Áformað er að auka efnistöku úr gjallnámu í Seyðishólum í Grímsnes- og Grafningshreppi í um 74 prósent á ári svo flytja megi meira magn á markað í útlöndum. Við vinnsluaukninguna myndu fleiri og stærri flutningabílar flytja efni frá námunni, ýmist til kaupenda innanlands eða til Þorlákshafnar þaðan sem það yrði flutt úr landi. Framkvæmdaaðilinn Suðurtak metur heildar umhverfisáhrif framkvæmdarinnar óveruleg.
Efnistaka úr námunni hófst fyrir 1950 þegar Jón Loftsson ehf hóf framleiðslu mátsteina úr Seyðishólagjalli. Samkvæmt mælingum er ætlað að búið sé að vinna alls um 450 þúsund m3 af gjalli úr þessari námu frá upphafi. Með stækkun námunnar, sem fjallað er um í nýrri umhverfismatsskýrslu, er fyrirhugað að taka úr henni allt að 500 þúsund rúmmetra (m3) á næstu 15 árum eða um 33 þúsund m3 á ári að meðaltali. Suðurtak er með námuna á leigu en útflutningur efnisins er í höndum Jarðefnaiðnaðar ehf. Miðað við þessar magntölur á að vinna svipað magn af efni úr námunni á 15 árum og gert hefur verið á meira en 70 árum til þessa.
Hver flutningabíll Suðurtaks, sem flytur efnið til kaupenda innanlands, tekur um 15 rúmmetra af gjalli. Bílarnir sem Jarðefnaiðnaður myndi nota eru mun stærri og tækju um 30 rúmmetra. Miðað við að unnið yrði í námunni 150 virka daga á ári þyrfti um 1.500 bílferðir á ári, að jafnaði um tíu bíla á hverjum þeim degi, þar af fimm bíla á dag með gjall um 50 kílómetra leið til Þorlákshafnar. „Þessar tölur kunna að rokka verulega í samræmi við eftirspurn,“ segir í umhverfismatsskýrslu Suðurtaks. Þar segir ennfremur að þar sem helmingi stærri bílar en nú eru notaðir kæmu til sögunnar myndi umferð þeirra frá námunni aukast um 46 prósent þrátt fyrir að vinnsluaukningin næmi 74 prósentum.
Seyðishólar eru rauðleitir gjallgígar sem rísa um 100 metra upp úr flatlendinu umhverfis. Þeir eru áberandi kennileiti í Grímsnesi neðanverðu. Efstu kollar hólanna eru að mestu ógrónir og sést rauðleitur litur gjallsins langt að.
Heildaráhrifin metin óveruleg
Náman sem fyrirhugað er að stækka og dýpka kallast E30b og er við Hólaskarð. Námusvæðið er mest áberandi af Biskupstungnabraut sunnan Kerhóls og niður fyrir Kerið og frá frístundabyggðinni sunnan og vestan við neðri Seyðishólinn. Að henni liggur 1 kílómetra malarvegur frá Búrfellsvegi. Sem mótvægisaðgerð til að draga úr ryk- og hávaðamengun frá auknum flutningum yrði kaflinn malbikaður, segir í skýrslu Suðurtaks.
Í fyrstu skrefum mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar bárust athugasemdir um gjallfok frá námunni í vondum veðrum yfir frístundabyggðir við hólana. Suðurtak telur að gjallfok, hvort sem það eigi uppruna sinn í námunni eða í ógrónu, náttúrulegu umhverfi, muni ekki aukast með stækkun námuholunnar. Áhrif á loftgæði framkvæmdarinnar eru því metin óveruleg.
Áhrif framkvæmdar á ásýnd Seyðishóla, frá því sem nú er, eru metin frekar neikvæð og óafturkræf. Áhrif á gróður eru metin óveruleg og sömu sögu er að segja um áhrif á fuglalíf. Þá telur framkvæmdaaðili, í ljósi þess að námugröftur hefur verið stundaður á svæðinu í áratugi, að áhrif á jarðmyndanir verði lítil sem engin umfram það sem þegar er orðið. Námuholan mun stækka nokkuð og nýtt yfirborð námaveggjanna mun koma í ljós, segir í matsskýrslunni en þrátt fyrir að hólarnir séu eldvörp sem njóti verndar í náttúruverndarlögum telur Suðurtak það ekki eiga við vegna mikillar röskunar svæðisins nú þegar.
Þrátt fyrir að aukning verði á umferð vörubíla á akstursleiðum til Þorlákshafnar eru áhrif á umferð talin óveruleg og þar sem efnistakan og útflutningur á gjalli sé atvinnu- og gjaldeyrisskapandi eru áhrif á samfélag metin frekar jákvæð.
Niðurstaðan: Framkvæmdaaðilinn Suðurtak metur heildaráhrif framkvæmdarinnar óveruleg.
Stærð námusvæðis í dag er um 3,5 hektarar. Síðastliðin fjögur ár hefur efnistakan numið samtals um 75 þúsund rúmmetrum eða tæpum 19 þúsund m3 á ári. Þar hefur Jarðefnaiðnaður flutt árlega út 5-10 þúsund m3. Sá útflutningur mun aukast verulega með stækkun námunnar eða í 20-25 þúsund rúmmetra á ári.
Jarðefnaiðnaður flytur gjallið úr Seyðishólum til Norðurlandanna þar sem það er notað sem grunnefni í ræktun á gróðri á húsþökum í samkeppni við önnur ræktunarefni. „Þakræktun þykir mikilvæg vegna þeirra loftslagsbreytinga sem hafa orðið á síðustu áratugum og í sumum borgum í Evrópu og Bandaríkjunum er einungis leyft að reisa opinberar byggingar hafi þær græn þök,“ stendur í umhverfismatsskýrslu Suðurtaks.
Innanlands hefur gjallið verið notað í stíga- og gatnagerð, fyllingar að mannvirkjum og til iðnaðarframleiðslu.
Kvika hátt í loft upp varð að gjalli
Seyðishólar eru hluti af hinni litlu og afmörkuðu Grímnesgosrein. Grímsnesgosin áttu sér stað fyrir 7.500-9.500 árum, eftir að ísöld lauk og liggja gosefnin mislægt ofan á rofnum jarðlagastafla sem myndaður er á ísöld. Uppstreymishraði kvikunnar var allmikill sem leiddi til þess að gosin urðu blanda af hraunrennsli og háum kvikustrókum. Í gosunum þaut því tiltölulega mikið magn af kviku hátt í loft upp og tiltölulega mikill hluti þeirrar kviku storknaði í loftinu og varð að gjalli, sem að miklu leyti hlóðst upp í myndarleg gíguppvörp á gosstaðnum.
Seyðishólar eru að sögn framkvæmdaaðila víða raskaðir af gömlum námusvæðum. Búið sé að taka efni úr mörgum gíganna á Grímsnesgosreininni á undangenginni öld og „er nú líklega aðeins Kerhóll einn eftir nánast ósnertur að kalla“. Þannig sé „aragrúi náma“ stórra og smárra hingað og þangað á svæðinu.
„Af tillitssemi við umhverfið hefur stærð námusvæðis verið haldið í lágmarki í stað þess að fletja það út,“ segir í skýrslu Suðurtaks. „Staðan er því sú að hér er náma sem er tiltölulega lítil að umfangi en djúp og með bröttu stáli.“
Umhverfismatsskýrslu Suðurtaks ehf. má lesa hér á vef Skipulagsstofnunar. Allir geta veitt umsögn um hana til 20. október.