Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks og Ágúst Bjarni Garðarsson þingmaður Framsóknarflokks hafa lagt fram frumvarp þess efnis að ÁTVR skuli hafa samráð við sveitarstjórnir um staðarval þegar verið er að opna nýjar áfengisverslanir.
Þetta er í þriðja sinn sem þetta frumvarp er lagt fram, en það hefur ekki hlotið afgreiðslu til þessa. Í greinargerð með frumvarpinu segir að það sé þekkt að sveitarfélög hafi ekki alltaf verið sátt með staðsetningu verslana ÁTVR og jafnvel talið að staðarval opinbera fyrirtækisins, sem heyrir undir stjórn fjármálaráðuneytisins, vinni gegn markmiðum þeirra í skipulags- og umhverfismálum.
„Sem dæmi má nefna að sveitarfélagið Garðabær hefur ítrekað kvartað yfir því að ÁTVR hafi einhliða lokað verslun sinni í miðbæ Garðabæjar og hafi svo nokkrum árum síðar opnað nýja verslun í Kauptúni en ekki í miðbæ Garðabæjar þrátt fyrir skýrar óskir sveitarfélagsins þar um. Sama gerðist með verslun ÁTVR í Hafnarfirði. Sú staða er óbreytt og nú er fyrirhugað að flytja verslun ÁTVR úr miðborg Reykjavíkur, þ.e. verslunina við Austurstræti, svo dæmi sé tekið,“ segir í greinargerðinni með frumvarpinu.
Fyrir skemmstu bárust þau tíðindi að ÁTVR horfði helst til húsnæðis við Fiskislóð 10 á Granda fyrir nýja verslun miðsvæðis í Reykjavík, en fyrirætlanir fyrirtækisins um mögulegan flutning úr Austurstræti hafa vakið upp blendin viðbrögð.
Í greinargerð með frumvarpi þeirra Bryndísar og Ágústs Bjarna er rifjað upp að þegar málið var flutt á 150. löggjafarþingi lýsti Samband íslenskra sveitarfélaga sig sammála því að það yrði að lögum, þar sem sveitarfélög væru í auknum mæli farin að nýta skipulagsvaldið til að efla verslun og þjónustu innan íbúðarhverfa, styðja við umhverfisvænni samgöngur og haga skipulagi þannig að sem minnst þörf sé fyrir akstur um langar vegalengdir til að sækja verslun og þjónustu. Því væri eðlilegt að ÁTVR hefði samráð við sveitarfélög um staðsetningu verslana.
Tillagan mögulega „skaðleg hagsmunum ÁTVR“
Er málið var til þinglegrar meðferðar haustið 2019 sendi ÁTVR einnig inn umsögn um málið og sagði þar að tillagan væri hreint og beint óþörf. ÁTVR þyrfti nú þegar að sækja um leyfi til rekstrar áfengisverslunar til viðkomandi sveitarstjórnar og sveitarfélagi gæti á því stigi sett fram sín sjónarmið varðandi staðsetningu, þó það gæti væntanlega ekki skilyrt leyfið eða bundið við einn verslunarkjarna frekar en annan.
„Í tillögu þeirri sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir einhvers konar lögbundnu samráði, án þess að þar segi nokkuð um það hvernig því samráði skuli háttað eða hver hafi úrslitavaldið að því loknu. Þegar veruleikinn er sá að öll samskipti og samráð eru hvort sem er opin á báða bóga verður varla séð að lögbinding einhvers óljóss samráðsferlis, með enn óljósari niðurstöðu, þjóni einhverjum tilgangi og gæti beinlínis verið skaðleg hagsmunum ÁTVR,“ sagði í umsögn ÁTVR, sem Ívar J. Arndal forstjóri fyrirtækisins undirritaði.
Auk þess að telja tillöguna óþarfa sagði í umsögn ÁTVR að tillagan væri „afturhvarf til pólitískra afskipta og gamalla tíma“ og loks taldið fyrirtækið tillöguna „geta falið í sér ákveðna lagalega áhættu, ef horft er til nútíma viðskiptahátta og þróunar samkeppnisréttar og reglna um opinber innkaup.“