Þegar áformuðum námugreftri í Seyðishólum í Grímsnes- og Grafningshreppi lýkur mælist Skipulagsstofnun til þess að látið verði staðar numið í efnistöku og þeir hlutar gígsins sem eftir standi verði varðveittir.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í áliti stofnunarinnar á fyrirhugaðri framkvæmd Suðurverks sem felur í sér áframhaldandi efnistöku úr hólunum. Náma hefur verið á svæðinu í um sjötíu ár en efnistakan sem nú stendur fyrir dyrum er mun umfangsmeiri. Þannig á að vinna um hálfa milljón rúmmetra af efni á fimmtán árum en frá árinu 1950 er talið að um 450 þúsund rúmmetrar hafi verið fjarlægðir.
Samtök sumarhúsaeigenda í nágrenni Seyðishóla gagnrýna áformin og segjast „standandi hissa“ á að sveitarstjórn, Landvernd og stofnanir skuli ekki vilja aftra „óafturkræfum skemmdum“ á einu fallegasta og helsta kennileiti Grímsnessins. „En græðgisstefnan virðist verða ofan á og því mótmælum við enn og aftur,“ skrifar Guðrún M. Njálsdóttir, formaður stjórnar í samlagi fjögurra frístundabyggða við Seyðishóla en í þessum byggðum eru 244 sumarhúsalóðir. Samtökin lýsa „megnustu óánægju“ með þá miklu efnisvinnslu sem er fyrirhuguð og segja að miklu heldur ætti að friða Seyðishóla.
Eigendur Ker hótels, sem einnig er í næsta nágrenni námunnar, mótmæla áformunum einnig. Þeir segja að efnistakan yrði mjög nálægt hótelinu „og við höfum miklar áhyggjur af því hvaða áhrif það hafi á umhverfið að ráðast meira á þennan fallega hól sem á sér sérstaka sögu“.
Í umsögn sinni um umhverfismatsskýrslu Suðurverks segja þeir einnig: „Við eigum ekki orð yfir þessa fáránlegu hugmynd að stækka námuna og auka efnistöku sem á að mestu að flytja úr sveitarfélaginu og fórna þessum sérstöku minjum sem eru 5.000-6.000 ára.“
Þegar raskað svæði
En Skipulagsstofnun gefur grænt ljós og segir umhverfismatsskýrsluna standast lög. Helstu neikvæðu áhrif hennar séu sjónræns eðlis en svæðið sé nú þegar mjög raskað. Framkvæmdin muni ekki koma til með að breyta verulega ásýnd svæðisins miðað við núverandi aðstæður. Stofnunin telur áhrif á jarðmyndanir hins vegar verða óhjákvæmilega staðbundið nokkuð neikvæð þar sem um sé að ræða umfangsmikla efnistöku á svæði sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd og mun efnistakan koma til með að hafa í för með sér varanlegt og óafturkræft rask á jarðmynduninni. „Skipulagsstofnun tekur undir með Náttúrufræðistofnun Íslands um að þegar þessari efnistöku líkur verði látið staðar numið og þeir hlutar gígsins sem eftir standa varðveittir.“
Skipulagsstofnun telur ekki líklegt að ónæði vegna efnisvinnslunnar eða efnisflutninga verði verulegt hvorki hvað varðar hávaða né rykmengun.
Líkja má Seyðishólum á margan hátt við Rauðhóla í Heiðmörk sem er mikið raskað svæði eftir efnistöku. Rauðhólar voru fyrst friðlýstir sem náttúruvætti 1961 og sem fólkvangur 1974 og er svæðið vinsælt útivistarsvæði í dag. Verndargildi Rauðhóla felst fyrst og fremst i vísinda- og fræðslugildi. „Raskið hefur opnað tækifæri fyrir vísindamenn að skoða innri gerð gervigíga með góðu aðgengi,“ sagði í umsögn Náttúrufræðistofnunar á umhverfismatsskýrsluna.
Hins vegar leggur stofnunin til að þeir aðilar sem eiga námuréttindi við Seyðishóla setji sér takmörk á heildarefnistöku. „Ef við viljum ekki glata Seyðishólum til frambúðar þarf að skilgreina þau takmörk. Ef miðað er við núverandi áform ætti að meta hvort ekki sé ástæða til að nema staðar þar og eftir að efnistökunni lýkur að vernda það sem eftir stendur á þeim grundvelli að varðveita gosmyndanir sem eru mikilvægur þáttur í sögu eldvirkni Grímsneskerfisins og sem eru merkileg á landsvísu.“
Náttúrufræðistofnun leggur einnig til að á næstu árum komi landeigendur sér saman um að friðlýsa Kerhól og það sem eftir er af Seyðishólum.
Njóta verndar samkvæmt lögum
Umhverfisstofnun benti í sinni umsögn á að Seyðishólar eru jarðmyndun sem nýtur sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum. Í umhverfismatsskýrslu Suðurverks segir að svæðinu hafi þegar verið raskað á óafturkræfan hátt og það sé því mat skýrsluhöfunda að 61. gr. náttúruverndarlaga eigi ekki við. Umhverfisstofnun bendir á að það er ekki matsatriði hvort að þessi grein eigi við um Seyðishóla. Seyðishólar séu einfaldlega gjall- og klepragígur sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Einnig bendir stofnunin á að þrátt fyrir að svæðinu hafi verið raskað þá réttlætir það ekki frekara rask.
Stærð námusvæðisins er 3,5 hektarar í dag og er áætlað að raskað svæði verði við áframhaldandi efnistöku í heild 4,4 hektarar. Fyrirhugað er að um 20.000-25.000 rúmmetrar af efni verði fluttir árlega til Þorlákshafnar til útflutnings en að annað efni verði notað í nágrenninu. Gert er ráð fyrir efnisvinnslu og flutningum í um 150 daga á ári og áætlað að fjöldi flutningabíla frá svæðinu verði um 1.500 bílar á ári eða um 10 bílar á dag. Það gerir 20 bílferðir milli námunnar og Þorlákshafnar á dag.
Framkvæmdaaðili segir að miðað við núverandi aðstæður séu efnisflutningabílar að fara í kringum 14 ferðir á dag til og frá námunni. Fyrir liggur því að ferðum flutningabíla mun því fjölga. Ekki verður um að ræða daglega efnisflutninga en að meðaltali er gert ráð fyrir að efni verði flutt í um 150 daga á ári.