Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að niðurstöður úr skimun fyrirtækisins eftir mótefnum gegn kórónuveirunni, í blóðsýnum sem tekin voru skömmu fyrir áramót, sýni það að umtalsvert fleiri hafi smitast af kórónuveirunni en búið hafi verið að greina í PCR-prófum á þeim tímapunkti.
Hversu mikið fleiri er erfitt að segja, að sögn Kára, en hann segir niðurstöðurnar gefa til kynna að um 20 prósent af þeim sem séu undir 40 ára aldri hafi smitast af kórónuveirunni og segir við Kjarnann að jafnvel séu vísbendingar um að allt að 130 þúsund íbúar á Íslandi hafi smitast af kórónuveirunni nú þegar.
„En allir þessir útreikningar eru allir hrikalega ónákvæmir og að öllum líkindum eru tölurnar sem ég er að tala um aðeins meiri en raunveruleikinn segir okkur, en það er ekkert víðsfjarri,“ segir Kári við blaðamann.
Myndin verði skýrari í febrúar
Kári segir við Kjarnann að þessar niðurstöður sem hann sé að draga ályktanir út frá eigi við um samfélagið eins og það var fyrir um fjórum vikum síðan.
Síðan þær blóðprufur voru teknar hafa greind smit í PCR-prófum síðan nær undantekningalaust verið yfir þúsund talsins á degi hverjum. Frekari blóðprufur voru teknar af hálfu Íslenskrar erfðagreiningar fyrir rúmri viku síðan og niðurstöður úr greiningu á þeim eru væntanlegar um miðjan febrúar, segir Kári. Þá verður meira hægt að segja um stöðuna eins og hún er í dag.
Í dag eru alls 11.109 manns með staðfest smit og í einangrun, samkvæmt tölum á tölfræðivef yfirvalda og staðfest smit á landinu orðin 58.409 – sem jafngildir því að um 16 prósent íbúa á Íslandi hafi fengið COVID-19.
Pestin gæti verið búin að hlaupa sitt skeið í apríl
Kári telur þó að hlutfallið sé enn hærra og notar töluna 2,7 sem margfeldi til þess að áætla raunverulega útbreiðslu veirunnar um samfélagið, og byggir það á niðurstöðunum úr blóðprufunum í lok desember.
Hann vill ekki fullyrða of mikið í samtali við blaðamann, en segir niðurstöðurnar úr blóðtökunni í lok desember þó veita þær vísbendingar að smit í samfélaginu séu töluvert útbreiddari en opinberar tölur sýni.
„Þetta er náttúrlega algjörlega óleiðrétt fyrir aldri og öllu slíku, það eina sem þetta segir okkur er að í dag erum við að öllum líkindum komin með ansi mikið smit í samfélagið. En við komum til með að vita þetta eftir um það bil þrjár vikur,“ segir Kári.
„Mér sýnist, eins og maður horfir á þetta núna, að þessi pest verði búin að hlaupa sitt skeið í apríl, eða svo,“ segir Kári.