Viljayfirlýsing íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar um byggingu þjóðarhallar í innanhúsíþróttum í Laugardal, sem dagsett er 3. maí, var lögð fram í borgarráði Reykjavíkur til samþykktar á fimmtudag. Afgreiðsla málsins var hins vegar færð í trúnaðarbók ráðsins vegna þess að ríkisstjórn tók hana ekki til samþykktar fyrr en daginn eftir, föstudaginn 6. maí.
Kjarninn hefur fengið það staðfest hjá Reykjavíkurborg að viljayfirlýsingin hafi verið samþykkt einróma af öllum fulltrúum flokka sem sitja í borgarráði. Fundinn á fimmtudag sátu, auk Dags. B. Eggertssonar borgarstjóra, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, Eyþór Laxdal Arnalds, sem leiddi lista Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 2020 og Jórunn Pála Jónasdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. Þá tók Hildur Björnsdóttir, núverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, sæti á fundinum í gegnum fjarfundarbúnað. Auk þess sátu þrír áheyrnarfulltrúar minni flokka fundinn, en þeir hafa, eðli málsins samkvæmt, ekki atkvæðisrétt.
Viðræður staðið yfir frá áramótum
Í tillögunni sem lögð var fram í borgarráði sagði að yfirlýsingin taki af skarið um undirbúning og byggingu þjóðarhallar í Laugardal. „Formlegar viðræður hafa staðið yfir frá sl. áramótum. Að þeim hafa komið Ómar Einarsson framkvæmdastjóri ÍTR, Halldóra Káradóttir sviðsstjóri fjármála og áhættustýringarsviðs og Þórhildur Lilja Ólafsdóttir lögmaður hjá embætti borgarlögmanns, auk borgarstjóra. Í Þjóðarhöll og uppgerðri Laugardalshöll verður, auk þarfa landsliða og alþjóðlegra krafna til þjóðarleikvanga, gert ráð fyrir framúrskarandi afstöðu fyrir æfingar barna- og unglinga í Laugardal og félaganna Þróttar og Ármanns og verður haft samráð við fulltrúa félaganna í frekari þarfagreiningu og hönnun.“
Viljayfirlýsingin var svo lögð fyrir ríkisstjórnarfund í gær og undirrituð síðdegis sama dag af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni mennta- og barnamálaráðherra og Degi B. Eggertssyni borgarstjóri. Stefnt er að því að framkvæmdum ljúki árið 2025 og kostnaðarskipting milli ríkis og borgar á að taka mið af nýtingu mannvirkisins. Það þýðir að ríkið borgar fyrir þann hluta sem snýr að þörfum sérsambanda og alþjóðlegra krafna til keppnisaðstöðu landsliða og Reykjavíkurborg þann hluta sem snýr að þörfum Þróttar og Ármann annars vegar og íþróttakennslu skóla í Laugardalnum hins vegar. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans verður fullt aðgengi íþróttafélaganna að æfingavöllum tryggt í þeirri þarfagreiningu.
Til stendur að byggja höllina á svæði sem liggur milli Laugardalshallar og skrifstofumannvirkja Íþróttasambands Íslands, og að Suðurlandsbraut.
Í tilkynningu segir að Ríki og borg muni standa sameiginlega að hugmyndasamkeppni um hönnun mannvirkis og útlit og séu „sammála um að leggja kraft í verkið“.