Borgin með 78 prósent félagslegra íbúða – en bara 56 prósent íbúa
Félagslegar íbúðir í eigu eða umsjá sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu eru alls 3.798 talsins. Reykjavík slítur sig frá öðrum sveitarfélögum hvað varðar framboð á félagslegu húsnæði. Á hinum endanum er Garðabær svo í sérflokki.
Hlutdeild Reykjavíkurborgar í framboði félagslegs húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hefur vaxið frá árslokum 2017, er um 76 prósent af félagslegum leiguíbúðum voru í eigu eða umsjá borgarinnar. Hlutfallið nú fer yfir 78 prósent, samkvæmt svörum sveitarfélaga við fyrirspurnum Kjarnans.
Alls eru félagslegar íbúðir í eigu eða umsjá sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu 3.798 talsins, en þetta geta verið félagslegar leiguíbúðir, leiguíbúðir fyrir aldraða í eigu sveitarfélaga, leiguíbúðir fyrir fatlaða í eigu sveitarfélaga og aðrar íbúðir sem ætlaðar eru til nýtingar í félagslegum tilgangi.
Gögnin ekki lengur tekin saman á einum stað
Fram til ársloka 2017 voru upplýsingar um framboð félagslegs húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu teknar saman af apparati sem sjaldan heyrist um, Varasjóði húsnæðismála. Fjallað var um síðustu könnun sjóðsins í fréttaskýringu í Kjarnanum árið 2018 en síðan þá hefur þetta ekki verið tekið saman með reglubundnum hætti.
Samantekt Kjarnans um félagslegar íbúðir frá 2018
Kjarninn leitaði fanga bæði hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem fjallar reglulega um stöðu húsnæðismála og sömuleiðis Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, en fékk þau svör að þar væri þessum upplýsingum ekki safnað reglubundið saman.
Þess í stað var leitaði Kjarninn svara hjá sveitarfélögunum sex, Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Mosfellsbæ, Hafnarfirði og Seltjarnarnesi og hafa þau verið að berast undanfarna daga.
Svörin sem bárust eru ekki öll fullkomlega sambærileg, sum sveitarfélög tiltóku til dæmis íbúðir sem væru í áframleigu en ekki í eigu sveitarfélagsins, til dæmis, en fyrirvarar eru settir fram þar sem það á við í þessari umfjöllun.
Virðist fækka í Kópavogi
Félagslegum leiguíbúðum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað í öllum sveitarfélögunum frá því við árslok 2017, nema í Kópavogi. Þar var fjöldi félagslegra íbúða sagður 451 í svari við fyrirspurn Kjarnans, en í síðustu könnun Varasjóðs húsnæðismála voru íbúðirnar taldar 470 talsins. Þarna er þó ef til vill ekki öll sagan sögð, þar sem svarinu frá Kópavogi fylgdu ekki upplýsingar um fjölda íbúða fyrir fatlaða eða aldraða í eigu bæjarins.
Í Kópavogi bjuggu 38.779 manns þann 1. ágúst, sem þýðir að 11,6 félagslegar íbúðir eru á hverja 1.000 íbúa bæjarins. Í þessum samanburði er Kópavogur í öðru sæti á eftir Reykjavík er kemur að félagslegum íbúðum sem eru í eigu eða umsjá sveitarfélaganna.
Nær nákvæmlega tífalt fleiri félagslegar íbúðir eru á hverja þúsund íbúa í Kópavogi en Garðabæ, þar sem félagslegar íbúðir eru 1,6 á hverja 1.000 íbúa – alls 30 talsins. Það er reyndar að frátöldum íbúðum eða búsetuúrræðum fyrir fatlaða í eigu bæjarins þar sem samtals 19 manns búa. Að þeim íbúðareiningum meðtöldum má segja að 2,6 félagslegar íbúðir séu á hverja þusund íbúa í Garðabæ – en þar bjuggu 18.194 manns í ágúst.
Í Reykjavík eru íbúðirnar alls 2.971 talsins. Almennar íbúðir eru 2.112, 431 eru svo útbúnar fyrir fatlaða, 385 eru fyrir aldraða og 43 íbúðareiningar eru fyrir heimilislaust fólk. Að öllu meðtöldu er 22 félagsleg íbúð á hverja 1.000 íbúa Reykjavíkur – en þeir voru 134.162 talsins þann í upphafi ágúst. Heildarfjöldi félagslegra íbúða í Reykjavík við árslok 2017 var sagður 2.513 og hefur þeim því fjölgað um rúmlega 450 síðan þá.
Hafnarfjörður kemur í kjölfar Kópavogs með þriðja hæsta hlutfall félagslegra íbúða á hvern íbúa. Í bænum eru 278 félagslegar íbúðir, þar af 269 sem eru í eigu bæjarins, en níu íbúðir eru leigðar. Í árslok 2017 voru íbúðirnar 255 talsins í Hafnarfirði. Íbúarnir voru 29.598 talsins í ágúst og því 9,4 félagslegar íbúðir á hverja 1.000 Hafnfirðinga.
Garðabær, Seltjarnarnes og Mosfellsbær í sérflokki
Garðabær rekur lestina hvað hlutfall félagslegra íbúða varðar, eins og áður var rakið, en bæði Seltjarnarnes og Mosfellsbæ standa Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði þó allnokkuð að baki.
Á Seltjarnarnesi eru 18 félagslegar íbúðir, samkvæmt svari bæjarins til Kjarnans. Þær voru 16 talsins undir lok árs 2017. Íbúar á Seltjarnarnesi voru 4.726 talsins í ágúst, sem þýðir að íbúðirnar voru 3,8 á hverja 1.000 íbúa á Seltjarnarnesi.
Í Mosfellsbæ eru félagslegar íbúðir svo 50 talsins, þar af 31 í eigu bæjarins en 19 sem eru leigðar. Þær voru 31 talsins undir lok árs 2017. Íbúar þar voru 12.914 í ágúst sem þýðir að félagslegar íbúðir á hverja 1.000 Mosfellinga eru 3,9 talsins.
Lestu meira
-
11. ágúst 2022Ekki allur munurinn á að kaupa af bankanum eða byggja jafn dýrt hinu megin við götuna
-
8. ágúst 2022Þrjár af hverjum fjórum krónum umfram skuldir bundnar í steypu
-
7. ágúst 2022„Hægt væri að banna Airbnb í þéttbýli þegar skortur er á íbúðarhúsnæði“
-
22. júlí 2022Lagt til á ríkisstjórnarfundi að kaupa hluta af höfuðstöðvum Landsbankans á sex milljarða
-
15. júlí 2022Stúdentagarðar stækka við sig í Skuggahverfi
-
12. júlí 2022„Færri munu eiga þess kost að kaupa íbúð“
-
10. júlí 2022Lífeyrissjóðirnir lánuðu heimilum 40 milljarða króna óverðtryggt á sjö mánuðum
-
10. júlí 2022Stjórnmálamenn sem smíðuðu félagslegan píramída á hvolfi vilja nú snúa honum við
-
6. júlí 2022Sigurður Ingi lætur fyrrverandi ráðherra endurskoða beinan húsnæðisstuðning ríkissjóðs
-
6. júlí 2022Skipar starfshóp sem á að binda í lög að ástandsskýrslur fylgi söluyfirlitum íbúða