Fjölmargir þingmenn úr öllum stjórnarandstöðuflokkunum nema Miðflokki óskuðu eftir því á þingfundi í dag að Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra kæmi fyrir þingið, gerði grein fyrir máli sínu er varðar rasísk ummæli um Vigdísi Häsler framkvæmdastjóri Bændasamtakanna og í kjölfarið gæfist þingmönnum kostur á að eiga orðastað við ráðherrann.
Halldóra Mogensen þingflokksformaður Pírata reið á vaðið undir liðnum fundarstjórn forseta rúmlega klukkan tvö í dag og sagði að innviðaráðherra hefði orðið uppvís að hegðun sem væri ólíðandi fyrir ráðherra í ríkisstjórn og formann stjórnarflokks. „Hann hefur farið undan í flæmingi frá fjölmiðlum og neitar að svara því með hvaða hætti hann hyggst axla ábyrgð og bæta fyrir brot sitt öðruvísi en með aumri afsökunarbeiðni á samfélagsmiðlum.“
Hún sagði að það gengi ekki að Alþingi héldi áfram eins og ekkert hefði í skorist, enda starfaði ríkisstjórnin í umboði meirihluta þingsins. Fór hún því fram á að ráðherrann kæmi fyrir þingið og gerði hreint fyrir sínum dyrum gagnvart þinginu og almenningi áður en lengra væri haldið.
Birgir Ármannsson forseti Alþingis benti í framhaldinu á að hann hefði átt fundi með þingflokksformönnum um fyrirkomulag umræðunnar í dag – og dagskrá dagsins í dag og dagsins á morgun. „Þessi ósk kom ekki fram þannig að forseti hefur í hyggju að halda áfram dagskránni eins og hún var áætluð og þingflokksformenn voru upplýstir um og tóku þátt í að móta,“ sagði Birgir. Margir þingmenn reyndu að sannfæra forseta að setja málið á dagskrá í framhaldinu en honum var ekki haggað.
Óþægileg umræða „en hún verður að eiga sér stað“
Þingmenn nýttu einnig tækifærið undir liðnum störf þingsins fyrr í dag til að gagnrýna ráðherrann, orðræðu hans og afsökunarbeiðni.
Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar sagði að vonandi væru allir sammála um að þegar ráðherra í ríkisstjórn viðhefði rasísk ummæli þá kallaði það á djúpa og yfirvegaða umræðu, bæði um þau orð sem féllu, afsökunarbeiðnina sjálfa og aðdraganda hennar því aðeins þannig gæti Alþingi og ríkisstjórn sent skýr skilaboð til þúsunda Íslendinga og annarra sem eiga að búa við þau sjálfsögðu mannréttindi að húðlitur þeirra skipti ekki máli.
Rifjaði hann upp orð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í þinginu í gær þar sem hún sagði að við yrðum að geta tekið því þegar fólk biðst afsökunar á orðum sínum og gjörðum.
„Ég er hjartanlega sammála því. Það var því gott og jákvætt að formaður Framsóknarflokksins baðst afsökunar í gær þótt vissulega hafi liðið fjórir dagar og pólitískur aðstoðarmaður hans hafi fullyrt í millitíðinni að umrædd ummæli hefðu aldrei fallið. Því miður var afsökunarbeiðni formanns Framsóknarflokksins og innviðaráðherra ekki nema nokkurra klukkustunda gömul þegar aðstoðarmaðurinn svaraði fjölmiðlum aftur með þeim orðum að hún hefði í fyrra svari sínu bara lýst því sem hún heyrði og sá þetta kvöld sem var það að ráðherra hefði ekki vísað til lits heldur eingöngu til þess að þolandinn væri Sjálfstæðismaður.
