Áskorun rúmlega 50 nágranna Bræðraborgarstígs 1 og 3 þar sem borgaryfirvöld eru m.a. hvött til að eignast lóðirnar og byggja þar í takti við byggð á svæðinu, hefur verið lögð fyrir undirbúningsfund borgarráðs og send öllum borgarfulltrúum til upplýsingar og kynningar.
Fyrir um átján mánuðum varð mannskæðasti eldsvoði i sögu höfuðborgarinnar í húsinu að Bræðraborgarstíg 1. Þrír létust, allt ungt fólk. Þá var húsið, sem og það sem stendur við Bræðraborgarstíg 3, í eigu félagsins HD Verks.
Núverandi eigendur lóðarinnar, Þorpið vistfélag, létu rífa brunarústirnar, Bræðraborgarstíg 1 og Vesturgötu 47, nýverið og áforma að byggja á reitnum hús með íbúðum fyrir eldri, einstæðar konur. Um verulega aukningu byggingarmagns á reitnum yrði að ræða samkvæmt framkomnum frumtillögum. Verkefnið er í farvegi hjá embætti skipulagsfulltrúa sem hefur fengið tvær útfærslur að uppbyggingunni til umfjöllunar.
Í umsögn skipulagsfulltrúa í sumar sagði að nýjasta tillagan, sem Yrki arkitektar ehf. unnu fyrir Þorpið vistfélag um uppbyggingu á Bræðraborgarstíg 1 og 3, dragi upp mynd af „innhverfri“ byggingu sem sé „lík virki sem hrindir frá sér umhverfinu“. Útfærsla bygginga væri bæði „umfangsmikil og nokkuð framandi“ með tilliti til byggðamynsturs í gamla Vesturbænum og þyrfti að opna sig mun betur út í umhverfið og samfélagið. Ekki væri augljóst að fallast á sameiningu lóðanna tveggja, líkt og Þorpið áformar, og nauðsynlegt væri að vinna heildardeiliskipulag yfir reitinn á kostnað framkvæmdaaðila.
Ýmsar athugasemdir hafa verið gerðar við fyrirliggjandi hugmyndir og er uppbyggingaraðili að vinna að því að bregðast við þeim, segir í svari Dags B. Eggertssonar borgarstjóra við fyrirspurn Kjarnans um í hvaða farveg áskorun íbúanna fari. „Þar sem enn eru ekki komnar fram endanlegar eða ásættanlegar tillögur eru útfærslur ekki komnar til kasta skipulags- og samgönguráðs, né borgarráðs eða borgarstjórnar,“ segir Dagur. „Vanda þarf til verka á þessu mikilvæga og viðkvæma horni og má því gera ráð fyrir að vinnan taki nokkurn tíma.“
Nágrannar vilja að á lóðinni verði minnisvarði um brunann og reiturinn byggður upp af virðingu við fórnarlömbin og þá mikilvægu menningararfleifð sem felist í einu elsta byggðamynstri borgarinnar. Hópurinn leggur m.a. til að gömul hús sem áður stóðu á þessum slóðum verði flutt á reitinn og hann verði samkomustaður fólksins í Gamla Vesturbænum.
Þurfa að fá tíma til að syrgja
Samfélagið í Gamla Vesturbænum vill fá að taka þátt í að móta framtíðina í hjarta hverfisins. „Og það ætti að hlusta á raddir íbúanna og hvað þeir hafa til málanna að leggja.“ sagði sagnfræðingurinn Astrid Lelarge, sem hefur sérhæft sig í skipulagssögu og býr skammt frá Bræðraborgarstíg 1, í samtali við Kjarnann nýverið.
Astrid segir að íbúarnir og þeir sem misstu ástvini sína í brunanum þurfi líka að fá tíma til að syrgja og fyrir sárin að gróa. „Þetta var áfall fyrir marga, fyrst og fremst fyrir þá sem bjuggu þarna og ástvini þeirra.“
Hún segir líka hafa verið erfitt fyrir marga nágranna að horfa upp á það sem gerðist, sérstaklega eftir að ítrekað var varað við ástandi hússins. Sumir þeirra hafi svo orðið vitni að eldsvoðanum. „Það sem er byggt upp í staðinn, eftir svona áföll, skiptir miklu máli og hefur líka áhrif á fólk. Það verður að taka það með í reikninginn þegar farið er að huga að uppbyggingu á ný á þessum stað.“