Heiðar Örn Sigurfinnsson, varafréttastjóri fréttastofu RÚV, segir að með afsökunarbeiðni Samherja, sem birt var í gær, kveði við nýjan tón og vonar að það verði framhald þar á. Í stöðuuppfærslu á Facebook segir hann þó ýmislegt við afsökunarbeiðnina trufla.
Athugasemdir Heiðars eru aðallega, en þó ekki eingöngu, þrjár.
Í stöðuuppfærslunni skrifar hann: „Í fyrsta lagi er ekki mjög skýrt hver er að biðjast afsökunar. Það er enginn skrifaður fyrir þessari afsökunarbeiðni - einungis sagt að Samherji vilji biðjast afsökunar á framgöngu ótilgreindra stjórnenda fyrirtækisins. Hvers vegna eru það ekki stjórnendurnir sjálfir sem biðjast afsökunar á framgöngu sinni?
Í öðru lagi er ekki mjög skýrt á hverju er beðist afsökunar. Þar segir eingöngu að það sé ljóst að of langt hafi verið gengið í harkalegum viðbrögðum við „neikvæðri umfjöllun" og á þeirri framgöngu vilji fyrirtækið biðjast afsökunar. Hvaða harkalegu viðbrögð er átt við? Eru það myndböndin sem framleidd voru þar sem fréttamenn Kveiks voru meðal annars sakaðir um að falsa skjöl til stuðnings umfjöllun sinni? Eru tilraunir til að hafa af fjölmiðlafólki æruna? Er það „spæjarinn" sem elti Helga Seljan á röndum, sat fyrir honum á kaffihúsi og sendi ógnandi sms? Eru það njósnir um aðra fjölmiðlamenn og listamenn? Er það kannski allt þetta eða eitthvað annað sem ekki hefur komið fram í opinberri umræðu?
Kannski hefði þessi afsökunarbeiðni verið betri ef það væri skýrara hver væri að biðja hvern afsökunar og á hverju. Eins og fram kom í frétt RÚV í kvöld þá vildi forstjóri Samherja ekki veita viðtal til að skýra það. Ekki frekar en hann hefur viljað veita viðtöl til að svara þeim ásökunum sem settar hafa verið fram.“
Með afsökunarbeiðni Samherja kveður við nýjan tón úr þeirri áttinni og það er gott, vonandi verður framhald þar á. Það...
Posted by Heiðar Örn Sigurfinnsson on Sunday, May 30, 2021
Samherji sagði stjórnendur hafa gengið „of langt“
Samherji birti yfirlýsingu á vef fyrirtækisins í gær þar sem sagði meðal annars að ljóst sé að stjórnendur félagsins hafi gengið „of langt“ í viðbrögðum við „neikvæðri umfjöllun um félagið“.
„Af þeim sökum vill Samherji biðjast afsökunar á þeirri framgöngu,“ sagði í yfirlýsingu fyrirtækisins, en ekki er útskýrt í frekari smáatriðum að hvaða leyti gengið hafi verið of langt eða nákvæmlega hverju verið sé að biðjast afsökunar á.
Í yfirlýsingunni sagði einnig að stjórnendum og starfsfólki Samherja hafi þótt umfjöllun og umræða um fyrirtækið á undanförnum árum „einhliða, ósanngjörn og ekki alltaf byggð á staðreyndum.“ Þegar svo sé – og „vegið að starfsheiðri með ósanngjörnum hætti á opinberum vettvangi“ – geti reynst erfitt að bregðast ekki við.
Umræða „skæruliðadeildarinnar“ hafi verið „óheppileg“
Samherji vísaði til fjölmiðlaumfjöllunar um þau samskiptagögn fyrirtækisins sem Kjarninn og Stundin hafa undir höndum og hafa fjallað um undanfarna viku í fréttum og fréttaskýringum. Fyrirtækið sagði að „þau orð“ og „sú umræða sem þar var viðhöfð“ hafi verið „óheppileg“.
„Þarna var um að ræða persónuleg samskipti á milli starfsfélaga og vina sem enginn gerði ráð fyrir að yrðu opinber,“ segir í yfirlýsingu Samherja, en fyrirtækið hafnaði því að svara spurningum Kjarnans um það sem kemur fram í gögnunum á þeim grundvelli að gögnunum hefði verið stolið.
Í svari sem Arnar Þór Stefánsson, lögmaður á Lex, sendi fyrir hönd Samherja síðdegis fimmtudaginn 20. maí kom fram að fyrir lægi að þau gögn sem umfjöllun Kjarnans byggði á hefðu fengist með innbroti í síma og tölvu Páls Steingrímssonar, starfsmanns Samherja.
Páll hefði kært innbrotið og meðferð gagnanna til lögreglu og það biði lögreglurannsóknar. „Hvorki Samherji hf. né fyrirsvarsmenn félagsins munu fjalla um inntak gagna sem aflað hefur verið með refsiverðum hætti. Með því væri verið að ljá umfjöllun vægi sem hún á ekki skilið. Fyrirspurnum yðar verður því ekki svarað,“ sagði í svari lögmannsins.