Stundin fjallar í dag um dagbókarfærslur konu sem nú er látin en var nemandi Jóns Baldvins Hannibalssonar í Hagaskóla árið 1970. Í dagbókinni lýsir hún samskiptum þeirra, að Jón Baldvin hafi beðið hana að hitta sig eftir skóla, að hann hafi hjálpað henni á prófum og að samband þeirra hafi verið kynferðislegt. Dóttir konunnar afhenti Stundinni dagbókina og fann einnig bréf í dánarbúi móður sinnar frá Jóni Baldvini. Í bréfinu segir hann hjarta sitt slá örar og blóðið renna hraðar þegar hann hugsi um hana. „Þarna sérðu hvað fegurð æskunnar er drottnandi afl í tilverunni. – Hvað það er undarlegt að vera ungur. Þú hefur minnt mig á það aftur,“ skrifaði Jón Baldvin.
Konan lýsir í dagbók sinni samskiptum við Jón vikum saman, bæði í skólanum og utan hans. Hún skrifar, svo eitt af mörgum dæmum sé tekið, þegar hún hitti Jón Baldvin í Ingólfsstræti eitt sinn vorið 1970 og ræddi stuttlega við hann. Þegar þau voru að kveðjast setti hann allt í einu hendina „niður undir“ buxurnar hennar, að kynfærum hennar. „Ég kunni því illa og sýndi það með einhverjum svipbrigðum og mótþróa,“ skrifaði hún. Í annarri færslu lýsir hún því að Jón Baldvin hafi ekið með hana upp að vatni fyrir utan borgina og kysst hana í laut. „Hann svo lagðist ofan á mig. Það var skítakuldi. Svo fórum við aftur inn í bílinn“. Í sömu ferð hafihann greint henni frá því sem fram kæmi á ensku prófi stóð fyrir dyrum. Hann hafi skrifað „allan stílinn“ upp fyrir hana og „sagði svo að ég tældi hann og léti hann segja þetta allt.“
Í sömu dagbókarfærslu skrifar hún að Jón Baldvin hafi spurt hana hvort hún kynni að keyra bíl. Svo hafi hann bætt við: „Nei, þú ert 15 ára ég gleymdi því að ég er með barn hjá mér.“
Stundin fann margvíslegar staðfestingar á því sem fram kom í dagbókinni og í bréfinu, m.a. í gögnum Hagaskóla sem og í viðtölum við skólasystur hennar frá þessum tíma.
Lifði ekki til að sjá byltinguna
Konan hét Þóra Hreinsdóttir. Hún lést fyrir sex árum. „Mamma var dáin áður en konur fóru að stíga fram og segja frá ofbeldi sem þær voru beittar,“ hefur Stundin eftir Valgerði Þorsteinsdóttur, dóttur Þóru. „Mamma lifði ekki til að sjá byltinguna. Ég ákvað að afhjúpa þetta brot úr hennar sögu af því það sem Jón Baldvin gerði mömmu þarf að komast í dagsljósið. Dagbókin á ekki að liggja í kassa í geymslu hjá mér.“
Hún segir móður sína hafa verið greinda og hæfileikaríka konu sem haldrei hafi fyllilega fengið að láta ljós sitt skína. Sjálfsmynd hennar hafi verið í molum frá unglingsárum. „Henni leið yfirleitt illa. Eina leiðin sem hún kunni til að deyfa skömm, sorg og stanslausar sjálfsásakanir var að drekka,” segir Valgerður við Stundina. „Það voru miklar sviptingar í lífi mömmu stuttu áður en hún lenti í tímum hjá Jóni Baldvini. Hún var því einstaklega brotin og varnarlaus þegar hann fór að sýna henni þessa sérstöku athygli. Hann gerði í raun bara illt verra og hún beið þess aldrei bætur.“
Í ítarlegri umfjöllun Stundarinnar í dag um málið er m.a. rætt við ekkil Þóru. „Hún sagði mér að um leið og Jón Hannibalsson kyssti hana fyrsta kossinum hefði hann eyðilagt líf hennar.“
Stundin bauð Jóni Baldvini að bregðast við umfjöllun sinni um málið. Hann sendi í kjölfarið tölvupóst undir yfirskriftinni „Um mannorðsþjófnað“ þar sem hann segist geta fullyrt með „góðri samvisku“ að umrædd stúlka hafi ekki orðið fyrir kynferðislegri áreitni af sinni hálfu. Hann telur augljóst að málið sé dregið fram í dagsljósið til að sverta mannorð hans.
Umfjöllun Stundarinnar má lesa hér.