Rússar höfðu mun fjölmennara herlið í löndum sem hafa landamæri við lönd Atlantshafsbandalagsins (NATO) en NATO hafði handan landamæranna, samkvæmt tölfræði hernarnaðarbandalagsins vestræna. Stjórnvöld í Rússlandi hafa ítrekað haldið því fram að NATO hafi stöðugt aukið vígbúnað sinn sem mótvægi við Rússa.
Samkvæmt tölfræðinni, sem birtist á vef Atlantic Council, hafði NATO herlið í þremur löndum sem eiga aðild að bandalaginu áður en Rússar réðust inn á Krímskaga. Það eru Litháen, Ungverjaland og Pólland. Samtals 200 manna hersveitir auk fjögurra herþota.
NATO telur hins vegar að Rússar hafi haft 33.200 manna herlið í sjö löndum handan landamæra NATO. Herlið Rússa var staðsett í Úkraínu (á Krímskaga), Georgíu (Abkasíu og Suður-Ossetíu), Tadsjikistan, Armeníu, Moldóvu (Transnístríu), Kyrgistan og Hvíta-Rússlandi. Auk herliðsins telur NATO nokkrar flotahafnir og herþotur í þessum löndum.
NATO hefur hins vegar aukið við herlið sitt síðan Rússar innlimuðu Krímskaga í fyrra. Í febrúar tilkynnti Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, að bandalagið myndi koma fyrir 5.000 manna herliði sérstakra útkallssveita í sex löndum á landamærum við áhrifasvæði Rússa. Það eru Eystrasaltslöndin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen, Pólland, Rúmenía og Búlgaría. Í öllum þessum löndum hefur verið komið upp stjórnstöðvum fyrir herdeildirnar.
Samtals, samkvæmt frétt The Guardian um málið, eru 30.000 manna herdeildir NATO nú staðsettar á austari landamærum bandalagsins. „Ef krísa á sér stað geta herdeildirnar tryggt að meðlimir NATO geti brugðist við um leið,“ sagði Stoltenberg í febrúar þegar þetta var tilkynnt.