Undanfarin tvö ár hefur verð á matvöru hækkað um 13,3 prósent hér á landi, sem er skarpasta hækkun á mat- og drykkjarvöru frá tímabilinu eftir fjármálahrun. Þetta segir Auður Alfa Ólafsdóttir sérfræðingur í umhverfis- og neytendamálum og verkefnisstjóri verðlagseftirlits ASÍ í grein í Vísbendingu sem kom út á föstudag.
„Til að setja þessa hækkun í samhengi hækkaði verð á mat- og drykkjarvöru um 32,1 prósent á tíu ára tímabili, frá apríl 2012 til apríl 2022. Matur og drykkjarvara er nauðsynjavara og koma verðhækkanir á þessum vöruflokki því illa við almenning og bitna helst á þeim sem minnst hafa. Töluverð umræða hefur því skapast í samfélaginu um tildrög, réttmæti og áhrif verðhækkana á matvöru í Covid faraldrinum og nú síðast í kjölfar stríðsins í Úkraínu,“ segir ennfremur í grein Auðar.
Umræðan einsleit hér á landi
Hún segir umræðuna hér á landi hafa verið einsleita og mestmegnist snúast um hversu mikið megi búast við að verð á matvöru muni hækka.
„Minna hefur verið fjallað um fákeppni og áhrif hennar á verðlag þrátt fyrir að mikil samþjöppun sé á íslenskum matvörumarkaði og vitað sé að skortur á samkeppni leiði til hærra verðlags. Sú umræða er hins vegar í fullum gangi í nágrannalöndunum þar sem matvara hefur hækkað mikið í verði á sama tíma og afkoma matvöruverslana hefur vænkast mikið,“ segir Auður og bendir á að alþjóðastofnanir hafi einnig fjallað um hættuna á að fyrirtæki misnoti stöðu sína í faraldrinum og hækki verið umfram tilefni auk þess sem stjórnvöld í sumum löndum hafi fylgst með gangi mála og sum gripið til aðgerða.
Hún segir að engum dyljist að truflanir í framleiðslu hafi haft áhrif á framboð vöru og þjónustu og þar með á rekstur matvöruverslana og mögulega ver ðtil neytenda, en vafi leiki hins vegar á að hve miklu margi þessir þættir ættu að hafa áhrif á smásöluverð á matvöru. „Þrátt fyrir ýmis skakkaföll í kjölfar Covid má segja að verslun á Íslandi hafi blómstrað í faraldrinum, þ.m.t. verslun með matvöru.“
Grein Auða Ölfu má nálgast í nýjasta hefti Vísbendingar, sem sent var áskrifendum á föstudag. Hægt er að gerast áskrifandi með því að smella hér.