Helga Rakel Guðrúnardóttir, tæplega 45 ára fjölskyldukona í Kópavogi, var hökkuð í fyrrahaust. Sá sem það gerði hefur deilt persónulegum upplýsingum um hana á netinu og hótað því að gera meira. Hún hefur líka fengið bréf heim til sín sem hún telur að sé fyrst og síðast skilaboð um að hakkarinn viti hvar hún eigi heima. Afleiðingarnar hafa verið miklar, bæði persónulega og faglega.
Helga Rakel Guðrúnardóttir, kærði brotin til lögreglu sem hefur þó ekki viljað rannsaka þau. Hún segir, í ítarlegu viðtali við Kjarnann sem birtist síðastliðinn fimmtudag, að hún hafi fengið áfallastreituröskun í kjölfar þess að hún var hökkuð. „Ég hrundi alveg saman og ég hef þurft að vera hjá sálfræðingi til að vinna úr þessu. Líf mitt svolítið hrundi við þetta. Ég bjóst aldrei við því að einhver myndi gera mér svona.
Það lokuðust líka ofboðslega margar dyr fyrir mig faglega. Ég bý til YouTube-myndbönd og þetta hafði áhrif á tekjur mínar af þeim. Það eru samkeppnisaðilar mínir sem eru að gera þetta. Tækifærum fækkaði. Keppnir sem ég var að taka þátt í, allt í einu lokaðist á þær. Fólk hætti að tala við mig. Þetta hafði miklar afleiðingar fyrir mig, bæði persónulega og faglega.“
Þeir rannsaka bara það sem þeir vilja
Hún segir að þegar það rann upp fyrir henni að hún væri með stafrænan eltihrelli þá hafi hún hætt að geta skapað. „Það bara læsist á mig. Ef ég er að tala við fólk í gegnum þetta forrit, þá er ég alltaf að hugsa um hvort það sé verið að fylgjast með mér? Það er svo óþægileg tilfinning.“
Aðspurð hver upplifun hennar sé af því að kæra brot gegn friðhelgi einkalífs síns til lögreglunnar á Íslandi segir Helga Rakel að hún sé hræðileg. „Ég upplifði að þeim kæmi ekkert við að á mér væri brotið. Þeir eru ekki að vernda mig. Þeir eru bara að rannsaka það sem þeir vilja.“
Lögmaður Helgu Rakelar kærði ákvörðun lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um að hætta rannsókninni til ríkissaksóknara í gær. Í bréfi sem sent var vegna þessa segir meðal annars: „Að mati undirritaðs og skjólstæðings míns hefur mál þetta ekki fengið þá athygli embættisins sem því ber skv. lögum og í ljósi alvarleika þess. Um auðkenna og einkenna stuld er að ræða og alvarlega árás á einkalíf og friðhelgi skjólstæðings míns. Lögreglan hefur ítrekað komið fram og hvatt borgara landsins til að kæra og vera á varðbergi gagnvart tölvuárásum og auðkenna þjófnaði og þykir undirrituðum því miður og afar einkennilegt hvernig þetta mál var meðhöndlað. Skjólstæðingur minn hefur lagt sig fram við að afla gagna og staðfestinga á háttsemi hins kærða og m.a. verið í samskiptum við erlend löggæsluembætti sem sýnt hafa málinu áhugaen beðið hafa aðgerða og rannsóknar íslenskra löggæsluyfirvalda. Því kann trúverðugleiki embættisins að bíða hnekki ef mál þetta fær ekki þá athygli og rannsókn sem nauðsynleg er.“