Í morgun hófust viðskipti með bréf tölvuleikjafyrirtækisins Solid Cloud á First North markaði kauphallarinnar. Við opnun markaða gengu bréf félagsins kaupum og sölum á genginu 14 sem er 12 prósentum hærra en útboðsverð bréfanna sem var 12,5. Hæst fór gengið í dag upp í 14,2 en lægst fór það niður í 10,5 krónur á hvern hlut. Við lokun markaða stóð verð bréfanna aftur á móti í 12,5 krónum á hlut sem er það sama og bréfin voru seld á í nýafstöðnu hlutafjárútboði. Heildarvelta með bréf félagsins í dag nam tæpum 26 milljónum króna.
Hlutafjárútboð Solid Clods stóð yfir í lok síðasta mánaðar, það hófst þann 28. júní og því lauk þann 30. sama mánaðar. Líkt og áður hefur komið fram var útboðsgengið 12,5 krónur á hlut en í útboðinu voru tvær áskriftarbækur, áskriftarbók A fyrir áskriftir frá 100 þúsund krónum að 15 milljónum og áskriftarbók B fyrir áskriftir yfir 15 milljónum. Fjórföld eftirspurn var í útboði félagsins en tilboð fyrir um 1,8 milljarða bárust í áskriftarbók A og fyrir um 900 milljónir í áskriftarbók B.
Vegna mikillar eftirspurnar þurfti hafna áskriftum mörg hundruð þátttakenda í útboðinu og skerða úthlutun hjá öðrum, líkt og greint var frá í tilkynningu frá Solid Clouds. „Þeir mælikvarðar sem stjórn Solid Clouds hf. beitti við skerðinguna byggja á hlutlægum grunni og útgangspunkturinn var sá að tryggja hagsmuni félagsins og sömu meðferð áskrifenda í sömu stöðu. Meðal þeirra þátta sem stjórn félagsins horfði til við úthlutun var tímasetning skráningar í útboðinu. Þeir sem óskað höfðu eftir áskrift áður en félagið birti tilkynningu um að áskrift hafi borist fyrir öllum hlutum útboðsins fengu þannig allir úthlutun, þó þeir hafi þurft að sætta sig við umtalsverða skerðingu áskriftar,“ sagði í tilkynningu félagsins.
Ólíkt ávöxtun eftir nýafstaðin hlutafjárútboð
Niðurstaðan eftir þennan fyrsta viðskiptadag er því talsvert ólíkt því sem gerðist í kjölfar síðustu skráningar á First North markaðinn þegar bréf flugfélagsins PLAY voru tekin til viðskipta eftir hlutafjárútboð en bréfin hækkuðu annars vegar um 23 prósent hins vegar um 37 prósent, en útboðsgengið var ekki það sama í báðum tilboðsbókum í útboði PLAY. Þátttakendur í hlutafjárútboði Íslandsbanka sáu bréf sín hækka um 20 prósent á fyrsta degi viðskipta og þá hækkaði gengi á bréfum Síldarvinnslunnar um 8,6 prósent á fyrsta viðskiptadegi.
Framkvæmdastjóri sölu- og viðskiptatengsla hjá Nasdaq Iceland fjallaði um hugsanlegar orsakir hraðra verðhækkana í kjölfar hlutafjárútboða í nýjasta tölublaði Vísbendingar en samkvæmt Baldri eru slíkar verðhækkanir þekkt fyrirbæri sem kallað er „frumútboðspopp“ (e. IPO pop).
Ávöxtun eftir útboð ekki sjálfgefin
Frá fjármálahruninu árið 2008 hafa verið haldin 18 frumútboð hér á landi fyrir skráningu í Kauphöllinni. Að undanskildum útboðum PLAY og Solid Clouds hefur frumútboðspoppið á þessu tímabili numið um átta prósentum að meðaltali. Hæst var það um 33 prósent í TM árið 2013, en þar á eftir koma Íslandsbanki, Arion banki og Hagar með 18-20 prósenta verðhækkun á eftir frumútboði.
Það er ekki sjálfgefið að hlutabréfaverð hækki eftir hlutafjárútboð. Til að mynda nefnir Baldur fasteignafélögin en bréf Reita, Eikar, Regins og Heimavalla lækkuðu öll eftir skráningu þeirra. Til að mynda nam lækkunin ellefu prósentum hjá Heimavöllum.