Alexis Tsipras sór embættiseið í annað sinn sem forsætisráðherra Grikklands eftir kosningasigur Syriza-flokksins um helgina. Tsipras hafði boðað til kosninga svo þingið og ríkisstjórnin fengi endurnýjað umboð til að leysa úr vandamálum Grikkja. Hann lofar að gera endurreisn efnahags landsins að sínum „fyrsta bardaga“. Frá þessu er greint á vef Reuters.
Syriza-flokkurinn fékk mest fylgi allra framboða til gríska þingsins, þvert á væntingar sem höfðu dvínað undanfarið um leið og foyrsta flokksins leiddi viðræður um skuldavandann við Evrópusambandið og aðra lánadrottna ríkisins. Áður en Syriza og Tsipras var kjörinn fyrst til valda í janúar hafði þessi vinstriflokkur lofað því að ráðast ekki í miklar aðhaldsaðgerðir og því var samvinna með lándrottnum í sumar nokkur stefnubreyting.
Verkefni Tsipras í embætti forsætisráðherra eru enn ærin. Hann þarf að koma að miklum aðhaldsaðgerðum í rekstri gríska ríkisins og taka á flóttamannavandanum. Grikkland er enda eitt þeirra landamæralanda Evrópusambandsins (ESB) sem flóttamenn frá Sýrlandi kjósa að fara í gegnum til Evrópu.
Í næsta mánuði verður gerð fyrsta úttekt á 86 milljarða evra lánafyrirgreiðsluáætlun ESB í Grikklandi svo Tsipras þarf að hafa hraðar hendur við að endurfjármagna bankakerfi landsins og koma á jafnvægi í hagkerfinu.
Eftir embættistökuna í gær talaði Tsipras fyrst um flóttamannavandann, þann mesta í Grikklandi síðan í stríðinu á Balkanskaga á tíunda áratugnum. Grikkir hafa kvartað undan regluverki ESB, sem skyldar aðildarlönd sín til að skrá flóttamenn í þeim löndum sem þeir koma fyrst til. Grikkland hefur ekki undan því að skrá fólkið og hefur óskað eftir aðstoð annarra aðildarríkja ESB.
Tsipras verður fulltrúi Grikklands á neyðarfundi Evrópuleiðtoga á morgun þar sem ræða á flóttamannavandann. Auk Grikklands hafa Ítalir og Ungverjar óskað eftir hjálp við að koma skjóli yfir alla 160.000 flóttamennina sem hafa komið til Evrópu. Djúpur ágreiningur er um áætlanir í þessum efnum og skilur austur og vestur jafnan andstæð sjónarmið að. Í Austur-Evrópu er minni áhugi á því að bjóða flóttafólk velkomið en í Vestur-Evrópu.