Miðflokkurinn í Reykjavík setti á dögunum fram áherslur flokksins á kosningavef sínum í Reykjavík. Flokkurinn hefur átt einn borgarfulltrúa á yfirstandandi kjörtímabili, en mætir nú til leiks með nýjan oddvita, Ómar Má Jónsson, sem er fyrrverandi sveitarstjóri á Súðavík.
Rúm 6 prósent atkvæða í síðustu borgarstjórnarkosningnum féllu Miðflokknum í skaut, en samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar mælist flokkurinn nú með 1,8 prósenta fylgi, sem myndi ekki duga til að fá mann kjörinn.
Málefnaskrá flokksins í borginni er sett fram undir slagorðinu „Meiri borg fyrir alla“ sem einnig hefur verið útfært sem „X-Meiri borg“ í auglýsingum. Það er ekki úr lausu lofti gripið, enda vill Miðflokkurinn að flatarmál borgarinnar stækki og segir Reykjavík ekki skorta landrými.
Flokkurinn ætli því í húsnæðismálum að leggja áherslu á það byggja á óbyggðu landi og „draga úr „þéttingu byggðar“ áherslum“. Flokkurinn horfir á það að „hraða uppbyggingu í Úlfarsárdal, Gufunesi, Geldinganesi, Keldnalandi, Kjalarnesi og víðar“ og vill fjölbreyttar húsategundir, „þ.m.t. úthlutun á einbýlishúsalóðum sem skortur er á“.
Miðflokkurinn segist borgina ekki hafa sinnt sumum hverfum borgarinnar sem skyldi. „Við ætlum að tryggja jafnan tilverurétt og uppbyggingu allra hverfa þannig að hvert og eitt þeirra geti blómstrað,“ segir í málefnaskrá flokksins.
Ráðningarstopp og áætlun um lækkun skulda
Miðflokkurinn segist ætla sér að stöðva skuldasöfnun og einfalda rekstur borgarinnar og setja „aðhald í rekstri í forgang“. Í því skyni ætlar flokkurinn meðal annars að beita sér fyrir því að „ráðningarstopp“ taki gildi hjá borginni sem eigi að leiða af sér náttúrulega fækkun starfsmanna.
„Fara þarf í heildarendurskoðun á starfsmannastefnu borgarinnar með það að markmiði að lækka launakostnað m.a. með fækkun starfsmanna í stjórnsýslunni en án þess þó að skerða lögbundna þjónustu borgarinnar,“ segir í málefnaskrá Miðflokksins.
Flokkurinn vill selja fyrirtæki í samkeppnisrekstri eins og malbikunarstöðina Höfða og ætlar sér að gera aðgerðaáætlun sem miði að því að ná heildarskuldbindingum samstæðu borgarinnar niður fyrir 150 prósent fyrir lok komandi kjörtímabils.
Nærliggjandi sveitarfélög greiði borginni fyrir félagsþjónustu
Í málefnaskrá Miðflokksins segir að höfuðborgin sé „að standa sig betur en mörg nágrannasveitarfélögin“ þegar komi að úrræðum fyrir þau sem standa höllum fæti og m.a. er vísað til þess að það megi sjá í samanburði á fjölda félagslegra íbúða á milli sveitarfélaga, sem Kjarninn réðist í á liðnu hausti.
Miðflokkurinn segir að ef nærliggjandi sveitarfélög séu ekki að sinna sína lögbundna þjónustuhlutverki handa þeim sem þurfi á félagslegu húsnæði að halda eða annarri félagslegri þjónustu þurfi að „jafna þá stöðu meðal sveitarfélaga þannig að nærliggjandi sveitarfélög greiði þá borginni fyrir að taka þungan af þeim málaflokki.“ Bendir Miðflokkurinn á fordæmi frá Danmörku í þessum efnum.
Hafna „þungri“ Borgarlínu og vilja fleiri mislæg gatnamót
Í samgöngumálum má lesa í málefnaskrá Miðflokksins að hann hafni „þungri“ Borgarlínu, en flokkurinn segir að leiðin til að „breyta umferðarháttum“ sé „ekki fólgin í meiri háttar skipulagsbreytingum sem tekur a.m.k. 15 ár að framkvæma.“
Þess í stað segist flokkurinn vilja mun betri ljósastýringar, setja göngubrýr yfir stofnæðar eða undirgöng undir þær og fækka þannig ljósabúnaði fyrir gangandi vegfarendur. Auk þess vill flokkurinn „koma fyrir mislægum gatnamótum á umferðamestu gatnamótununum og tryggja þannig óhindrað flæði umferðar án tafa“.
„Tryggjum áframhaldandi opnun Laugavegs, Skólavörðustígar og Bankastrætis í samvinnu við atvinnulíf þess svæðis,“ segir einnig í málefnaskrá Miðflokksins og er þar væntanlega átt við „opnun“ gatnanna fyrir bílaumferð. Flokkurinn segist svo ætla að „standa vörð um flugvöllinn í Vatnsmýri“.
Reykjavík nái loftslagsmarkmiðum
Miðflokkurinn segir miklar samfélagsbreytingar vera að eiga sér stað í umhverfismálum og að það hafi „aldrei verið eins mikilvægt fyrir stjórnvöld, sveitarfélög, íbúa og fyrirtæki að taka þátt í þeirri þróun sem er að eiga sér stað.“
Í málefnaskrá flokksins er rakið að ríkisstjórnin hafi skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, ná markmiðum Parísarsamningsins og einsett sér að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040.
„Reykjavíkurborg á að sýna fyrirhyggju og vera í fararbroddi til að ná þeim markmiðum sem henni ber í umhverfismálum og einnig í átt að sjálfbærni, hvort sem það er fjárhagsleg- eða umhverfis sjálfbærni,“ segir í málefnaskrá flokksins.
Þar segir einnig að það þurfi að „endurskoða allan rekstur borgarinnar með umhverfismál að leiðarljósi“ og „leggja mun meiri áherslu á umhverfisvænni húsabyggingar þar sem markmiðið á að vera að kolefnisspor hverrar húseiningar sé sem minnst í samanburði við það besta sem þekkist.“
Einnig segir flokkurinn að til að ná markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum þurfi að stórefla skógrækt í borgarlandinu og að það sé forgangsmál að hraða orkuskiptum í samgöngum með áherslu á bílaflota borgarinnar og rafvæðingu hafna.
Miðflokkurinn segist einnig ætla að „beita sér fyrir því að standa vörð um græn og opin svæði borgarinnar og fjölga göngustígum og brautum fyrir hjólreiðafólk“.
Kjarninn mun halda áfram að segja frá stefnumálum framboða sem bjóða fram til borgarstjórnar í Reykjavík næstu daga.