Til stendur að vísa hópi Palestínumanna og Sýrlendinga úr landi á næstunni, einhverjum þegar á morgun. Fólkið á að senda til Grikklands þar sem það hafði þegar fengið stöðu flóttamanna. Lögmenn þeirra segja hins vegar ástandið þar engan veginn ásættanlegt og því ekki forsvaranlegt að íslensk stjórnvöld sendi þangað fólk sem leitað hefur hér skjóls. Magnús Norðdahl, lögmaður um tíu Palestínumanna, segir að á Grikklandi sé, ólíkt því sem íslensk yfirvöld vilja meina, „ekki virk alþjóðleg vernd. Ekki í neinum skilningi”. Um það votti niðurstöður fjölmargra alþjóðlegra skýrslna. „Mínir skjólstæðingar geta ekki hugsað sér að vera sendir þangað aftur.“
Rauði krossinn vill svör frá Útlendingastofnun
Arndís Anna Gunnarsdóttir, lögmaður nokkurra Palestínumanna og Sýrlendinga, minnir á að það sé engin tilviljun að fólk sem fengið hafi stöðu flóttamanna í Grikklandi flýi þaðan. Hún segir Útlendingastofnun beita fólk sem senda á héðan hótunum sem felist í því að neiti það að fara í COVID-próf sé það svipt framfærslu og jafnvel húsnæði. Einum sýrlenskum skjólstæðingi hennar hafi þegar verið gert að yfirgefa húsnæði sem hann sé í á vegum stofnunarinnar. Guðríður Lára Þrastardóttir lögfræðingur hjá Rauða kross Íslands, segist aðspurð hafa fengið það staðfest hjá Útlendingastofnun að þetta séu þau skilaboð sem hælisleitendur sem senda á aftur til Grikklands og neita að fara í COVID-próf fái. Samtökin hafa óskað eftir upplýsingum um á hvaða lagaheimild þessi aðgerð stofnunarinnar byggi.
Palestínsku umbjóðendur Magnúsar eru flestir karlmenn sem hafa komið hingað til lands á síðustu mánuðum og beðið um hæli. Magnús segir „alltaf tekið harðar á þeim hópi í kerfinu“. Þeim hafi margoft verið tilkynnt af lögreglu á síðustu vikum að nú verði þeir sendir til Grikklands – þennan daginn eða hinn. „En við erum ekki með neinar áreiðanlegar upplýsingar um hvenær þeim verði vísað úr landi“. Honum er ekki kunnugt um að þeir séu bólusettir gegn COVID-19 og ekki heldur að þeir hafi farið í sýnatöku sem sé forsenda þess að hægt sé að senda þá úr landi.
Á fyrri stigum heimsfaraldursins var brottvísunum héðan og til Grikklands frestað. Nú eru yfirvöld aftur farin að framkvæma brottvísanir og það í ástandi sem sé að sögn Magnúsar enn verra en það var. Arndís bendir á að það sé engin tilviljun að flestir þeir sem hér leiti verndar núna séu að koma frá Grikklandi. Það eigi sér einfaldlega þá skýringu að ástandið þar sé skelfilegt. „Af hverju er fólk sem fengið hefur stöðu flóttamanna á Spáni ekki að koma hingað? Eða Búlgaríu? Litháen? Það er af því að flóttafólk á Grikklandi hefur enga kosti. Það á sér þar enga framtíð. Það er ekkert sem það getur gert til að komast út úr þeirri stöðu. Þetta er fólk sem átti heimili, fjölskyldu og hafði vinnu. En svo missir það allt.“ Staðreyndin sé sú að í Grikklandi sé flóttafólk að deyja á götum úti. Ástandið sé „stóralvarlegt“ og að þangað eigi ekki að vísa fólki. „En það er ekkert hlustað.“
