Fimm ungir Palestínumenn, sem hingað komu og sóttu um alþjóðlega vernd, misstu í dag húsnæði sem þeir voru í á vegum Útlendingastofnunar sem og framfærslu frá stofnuninni. Mál þeirra voru ekki tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi á þeim rökum að þeir hafi þegar fengið dvalarleyfi og stöðu flóttamanna í Grikklandi. Tveimur öðrum mönnum í sömu stöðu var vísað út í gær, líkt og Kjarninn greindi frá.
„Við tókum eftir því í dag að búið var að loka fyrir framfærsluna,“ segir Suliman Al Marsi þar sem hann stendur með töskurnar sínar sér við hlið fyrir utan Bæjarhraun 16 í Hafnarfirði. Hann, líkt og hinir fjórir, fengu skilaboð frá Útlendingastofnun um að þeir hefðu til klukkan 14 i dag að pakka saman og yfirgefa húsnæðið. Suliman segir að þeir hafi fengið hálftíma fyrirvara. Ástæðan fyrir þessari aðgerð stofnunarinnar er sú að ungu mennirnir eiga samkvæmt ákvörðun stjórnvalda að yfirgefa landið og fara aftur til Grikklands. Það vilja þeir hins vegar ekki gera, þeir óttast um öryggi sitt þar, og hafa af þeim sökum neitað að fara í COVID-próf sem er forsenda þess að hægt sé að senda þá úr landi. „Við spurðum hvað myndi gerast ef við neituðum að fara út úr húsinu og fengum þau svör að þá yrðum við teknir út með valdi og að dótið okkar yrði þá skilið eftir inni.“
Ungu mennirnir eiga allir ástvini í Gaza í Palestínu sem Ísraelsher hefur gert harðar loftárásir á síðustu daga. Þeir heyri lítið í fjölskyldum sínum enda netsamband stopult.
„Við sögðum starfsmönnum Útlendingastofnunar hversu ástandið heima væri hræðilegt vegna stríðsins,“ segir Mohammad Bakri. „Við sögðum þeim líka að ástandið á Grikklandi yrði okkur erfitt.“ Þar væri atvinnuleysi útbreitt og ekkert húsnæði að finna. „Mér finnst íslensk yfirvöld ekkert hlusta á okkur. Þó að þau viti hvernig ástandið er í okkar heimalandi og þær áhyggjur sem við höfum. Ég meina, húsin sem við bjuggum í hafa sum verið jöfnuð við jörðu.“
Þeir segja starfsmenn Útlendingastofnunar þá hafa bent á að ekkert stríð væri í Grikklandi. „En við endum á götunni þar eins og áður en við flúðum hingað til Íslands,“ segir Mohammad „Við spurðum hvort að við gætum fengið að vera í húsnæðinu í nokkra daga í viðbót en svarið var nei.“
Ungu mennirnir standa í hnapp með ferðatöskurnar sínar. Starfsmaður á vegum Rauða krossins er mættur til að reyna að aðstoða þá við flutning á þeim. „Við höfum í raun engan stað til að fara á núna,“ segir Mohammad. „En þeim er alveg sama. Þeir sögðu að við yrðum bara að redda okkur. Hvert við myndum fara kæmi þeim ekki við.“
„Góðhjartað fólk“, líkt og einn þeirra orðar það, hefur boðist til að skjóta skjólshúsi yfir þá í nótt. Þeir vissu þó ekki síðdegis hvort að allir þeirra fengju þar inni eða aðeins hluti þeirra. Það er hins vegar aðeins bráðabirgða lausn og þeir vita ekkert hvað tekur við í framhaldinu. Þar sem þeir eru ekki með íslenska kennitölu mega þeir ekki gista í Gistiskýlinu í Reykjavík.
Enginn þeirra segist vilja fara aftur til Grikklands. Þar bíði þeirra engin framtíð. Þeir hafi allir reynt að finna þar vinnu áður en þeir ákváðu að flýja lengra og enduðu á Íslandi. „Við viljum frekar vera á götunni á Íslandi, við viljum frekar deyja á götunni á Íslandi en að fara aftur til Grikklands.“
Ómögulegt að finna húsnæði og vinnu í Grikklandi
Suliman segir starfsmenn Útlendingastofnunar hafa sagt að þeir geti fundið húsnæði í Grikklandi en hann þekki það af eigin reynslu að það er illmögulegt. Líklega ómögulegt. Á götum Aþenu og annarra grískra borga sé ofbeldi daglegt brauð og þess vegna óttist þeir um öryggi sitt. „Þar eru líka miklir fordómar í garð Palestínumanna,“ bætir hann við.
Þeir segjast eiga erfitt með að trúa því að menn sem séu að flýja stríðsástand líkt og geisi í Palestínu geti ekki fengið vernd á Íslandi, þó að þeir hafi, þurft að hafa viðkomu í Grikklandi og fengið þar stöðu flóttamanns. „Það eina sem ég vil er stöðugleiki í lífinu. Að finna vinnu eða mennta mig,“ segir Mohammad. „Ég vil ekki sitja aðgerðalaus.“
Nú hafi þeir ekki lengur peninga fyrir mat svo óvissan framundan er algjör. „Við þráum að okkur sé sýnd mannúð í ljósi aðstæðna okkar.“