Myllusetur, sem gefur meðal annars út Viðskiptablaðið, hagnaðist um 7,5 milljónir króna í fyrra. Það er mikill viðsnúningur frá árinu 2020 þegar útgáfufélagið tapaði 55,2 milljónum króna og setti 15 af 18 starfsmönnum sínum á hlutabótaleiðina svokölluðu, þar sem ríkið greiddi stóran hluta af launum þeirra um skeið.
Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem birtur var nýverið í fyrirtækjaskrá.
Rekstrartekjur Mylluseturs jukust umtalsvert milli ára og voru 303 milljónir króna á árinu 2021. Það eru 13,4 prósent meiri tekjur en félagið hafði árið 2020. Inni í rekstrartekjum er 26,8 milljóna króna rekstrarstyrkur sem Myllusetur fékk úr ríkissjóði. Félagið fékk líka styrk í ár, en hann var 25 milljónir króna, og því lægri en í fyrra, þrátt fyrir að launakostnaður Mylluseturs hefði aukist um næstum 23 milljónir króna á milli ára og hafi verið 178,8 milljónir króna á síðasta ári. Meðalfjöldi starfsmanna var hins vegar áfram 16, líkt og hann hafði verið ári áður.
Eigið fé 22,5 milljónir
Rekstrargjöld jukust í heild um rúmlega ellefu milljónir króna milli ára. Þá lækkaði vaxtakostnaður Mylluseturs umtalsvert frá árinu 2020 þegar hann var 23,5 milljónir króna. Í fyrra fór hann niður í 8,1 milljónir króna, eða rúmlega þriðjung þess sem hann var ári áður.
Eigendur Mylluseturs eru tveir, félagið PÁJ Invest í eigu Péturs Árna Jónssonar sem á 67 prósent hlut, og SBJ Invest í eigu Sveins Biering Jónssonar sem á 33 prósent hlut. Félagið hafði skilað smávægilegum hagnaði, undir tveimur milljónum króna, á árunum 2018 og 2019.
Lesturinn minni en fyrir ári
Viðskiptablaðið kemur út á fimmtudögum og er selt í áskrift. Alls lesa 4,7 prósent landsmanna það blað og hjá aldurshópnum 18 til 49 ára mælist lesturinn 3,8 prósent.
Lesturinn hefur dalað við síðustu mánuði en í ágúst 2021 var hann 6,1 prósent og hefur því dregist saman um 23 prósent á einu ári. Hjá lesendum undir fimmtugu hefur hann dregist saman um 39 prósent á einu ári.
Auk blaðaútgáfu heldur Myllusetur úti fréttavefunum vb.is, sem var að mestu lokað fyrir öðrum en áskrifendum fyrr á þessu ári, og fiskifrettir.is auk þess sem útgáfufélagið stendur að útgáfu Íslenska sjómannaalmanaksins. Þá á Myllusetur, og gefur út, Frjálsa verslun.