Hanna Katrín Friðriksdóttir, þingmaður Viðreisnar, hefur farið fram á svör um hvað hafi legið að baki þeirri ákvörðun að fella út upplýsingar um fjárfestingar hvers útgerðarfélags og tengdra félaga, sem finna mátti í skýrsludrögum sem ríkisskattstjóri sendi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í júlí sl., úr skýrslu um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins í íslensku atvinnulífi áður en hún var lögð fyrir Alþingi?
Þetta kemur fram í fyrirspurn sem hún hefur lagt fram á Alþingi og beint til Svandísar Svavarsdóttur, nýs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Skýrslan var ekki unnin á meðan Svandís stýrði ráðuneytinu heldur í tíð fyrirrennara hennar, Kristjáns Þórs Júlíussonar.
Hanna Katrín fer einnig fram á að fá að vita á grundvelli hvaða ráðgjafar Kristján Þór hafi talið sér óheimilt að birta hluta upplýsinganna og spyr hvort Svandís sé sammála því mati. Að endingu vill Hanna Katrín fá skýringu á því hvað hafi orsakað hinar miklu tafir sem urðu á birtingu skýrslunnar.
Svaraði ekki því sem hún átti að svara
Kjarninn fjallaði ítarlega um skýrsluna þegar hún var loks birt 25. ágúst síðastliðinn, átta mánuðum eftir að beiðni um gerð hennar var samþykkt. Skýrslan sýndi hvorki krosseignartengsl eða ítök útgerðarfélaganna í einstökum fyrirtækjum.
Ekki var tilgreint með neinum hætti um hvaða eignir er að ræða.
Hanna Katrín, sem bað um skýrsluna, sagði í samtali við Kjarnann eftir að hún var birt að skýrslan væri ekki það sem beðið hefði verið um. Hún sagðist ekki vita hvort hún hefði átt að hlægja eða gráta þegar hún las skýrsluna. „Ég hallast frekar að því að hlægja. Það er eitthvað fyndið við að þetta skuli verða niðurstaðan. Að stjórnvöld skuli hafa ákveðið að fara þessa leið til að forðast að umbeðnar upplýsingar kæmust fyrir augu almennings fyrir kosningar.“
Persónuvernd gerði alvarlegar athugasemdir
Í kjölfar birtingu skýrslunnar sendi Persónuvernd bréf til ráðuneytisins þar sem stofnunin gerði alvarlegar athugasemdir við svar við spurningu sem finna má í skýrslunni þar sem því var haldið fram að persónuverndarlög hömluðu því að Skatturinn, sem vann skýrsluna, gæti birt upplýsingar um raunverulega eigendur félaga. Var þar meðal annars vísað í úrskurð Persónuverndar frá 15. júní síðastliðnum þar sem stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að víðtæk birting heildarhluthafalista margra stærstu fyrirtækja landsins á vef Skattsins væri ekki heimil lögum samkvæmt.
Vegna þessarar túlkunar skýrsluhöfunda var ekkert yfirlit að finna yfir þau fyrirtæki sem útgerðarmenn og aðilar tengdir þeim hafa keypt í óskyldum geirum.
Í bréfi Persónuverndar sagði að í skýrslunni væru ýmsar rangfærslur sem Persónuvernd taldi ástæðu til að leiðrétta. Þar kom meðal annars fram að úrskurðurinn frá því í júní hafi einungis náð til upplýsinga um hlutafjáreign einstaklinga, ekki fyrirtækja eða annarra lögaðila sem njóti ekki sömu verndar. Varðandi tilvísun Skattsins um að ekki væri heimilt að birta upplýsingar um raunverulega eigendur sagði Persónuvernd að hún sé einfaldlega röng.
Kristján Þór brást ókvæða við bréfinu og í stöðuuppfærslu sem hann birti á Facebook sagði hann það vera ófaglegt af Persónuvernd að saka ráðuneytið sem hann stýrði um að leyna upplýsingum eða nota Persónuvernd sem skálkaskjól. Hann vísaði þeim ásökunum á bug sem „hreinum rógburði“. „Ég hef óskað eftir að ráðuneytið boði fulltrúa Skattsins og Persónuverndar til fundar til að fara nánar yfir þessi atriði og ákveða næstu skref. Þau verða tekin af fagmennsku og virðingu fyrir þeim reglum sem um efnið gilda. Hér eftir sem hingað til.“
Listarnir felldir út
Daginn fyrir síðustu þingkosningar, 24. september, birti Kveikur svo frekari umfjöllun um skýrsluvinnuna.
Þar kom fram að Kveikur hefði óskað eftir öllum gögnum sem tengdust skýrsluskrifunum bæði frá ráðuneytinu og ríkisskattstjóra. Gögnin hefðu borist frá ríkisskattstjóra þennan dag en ráðuneytið sagðist ekki geta svarað fyrirspurninni fyrr en eftir helgi, þegar kosningarnar væru afstaðnar.
Í svörum ríkisskattstjóra kom fram að listar yfir fjárfestingar útgerðarfélaga og tengdra félaga í íslensku atvinnulífi voru í drögum að skýrslu Kristjáns Þórs sem stofnunin hafði sent ráðuneytinu í júlí síðastliðnum. Listarnir voru hins vegar hvorki í seinni drögum og ekki í endanlegri skýrslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til Alþingis.