„Þetta er enn í farvegi, engin niðurstaða enn sem komið er,“ segir Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka, um stöðu viðræðna við PCC SE, meirihlutaeiganda kísilversins á Húsavík, sem lýst hefur áhuga á að kaupa kísilverksmiðjuna í Helguvík af bankanum. Viljayfirlýsing milli Arion og PCC var undirrituð í byrjun árs og samkvæmt henni skal viðræðum lokið í sumar, segir Haraldur Guðni.
Verksmiðjan í Helguvík hefur ekki verið starfrækt frá haustmánuðum 2017 eða í um fjögur og hálft ár. Félagið Sameinað Sílikon (United Silicon) átti hana en reksturinn, sem hófst í nóvember 2016, gekk brösuglega frá upphafi og stóð aðeins í tíu mánuði eða þar til Umhverfisstofnun stöðvaði starfsemina vegna ítrekaðra bilana og kvartana íbúa í nágrenni hennar um heilsufarsleg óþægindi. Sameinað Sílikon var tekið til gjaldþrotaskipta í upphafi árs 2018 og eignaðist Arion banki, helsti lánardrottinn félagsins, eignir þrotabúsins í kjölfarið.
Síðan þá hefur verið stefnt að því að selja verksmiðjuna. Árið 2019 hófst mat á umhverfisáhrifum þeirra áforma bankans að gera endurbætur á henni, endurræsa hana og stækka með því að bæta þremur ljósbogaofnum við þann eina sem fyrir er. Matinu lauk með áliti Skipulagsstofnunar á gamlársdag.
Að mati stofnunarinnar eru fyrirhugaðar endurbætur líklegar til að fækka tilvikum sem ljósbogaofn er stöðvaður og stytta tíma sem hann keyrir á skertu afli. Þá eru áform um að losa útblástur um skorsteina en ekki um rjáfur síuhúss, sem bætt var við vegna aðfinnslu Umhverfisstofnunar, líkleg til að leiða til betri dreifingar útblástursefna, stöðugri reksturs verksmiðjunnar og stuðla að bættum loftgæðum frá því sem áður var. Engu að síður er það álit stofnunarinnar að áhrif við rekstur 1. áfanga verði nokkuð neikvæð og áhrif fullrar framleiðslu fjögurra ofna talsvert neikvæð.
Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ eru alfarið mótfallin því að verksmiðjan verði endurræst og rímar það við skoðun íbúa sem í tugatali sendu inn athugasemdir við fyrirætlanirnar í umhverfismatsferlinu.
„Ég hef ekkert heyrt í PCC eða Arion banka í marga mánuði,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, spurður um hvort þessir aðilar hafi verið í einhverjum samskiptum við bæjaryfirvöld í þeim viðræðum sem þeir eiga nú í.
Vilji bæjaryfirvalda og íbúa stendur til þess að verksmiðjan verði rifin. Þórður Ólafur Þórðarson, lögfræðingur Arion banka og stjórnarmaður í Stakksbergi, dótturfélagi bankans sem á kísilverið í Helguvík, sagði á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í febrúar að „það tjón sem þarna yrði á hagsmunum við það að flytja verksmiðjuna í burtu, það er bara svo óskaplegt að það er raunverulega ekki efnahagslega boðlegur kostur“.
Ólafur Hrafn Höskuldsson, fjármálastjóri Arion banka og stjórnarformaður Stakksbergs, sagði á fundinum að þrátt fyrir að búið væri að færa eignirnar að mestu niður í bókum bankans þá fælist „mikil ábyrgð og sóun í því að rífa niður þessa 15-20 milljarða og ekki kanna til hlítar hvort að hægt sé að gangsetja þarna verksmiðju sem hægt er að reka í eins góðri sátt við samfélagið og hægt er og í takti við kröfur eftirlitsaðila“.
Hann segir stjórnendur bankans hafa skoðað alla möguleika í stöðunni, líka þann að rífa verksmiðjuna. „Við erum bankamenn, við erum ekki sérfræðingar í silikonframleiðslu eða framkvæmdum á silikonverksmiðju, það er ljóst. Það hefur alltaf legið fyrir frá upphafi í þessu ferli hjá bankanum að það verði ekki farið í þetta nema með aðila sem hefur þekkingu og reynslu viðeigandi á þessu sviði.“ Því væri viljayfirlýsing við PCC „rökrétt staða í þessu ferli“.
Takmarka uppbyggingu mengandi iðnaðar
Í tillögu að aðalskipulagi Reykjanesbæjar til ársins 2035, sem nú er auglýst, er kynnt stefnubreyting varðandi uppbyggingu í Helguvík. Dregið er töluvert úr umfangi iðnaðarsvæðis sem „felur í sér minni áhættu á mengun,“ segir í umhverfisskýrslu sem gerð var í tengslum við mat á umhverfisáhrifum nýs skipulags.
Í Helguvík er enn gert ráð fyrir uppbyggingu iðnaðar en áhersla lögð á iðnað sem samræmist íbúabyggð, sem er þar í næsta nágrenni, og settir skilmálar um hvers konar iðnaður megi bætast við, m.a. til að draga úr líkum á að við bætist iðnaður sem auki á losun flúors og brennisteinsdíoxíðs. „Mikilvægt er að íbúum í nágrenni iðnaðarsvæðis verði tryggð heilnæm lífsskilyrði og njóti heilnæms og ómengaðs umhverfis,” segir m.a. í greinargerð með aðalskipulagstillögunni. „Breyting á aðalskipulagi stuðlar að bættri heilsu íbúa og dregur úr líkum á mengun í nágrenni við þéttbýlið í Reykjanesbæ.“