Fjártæknifyrirtækið Rapyd hefur samið um kaup á Valitor hf. fyrir 100 milljónir Bandaríkjadala, eða 12,3 milljörðum íslenskra króna. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birtist á vef Keldunnar fyrr í dag.
Samkvæmt tilkynningunni er gert ráð fyrir því að kaupin klárist í lok þessa árs, en enn á eftir að fá samþykki eftirlitsaðila fyrir þeim.
Valitor, sem er greiðslumiðlunarfyrirtæki í eigu Arion banka, hefur verið til sölu frá árinu 2018. Samkvæmt ársreikningum bankans hefur það skilað milljarðatapi frá þeim tíma, en samanlagt tap þess árin 2018, 2019 og 2020 nam 13 milljörðum króna.
Í síðasta ársreikningi Arion banka segir að Valitor hafi ráðist í umfangsmikla endurskipulagningu og hagræðingaraðgerðir í fyrra, auk þess sem starfsemi félagsins í Danmörku og hluti starfseminnar í Bretlandi hafi verið seld. „Áfram er Valitor í söluferli en það hefur tekið lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir, m.a. vegna breyttra markaðsaðstæðna tengdum Covid-19. Þrátt fyrir þessa seinkun finnur bankinn áhuga frá ýmsum aðilum á kaupum á Valitor.“
Arion gerir nú ráð fyrir að færa til tekna rúmlega 3,5 milljarða í söluhagnað og áætlar að umfram eigið fé hækki um 8 til 11 milljarða króna. Samkvæmt sölutilkynningunni munu viðskiptavinir Valitor ekki verða fyrir neinni röskun á þjónustu vegna kaupanna og eiga brátt að hafa aðgang að greiðsluleiðum og fjártækniþjónustu Rapyd.