Hreint útstreymi króna í kjölfar uppgjörs slitabúa föllnu bankanna gæti numið 24 prósent af landsframleiðslu. Auk þess gætu möguleg áhrif vegna útstreymis aflandskróna verið allt að 14 prósent af landsframleiðslu. Því er ljóst að uppgjör búanna og losun hafta mun að óbreyttu valda miklum þrýstingi á gengi íslensku krónunnar. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýju Fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands sem birt var í gær.
Upphaflega átti að birta ritið í síðustu viku, en hætta var við það með litlum fyrirvara. Til stóð að birta viðauka með ritinu, en ekki tókst að ljúka mati á undanþágubeiðnum fyrir birtingardag, sem var áætlaður 6. október upphaflega. Í viðaukanum við ritið átti að greina frá tillögum kröfuhafa um hvernig þeir hygðust uppfylla stöðugleikaskilyrði stjórnvalda og mati á heildaráhrifum mögulegra nauðasamninga á grundvelli þeirra. Mat á undanþágubeiðnum einstakra búa gömlu bankanna liggur hins vegar ekki fyrir og því var birtingu viðaukans frestað um óákvæðin tíma.
Mikið útstreymi
Það er þó fjallað um þau stóru skref sem framundan eru í losun fjármagnshafta í ritinu. Þar segir meðal annars að „hreint útstreymi króna gæti numið 24 prósent af landsframleiðslu auk mögulegra áhrifa vegna útstreymis aflandskróna, allt að 14 prósent af landsframleiðslu“. Útstreymið gæti því samtals numið um 38 prósent af landsframleiðslu, en hún var 1.989 milljarðar króna í fyrra.
Kröfuhafar Glitnis, Kaupþings og Landsbankans hafa þegar lagt fram tillögur um aðgerðir og greiðslu stöðugleikaskatts. Samtals eiga þær að nema 334 milljörðum króna. Í Fjármálastöðugleikaritinu segir að unnið sé að því að „ yfirfara tillögur allra búa í slitum og meta hvort skilyrðum um stöðugleika sé mætt hjá hverju og einu. Það er þó ljóst að komið verður í veg fyrir neikvæð áhrif á gengi og gjaldeyrisforða og hrein erlend staða þjóðarbúsins mun batna. Greiðsla stöðugleikaframlags mun hafa mikil áhrif á peningamagn í umferð að óbreyttu og því er mikilvægt að ráðstafa framlaginu með hliðsjón af því og þannig að stöðugleika sé ekki ógnað“.
Matið liggur ekki fyrir
Seðlabankinn hafði sagt að viðauki yrði með Fjármálastöðugleikaritinu sem myndi innihalda heildstæða greiningu á áhrifum slita búanna á grundvelli nauðasamninga með stöðugleikaskilyrðum yrðu á þjóðabúið, greiðslujöfnuð, ríkissjóð og fjármálastöðugleika. Ekki reyndist hægt að birta þann viðauka þar sem niðurstaða matsins liggur ekki fyrir.
Í ritinu segir: „Það er þó ljóst að neikvæðum áhrifum á gengi og gjaldeyrisforða verður eytt enda forsenda þess að undanþágur verði veittar. Þá mun undirliggjandi erlend skuldastaða þjóðarbúsins lækka og gæti hún numið 16 -18 prósent af landsframleiðslu eftir því hvernig hin endanlega niðurstaða mun líta út. Skuldir ríkissjóðs munu einnig lækka en útfærsla þess er háð því að ráðstöfun stöðugleikaframlags raski ekki efnahagslegum stöðugleika. Þá gæti lausafjárstaða bankanna eitthvað þrengst en innan marka sem bankarnir ráða við gæti þeir að því að veikja hana ekki um of með of mikilli útlánaaukningu á næstu mánuðum. Seðlabankinn mun birta nánari greiningu á ofangreindum þáttum þegar niðurstaða liggur fyrir“.