Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og varaformaður Vinstri grænna, segir að „auðvitað vilja vinstri menn alltaf vera í vinstri stjórn [...] Þá náum við meiri árangri í þeim málum sem við leggjum á borðið og leggjum áherslu á.“
Hann segir ennfremur að stofnun hálendisþjóðgarðs, eitt helsta mál Vinstri grænna á kjörtímabilinu, hafi mætt andstöðu innan samstarflokka Vinstri grænna í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Þetta er meðal þess sem fram kom í viðtali við Guðmund á Fréttavaktinni á Hringbraut í gærkvöldi.
Stofnun Miðhálendisþjóðgarðs var á meðal þeirra mála sem rötuðu inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Þar stendur orðrétt: „stofnaður verður þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila. Skoðaðir verða möguleikar á þjóðgörðum á öðrum svæðum.“
Líkurnar á vinstri stjórn minni en þeirri sem nú situr
Miðað við núverandi stöðu flokka í könnunum eru líkurnar á því að ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks geti setið áfram eftir komandi kosningar 61 prósent. Þetta má lesa út úr nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar stærðfræðings.
Líkurnar eru fengnar með því að framkvæma 100 þúsund sýndarkosningar. Í hverri sýndarkosningu er vegið meðaltal þeirra skoðanakannana sem kosningaspáin nær yfir hverju sinni líklegasta niðurstaðan en sýndarniðurstaðan getur verið hærri eða lægri en þetta meðaltal og hversu mikið byggir á sögulegu fráviki skoðanakannana frá úrslitum kosninga.
Þá er að óbreyttu nánast útilokað að mynda þriggja flokka stjórn án aðkomu Sjálfstæðisflokks. Sú sem er líklegust er stjórn Vinstri grænna, Samfylkingar og Pírata, en líkurnar á henni eru þrjú prósent.
Líklegustu fjögurra flokka stjórnirnar sem hægt yrði að mynda án aðkomu Sjálfstæðisflokks eru annars vegar ríkisstjórn Vinstri grænna, Pírata, Samfylkingar og Framsóknarflokksins, en 54 prósent líkur eru á því að slík stjórn, sem skilgreina mætti sem vinstri stjórn, geti náð meirihluta á þingi. Hins vegar eru 35 prósent líkur á að hægt verði að mynda ríkisstjórn sem byggir á Reykjavíkurmódelinu svokallaða, þar sem Samfylking, Vinstri græn, Píratar og Viðreisn starfa saman í meirihluta.