Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur kynnt drög að frumvarpi sem hefur þann tilgang að framlengja heimild til að nýta séreignarsparnað skattfrjálst til að greiða niður húsnæðislán um tvö ár. Heimildin var fyrst kynnt til leiks sem hluti af Leiðréttingunni svokölluðu og tók gildi sumarið 2014. Þá átti hún að gilda í þrjú ár. Síðan þá hefur hún verið framlengd tvívegis til tveggja ára í senn og nú stendur til að framlengja hana til loka júnímánaðar 2023.
Alls hafa um 59 þúsund manns nýtt sér úrræðið frá því að það var kynnt til leiks til að greiða alls 81,5 milljarða króna inn á húsnæðislán sin. Til viðbótar hafa nálægt fjögur þúsund einstaklingar nýtt sambærilegt úrræði, „Fyrstu fasteign“, sem er ætlað fyrir þá sem eru að kaupa húsnæði í fyrsta sinn, en sá hópur hefur greitt um 10,5 milljarða króna inn á húsnæðislán frá árinu 2017.
Samanlagt hafa því 62.952 einstaklingar, um 30 prósent allra sem eru á vinnumarkaði á Íslandi, nýtt sér þetta skattfrjálsa úrræði. Frá því að fyrsta úrræðið var kynnt til leiks hefur þessi hópur, tæpur þriðjungur vinnumarkaðar og 17 prósent þjóðarinnar, fengið 21,1 milljarð króna í skattafslátt sem öðrum hefur ekki staðið til boða. Sá afsláttur hefur orðið til þess að lækka tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga.
Í mati á áhrifum frumvarpsins sem nú liggur fyrir kemur fram að það megi ætla að samanlagt tekjutap ríkis og sveitarfélaga, vegna skatttekna sem þau gefa eftir, verði á bilinu sex til átta milljarðar króna á tímabilinu sem framlengingin nær til.
Reykjavíkurborg vill fá tekjutap bætt
Á meðal þeirra sem skiluðu umsögn um frumvarpið í samráðsgátt stjórnvalda var Reykjavíkurborg, langstærsta sveitarfélag landsins og það stjórnvald utan ríkissjóðs sem verður fyrir mestu tekjutapi vegna skattaafsláttarins.
Í umsögn borgarinnar segir að ríkið hafi velt umtalsverður hluta af kostnaðinum vegna úrræðisins yfir á sveitarfélög og að Samband íslenskra sveitarfélaga áætli tekjutap þeirra vegna þessa á um tvo milljarða króna á ári. Þar af er tekjutap Reykjavíkurborgar 650 til 700 milljónir króna á ári og samanlagt útsvarstekjutap borgarinnar frá 2014 til 30. júní næstkomandi allt að fimm milljarðar króna. Á móti þessu tekjutapi hafi höfuðborgin fengi einskiptisframlag upp á 244 milljónir króna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á árinu 2017.
Reykjavíkurborg gerir í umsögn sinni kröfu um að sveitarfélögum verði bætt það útsvarstekjutap sem hlýst af ákvörðun Alþingis um skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar. „Þetta er ekki lögbundið verkefni sveitarfélaga eins og sérstakur húsnæðisstuðningur og flest sveitarfélög glíma við erfiðan hallarekstur um þessar mundir vegna heimsfaraldurs Covid-19,“ segir í umsögninni.
Þeir sem þurfa að láta enda ná saman greiða skatt
Þetta er ekki eina nýtingin á séreignarsparnaði sem stjórnvöld hafa heimilað. Í fyrsta efnahagspakka ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, sem kynntur var 21. mars 2020, var ein af aðgerðunum sem kynnt var til leiks sú að landsmönnum gert kleift að taka út séreignasparnað til að takast á við skammtímafjárhagsvanda. Þeir sem nýttu sér þetta úrræði þurftu þó að greiða skatt af sparnaðinum þegar hann var tekinn út. Því var líka um tekjuskapandi aðgerð að ræða fyrir ríkissjóð.
Upphaflega reiknaði ríkisstjórnin með því að teknir yrðu út um tíu milljarðar króna af þessum sparnaði, sem var upphaflega hugsaður til að auka ráðstöfunarfé fólks þegar það fer á eftirlaun. Eftirspurnin eftir nýtingu á úrræðinu reyndist hins vegar miklu meiri en búist var við og nú áætlað stjórnvöld að útgreiðslur verði 28,6 milljarðar króna fram í mars á næsta ári, þegar heimild til útgreiðslu lýkur. Það þýðir að landsmenn tóku út tæplega þrisvar sinnum meira af sparnaði sínum til að takast á við efnahagslegar afleiðingar COVID-19 en upphaflega var reiknað með.
Þann 14. apríl síðastliðinn var búið að greiða þorra þeirrar upphæðar út, eða alls 26,9 milljarða króna. Ætla má að skattgreiðslur til ríkis og sveitarfélaga vegna þessa hafi verið um 9,5 milljarðar króna. Þegar upp verður staðið munu skattgreiðslurnar fara yfir tíu milljarða króna.
Ekki hefur verið birt neitt niðurbrot á þeim hópi sem hefur nýtt sér þetta úrræði en ætla má að þar sé, að minnsta kosti að hluta, um að ræða fólk sem hefur átt í greiðsluerfiðleikum vegna efnahagslegra áhrifa COVID-19. Þeir sem fóru úr vel launuðum störfum á atvinnuleysisbætur eru líklegri til að tilheyra þessum hópi en aðrir, þar sem tekjuhærri hafa almennt verið líklegri til að spara séreign en tekjulægri.