Málið væri því, og þetta er orðrétt tilvitnun: Algjört bull. Við þetta verðum við að staldra. Við erum í þeirri dapurlegu stöðu að ráðherra baðst afsökunar á meiðandi ummælum sem pólitískur aðstoðarmaður hans og ráðgjafi, sem segist hafa séð og heyrt atburðarásina, fullyrðir ítrekað að hafi aldrei fallið. Ef fara á fram hreinskiptin umræða um hvað gerðist og hvernig bregðast skuli við verðum við að fá skýringar á þessu misræmi. Hvað var sagt og á hverju var nákvæmlega beðist afsökunar? Eiga þolendur svona ummæla og þúsundir Íslendinga sem eiga það á hættu að verða fyrir aðkasti vegna uppruna síns ekki kröfu til þess að skilaboðin úr Stjórnarráðinu, frá ráðherra og öðrum sem tala í hans umboði, séu skýr og að enginn vafi leiki á að framkvæmdastjóra Bændasamtakanna sé trúað, að orð þolanda, geranda og vitna stangist ekki á? Þetta er óþægileg umræða en hún verður að eiga sér stað,“ sagði hann.
Siðareglur ráðherra og þingmanna brotnar
Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingarinnar sagði undir sama lið að íslenskt samfélag þyrfti að átta sig á því „að rasismi er ekki eitthvað sem stundað er í útlöndum heldur daglegt og frekar hversdagslegt hlutskipti fólks hér á landi sem einhverjum gæti fundist líta út fyrir að geta ekki rakið ættir sínar aftur til miðalda í Íslendingabók“.
„Rasismi getur birst á tiltölulega meinlausan en afar þreytandi hátt, til dæmis með því að einstaklingur er ávarpaður á ensku í verslun eða á vinnustað. Það getur birst sem áreiti beint og óbeint: „Má ég snerta á þér hárið? Hvaðan ertu? Úr Breiðholtinu? Nei, ég meina, hvaðan ertu?“ og þannig mætti áfram telja. Svo eru þessi ömurlegu rasísku komment sem lesa má í kommentakerfunum á miðlunum og beinar persónulegar árásir og viðbjóðslegar dylgjur um nafngreinda einstaklinga.“
Þórunn sagði að sjaldan, sem betur fer, afhjúpuðu æðstu ráðamenn þjóðarinnar sig með þeim hætti sem innviðaráðherra gerði á búnaðarþingi gagnvart framkvæmdastjóra Bændasamtakanna.
„Þar voru siðareglur ráðherra og þingmanna brotnar, allar velsæmisreglur og líklega lög. Ráðherrann, eins og við öll sem hér störfum, er fyrirmynd og það eru meiri kröfur gerðar til okkar en almennra borgara í þessu landi vegna þess að við erum kjörnir fulltrúar.
Það var líka ömurlegt, forseti, að hlýða á forsætisráðherra í gær úr þessum stól, ráðherra jafnréttismála og mannréttinda, ekki bregðast við með afgerandi hætti og fordæma framkomu ráðherra síns í ríkisstjórninni. Þannig hefði hún getað lagt sitt lóð á vogarskálarnar gegn rasisma á Íslandi. Ræturnar eru djúpar. Meinsemdin er mikil og við verðum að horfast í augu við hana,“ sagði hún.
„Er ekki bara best að segja af sér?“
Dagbjört Hákonardóttir varaþingmaður Samfylkingarinnar ræddi málið einnig á þingi í dag. „Hversdagslegur rasismi og kvenfyrirlitning lifir enn sem komið er góðu lífi innan ríkisstjórnarinnar,“ sagði hún og bætti því við að ef marka mætti orð forsætisráðherra þyrftu við að sætta okkur við að ummæli innviðaráðherra hefðu hvorki verið rædd á vettvangi ríkisstjórnarinnar í morgun né innan Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sérstaklega.
