Á mánudag dró til tíðinda í Nýja-Sjálandi, en þá viðurkenndu stjórnvöld í fyrsta sinn að ljóst væri að ekki yrði hægt að útrýma kórónuveirunni algjörlega úr samfélaginu í kjölfar þess að delta-afbrigði veirunnar komst inn í veirulaust landið í lok ágúst.
Jacinda Ardern forsætisráðherra flutti landsmönnum fréttirnar, eftir að afar stífar samkomutakmarkanir höfðu verið í gildi í Auckland, stærstu borg landsins, í heilar sjö vikur.
Enn voru að greinast smit á hverjum degi og þau orðin fleiri en 1.300 alls frá ágústlokum. Ardern sagði ljóst að þetta langa tímabil strangra takmarkana hefði ekki náð smitfjöldanum niður í núll, en sagði að það væri í lagi.
„Útrýmingin var mikilvæg af því að við vorum ekki með bóluefni. Nú höfum við það, svo við getum byrjað að breyta því hvernig við gerum hlutina,“ sagði forsætisráðherrann, en stóraukinn kraftur var settur í bólusetningu þjóðarinnar eftir að þessi nýja bylgja faraldursins fór af stað.
Afar varfærnar afléttingar í Auckland
Um það bil ein og hálf milljón manna býr í Auckland og hefur þeim meira og minna verið gert að halda sig heima undanfarnar vikur, nema til þess að sækja allra brýnustu þjónustu. Samgangur á milli heimila hefur verið bannaður.
Skrefin þrjú sem á að stíga til afléttingar aðgerða eru afar varfærin, samkvæmt útlistun á þeim á vef nýsjálenskra stjórnvalda.
Í fyrsta afléttingarskrefinu, sem tók gildi strax á þriðjudagskvöld, er fólki af tveimur heimilum að hámarki leyft að koma saman utandyra, en þó ekki í fjölmennari hópum en tíu manna. Þá stendur til að opna skóla fyrir yngstu börnin og fólki verður að nýju heimilt að ferðast um borgina og nágrenni hennar í afþreyingarskyni, til dæmis ef það vill fara á ströndina eða að veiða.
Búið er að setja fram tvö skref til afléttinga til viðbótar, en þau eru ekki tímasett og ekki verður ráðist í þau nema að ljóst sé að fyrri afléttingar séu að halda útbreiðslu veirunnar í skefjum. Ríkisstjórnin mun meta þá stöðu vikulega næstu vikur.
Annað skrefur felur í sér að hefðbundnum verslunum verður heimilt að opna dyr sínar að nýju, en þar mun þurfa að nota grímur og halda fjarlægðar við aðra. Sundlaugar og dýragarðar mega opna að nýju og fjöldi þeirra sem mega koma saman utandyra verður hækkaður í 25.
Þriðja skrefið felur síðan í sér að veitingastaðir mega opna dyr sínar fyrir allt að 50 manns. Hárgreiðslustofur og aðrir staðir þar sem þjónusta er veitt í návígi við viðskiptavini má einnig opna að nýju og 50 manns munu mega koma saman.
Á öðrum stöðum í landinu er áfram viðbúnaðarstig 2 af 4 í gildi, en reglum um að einungis 100 manns megi koma saman á veitingastöðum hefur þó verið aflétt utan Auckland.
Stjórnvöld segja að þegar afléttingarskrefin hafa öll verið stigin í Auckland muni landið færa sig yfir í áætlanir á landsvísu sem taki mið af því að hærra hlutfall íbúa hafi fengið bólusetningu og til stendur að taka upp einhverskonar bólusetningarvegabréf til þess að geta haldið stærri viðburði.
„Bólusetningar voru alltaf að fara að breyta því hvernig við tækjumst á við COVID-19 inn í framtíðina, en okkar leið hefur virkað og mun áfram verða til staðar – við viljum stjórna veirunni, forðast smit og sjúkrahúsinnlagnir, njóta frelsis okkar og endurtengjast heiminum,“ segir í tilkynningu stjórnvalda frá því á mánudaginn.
27 manns hafa látist af völdum COVID-19 í Nýja-Sjálandi frá því veirunnar varð fyrst vart þar í mars árið 2020.