Eftir mikla leit að stað fyrir sumarhús valdi Steinunn Guðmundsdóttir Hvalfjarðasveit. Ástæðan var einföld: Fegurð, kyrrð, fuglalíf, friðun og óendanlegir möguleikar á fallegum gönguleiðum ekki síst að hæsta fossi landsins, Glym í botni Hvalfjarðar. „Ég fjárfesti í góðri trú í þessari náttúruperlu og kyrrð fyrir tugi milljóna,“ segir hún. En nú er komið babb í bátinn.
Fyrirtækið Zephyr Iceland ehf. áformar að reisa allt að 50 MW vindorkuver að bænum Brekku í Hvalfirði og það mun að mati Steinunnar spilla þeirri paradís sem hún hafði séð fyrir sér með kaupum á leigulóð í landi Kalastaða í Hvalfjarðarsveit fyrir réttu ári síðan.
„Ég verð að mótmæla því harðlega að verið sé að verðfella allt mitt með vindorkugarði sem mun gína yfir umhverfi mínu eins og hrammur og gera að engu þá náttúruperlu og fuglalíf sem er einstakt á þessu svæði,“ skrifar Steinunn í ítarlegri umsögn um matsskýrslu Zephyr, „með hávaðamengun, ljósmengun, sjónmengun og öllum þeim öðrum ókostum sem þessu fylgir.“
Zephyr vill reisa 8-12 vindmyllur á fjallinu Brekkukambi sem er í um 647 metra hæð yfir sjávarmáli. Hver mylla gæti verið um 247 metrar á hæð en ekki hefur verið ákveðið af hvaða tegund þær yrðu. Til samanburðar er Hallgrímskirkjuturn 74,5 m og Eiffel-turninn í París um 300, 324 ef spíran er tekin með.
Náttúrufræðistofnun Íslands skilgreinir Hvalfjörð sem mikilvægt fuglasvæði og er fjörðurinn einnig á B-hluta náttúruminjaskrár sem og fossinn Glymur sem er í um 10 kílómetra fjarlægð frá virkjanasvæðinu. En „frumathuganir á svæðinu benda til þess að vindaðstæður á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði séu góðar fyrir vindorkunýtingu,“ segir í matsáætlun Zephyr. „Staðsetning fyrirhugaðs vindorkugarðs á Brekkukambi þykir góð vegna nálægðar við helstu raforkunotendur landsins (höfuðborgarsvæðið), háspennulínurnar Sultartangalínu 3 og Brennimelslínu 1, tengivirki og höfn við Grundartanga.”
Steinunn segir ljóst að með 247 metra háum vindmyllum með blikkandi ljósum til varnar flugumferð sé „hin dimma íslenska náttúrufegurð með norðurljósum og tilheyrandi horfin úr náttúrunni á stóru svæði“.
Mikil uppbygging hefur verið í ferðaþjónustu í Hvalfjarðarsveit og fer sumarhúsabyggð þar ört stækkandi. „Svæðið umhverfis framkvæmdasvæðið einkennist af landbúnaði, sumarhúsabyggð og útivistarmöguleikum,“ segir í skýrslu Zephyr. Sumarhúsabyggðir eru m.a. í Svínadal við Eyrarvatn og Glammastaðavatn og við Bjarteyjarsand og Brekku við suðurhlíð Brekkukambs.
Næstu mannvirki við framkvæmdasvæðið eru suðvestan þess, í sumarhúsabyggð við Fornastekk. Ysti sumarbústaðurinn er í um 2,01-2,18 km fjarlægð frá ystu vindmyllunum.
Steinunn bendir á að fjöldi þekktra staða og gönguleiða séu á þessum slóðum, staðir sem ferðamenn og útivistarfólk sæki sífellt meira í. „Lega vindmyllanna er slík að það er ekki bara Hvalfjörður og nærumhverfi sem verða fyrir sjónmengun heldur er sjálfur þjóðgarður okkar, Þingvellir, í valnum því reiknað er með að þaðan gætu sést átta vindmyllur af þeim fimmtán sem fyrirhugað er að reisa og sjást allt að átta vindmyllur frá þjóðveginum á hinum ýmsu stöðum, sem sagt alls staðar frá.“
Hún gagnrýnir fjölmargt í skýrslu Zephyr sem unnin er af verkfræðistofunni Eflu. Hún spyr t.d. hvernig eigi að vernda fugla á þessu mikilvæga búsvæði þeirra og standa við þá alþjóðlegu samninga sem Ísland hefur undirritað. Þá gerir hún athugasemdir við áformaðar rannsóknir á hljóðmengun og spyr í hverju mótvægisaðgerðir vegna röskunar á viðkvæmum svæðum eigi að felast.
Bæir sem ekki eru til?
„Mér þykir rýra verulega gildi skýrslunnar þegar ekki er einu sinni hægt að fara rétt með bæjarnöfn en það er talað um Katastaði og Katastaðakot í skýrslu Eflu sem eru ekki á þessu svæði,“ bendir Steinunn svo á. „Hins vegar eru bæirnir Kalastaðir og Kalastaðakot í Hvalfjarðarsveit. Ykkur til fróðleiks þá er Katastaðakot ekki til mér vitanlega og Katastaðir eru á Norðausturlandi en það er kannski verið að áforma vindorkugarð þar líka?“
Allir geta kynnt sér matsáætlun Zephyr um vindorkuver í Hvalfirði hér. Frestur til að skila umsögnum, sem verða að vera skriflegar, er til og með 20. júlí.