmt fyrirtækinu hefur það einu sinni frestað slíkri umsókn og aldrei neitað. Að sögn konunnar var hún spurð í umsóknarferlinu hvort hún hefði upplifað einhver „hjartavandamál“ og sagði hún frá því að hún hefði fundið fyrir hjartsláttartruflunum eftir bólusetningu. Einnig að blæðingar hefðu orðið óreglulegar.
Kjarninn sendi fyrirspurnir á hin stærstu tryggingafélögin, Sjóvá og VÍS, en samkvæmt svörum frá þeim hafa þau ekki frestað eða hafnað umsóknum um líf- og sjúkdómatryggingar á þessum forsendum.
Í svari embættis landlæknis við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að þau hafi „ekkert heyrt af málum sem þessum“.
Yfir 280.000 Íslendingar fullbólusettir
Samkvæmt upplýsingum á covid.is eru 90 prósent landsmanna fullbólusettir, 12 ára og eldri. 286.323 einstaklingar hafa fengið að minnsta kosti einn skammt, 281.841 einstaklingur hefur verið fullbólusettir og 121.234 einstaklingar fengið örvunarskammt.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur frá upphafi hvatt fólk til að bólusetja sig og nú síðast í gær, 8. desember. í pistli á covid.is.
„Þar sem að delta afbrigði kórónaveirunnar er enn í miklum meirihluta hér og erlendis þá er mikilvægt að allir mæti í bólusetningu og þiggi jafnframt örvunarskammt. Ávinningur af bólusetningu og sérstaklega örvunarskammti er ótvíræður,“ skrifaði hann.