Ástandið í Palestínu hefur lengi verið slæmt og síðustu daga og vikur hefur það versnað enn frekar. „Svarið frá íslenskum stjórnvöldum verður alltaf á þá leið að það sé ekki verið að vísa þeim þangað – heldur til Grikklands,“ segir Magnús en bendir á að það sé rík ástæða fyrir því að fólkið hafi haldið flóttanum áfram frá Grikklandi og til Íslands. „Það er að mínum dómi algjörlega óforsvaranlegt að íslensk stjórnvöld vísi hælisleitendum aftur til Grikklands þegar að fyrirliggjandi gögn, fyrirliggjandi skýrslur, bendi til þess að ástandið þar sé á engan hátt öruggt fyrir þá sem hafa fengið þar alþjóðlega vernd. Það er ástæða fyrir því að þessir aðilar flýja þetta land. Sama hvort að þar eigi í hlut fólk sem flúið hefur Palestínu eða einhver önnur lönd.“
Ekki með atvinnuleyfi
Arndís Anna hefur verið með um 10 umbjóðendur frá Palestínu og Sýrlandi á síðustu vikum en einhverjir þeirra eru farnir úr landi. Eftir að úrskurðir í þeirra málum hafi legið fyrir, um að mál þeirra verði ekki tekin til efnislegrar meðferðar og þeir því aftur sendir til Grikklands, hafi sumir þeirra neitað að gangast undir sýnatöku vegna COVID-19 og í kjölfarið hafi Útlendingastofnun í einhverjum tilvikum sagt þeim að geri þeir það ekki verði þeir sviptir framfærslu og jafnvel húsnæði. „Þeir eru ekki með atvinnuleyfi. Hvað eiga þeir að gera?“ spyr Arndís. Hún segir að það sem yfirvöld ætli sér með þessu sé að fá fólkið til að samþykkja að fara aftur til Grikklands.
Einn skjólstæðinga Arndísar frá Sýrlandi hafði samband í morgun og greindi henni frá því að honum hafi verið sagt að taka saman allt dótið sitt. Að það væri að koma leigubíll að sækja hann. Hvert hann átti að fara vissi hann ekki en að minnsta kosti væri búið að vísa honum út úr því húsnæði sem hann hefur dvalið í á vegum Útlendingastofnunar. „Hann veit ekkert hvað hann á að gera. Hvort að hann eigi að láta sig hafa það að fara aftur til Grikklands. Hvar á hann að sofa í nótt? Þetta er fráleit staða.“
Taka skárri kostinn
Arndís segir einhverja hafa tekið þann kostinn að fara í COVID-próf og til Grikklands enda sé þar hlýrra að dvelja á götunni en hér á landi. Um það snúist kostirnir tveir í raun. Hún segir það bókstaflega þannig að margir muni enda á götunni í Grikklandi því þar sé enga aðstoð að fá, hvorki húsaskjól, heilbrigðisþjónustu og hvað þá atvinnu. Einn umbjóðandi Arndísar sá sér þann kost vænstan að fara aftur til Grikklands nýverið en þar ætli hann ekki að staldra lengi við heldur fara aftur til landsins sem hann flúði fyrst: Sýrlands. „Þar hefur hann alla vega fjölskylduna.“ Þetta segir hún til marks um þær aðstæður sem flóttafólk í Grikklandi þurfi að búa við.
Yfirvöld hér á landi séu að „gerast harðari og harðari“ og að þau láti eins og COVID-faraldurinn sé búinn. En faraldurinn hafi verið eins og „olía á eld“ aðstæðna flóttafólks í Grikklandi.
Þeir hælisleitendur sem fari aftur til Grikklands ætli sér alls ekki að vera þar áfram. Það sé einfaldlega ekki hægt. „Þeir halda áfram að leita. Að reyna að komast af. Lifa.“
Á heimasíðu Útlendingastofnunar kemur fram að á fyrstu þremur mánuðum ársins hafi 23 Palestínumenn sótt um vernd hér á landi og átta frá Sýrlandi. Í heild hafi 28 hælisleitendur verið fluttir frá landinu á tímabilinu. Á sama tíma hafi fjórir Palestínumenn fengið hér vernd, átján fengið svokallaða viðbótarvernd, fimm verið brottvísað á forsendum Dyflinnarreglugerðarinnar og 45 fengið vernd í öðru ríki.
122 Palestínumenn sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi í fyrra og sextíu Sýrlendingar.