„Ég neita fyrir mitt leyti að sætta mig við að hversdagslegur rasismi og kvenfyrirlitning sé gott sem samþykkt í ríkisstjórn íslensku íhaldsflokkanna. Eigum við virkilega að trúa því að það séu mannleg mistök að formaður Framsóknarflokksins hafi ekki ávarpað framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands, Vigdísi Ósk Häsler Sveinsdóttur, með nafni eins og henni er sæmandi heldur hafi hann kosið, ég endurtek hann valdi, að smætta hana niður á grundvelli kyns og kynþáttar? Samflokksfólki hæstv. innviðaráðherra hefur verið falið það vafasama hlutverk að biðjast afsökunar á framferði hans og þau ýja beinlínis að því að svona gerist bara,“ sagði hún.
Dagbjört sagði ennfremur að „svona orðfæri“ væri kannski daglegt brauð í Framsóknarflokknum en svo væri sannarlega ekki í öllum stjórnmálaflokkum.
„Ég ætla að nota tækifærið og minna á að það er ekki nóg að biðjast afsökunar. Hugur verður að fylgja máli. Hæstvirtur innviðaráðherra heldur kannski að hann hafi beðist afsökunar og það sem verra er, ráðherrar í íhaldsríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur virðast halda það líka. Innihaldslaust hjal ráðherra um eigið ágæti, trú á jafnrétti, viðkvæmar tilfinningar annarra og að mannleg mistök sem þessi séu jafn náttúrulegur hluti af lífinu og upprisa sólar að morgni er ekki afsökunarbeiðni og nú neitar innviðaráðherra að tjá sig við fjölmiðla.
Maður sem væri hryggur yfir framkomu sinni myndi nota slíkt tækifæri til að koma afstöðu sinni á hreint. Innviðaráðherra virðist bara vera leiður yfir því að hafa verið staðinn að verki. Er ekki bara best að segja af sér?“ spurði hún að lokum.
Ráðherrann blindur á eigin forréttindi
Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata var síðasti ræðumaður undir liðnum störf þingsins en hann sagði að undanfarin ár hefði orðið hávær vitundarvakning um kynþáttafordóma þar sem hvítt fólk í forréttindastöðu hefði verið hvatt til að hlusta, meðtaka, læra og gera betur.
„Það virðist vera að minnisblaðið hafi ekki borist öllum í Stjórnarráðinu ef marka má ummæli innviðaráðherra, rasísk ummæli á nýafstöðnu búnaðarþingi. Forsætisráðherra hefur í framhaldinu ekki aðeins lýst því yfir að hún taki afsökunarbeiðni ráðherrans gilda heldur hefur hún lagt til að þjóðin geri það öll, fylgi hennar fordæmi og faðmi ráðherrann eftir þennan asnaskap.“
Hann sagði að tvennt væri verulega athugavert við það. „Í fyrsta lagi er forsætisráðherra hvít valdakona, hún er í gríðarlegri forréttindastöðu og hvernig á hún að segja fólki sem þarf að þola fordóma og rasisma á hverjum einasta degi að það sé bara allt í lagi að dusta þetta af sér, fyrirgefa ráðherranum og halda áfram? Ættu afleiðingarnar ekki að vera dýpri þegar ráðherra flaskar á grundvallaratriði eins og að vera ekki rasisti?
Í öðru lagi þjóna ráðherrar alltaf sem fulltrúar Íslands erlendis. Jafnvel þótt þjóðin öll fyrirgæfi innviðaráðherra þá getum við ekki litið fram hjá pínlegri fáfræðinni sem þau afhjúpa á heimsvísu. Þau sýna svart á hvítu hversu blindur ráðherrann er á eigin forréttindi og veruleika fólks sem þarf að þola fordóma og jaðarsetningu. Það ætti að vera öllum ljóst að maðurinn er ekki starfi sínu vaxinn því að svona fáfræði verður ekki bara leiðrétt með afsökunarbeiðni, sama hversu einlæg hún kann að sýnast. Stjórnarliðar þurfa að sjá sóma sinn í að viðurkenna upplifun þeirra sem verða fyrir fordómum í íslensku samfélagi og sýna með skýrum hætti að rasískur hugsunarháttur sé ekki liðinn í ríkisstjórn Íslands.“