Arnar Sigurðsson, sem rekur vefverslun sem selur vín til neytenda hér á landi í gegnum franskt félag, hefur kært Ívar J. Arndal forstjóra ÁTVR fyrir rangar sakargiftir á hendur sér, en ÁTVR beindi kæru til bæði lögreglu og skattayfirvalda á hendur Arnari og fyrirtækjum hans hérlendis og erlendis undir lok síðasta mánaðar.
Þar var Arnar sakaður um skattaundanskot með því að brjóta gegn lögum um virðisaukaskatt í vínviðskiptum sínum. Þessu hefur Arnar alfarið hafnað. Hann hefur bent á, og gerir það að nýju í kæru sinni til lögreglu í dag, að franskt félag hans sé bæði með íslenska kennitölu og virðisaukaskattsnúmerið 140848, sem skráð hafi verið hjá Skattinum í apríl.
Einnig segir Arnar að félag hans gefi út reikninga með 11 prósent virðisaukaskatti í samræmi við gildandi lög og hafi gert frá því félagið hóf starfsemi hér á landi. Gjalddagi virðisaukaskatts sé einum mánuði og fimm dögum eftir lok hvers almenns uppgjörstímabils, sem í tilviki franska félagsins sé tveir mánuðir. Innheimtur virðisaukaskattur frá upphafi starfsmi félagsins sé því ekki fallinn í gjalddaga.
Arnar hefur nú kært forstjóra ÁTVR persónulega fyrir að leggja fram þessar ásakanir á hendur sér og segir í kæru sem send var á fjölmiðla í dag að telja megi ljóst að forstjóri ÁTVR „hafi borið fram kæru sína gegn betri vitund“ til þess eins að fá sig sakaðan um refsiverðan verknað.
Kæra Arnars á hendur Ívari var send á fjölmiðla síðdegis í dag, en á mánudag krafði Arnar ríkisforstjórann um afsökunarbeiðni og veitti honum frest til kl. 15 í dag til þess að bregðast við þeirri beiðni.
Hann fór fram á að forstjórinn afturkallaði kærur á hendur Arnari og fyrirtækjum hans hérlendis og erlendis og bæðist opinberlega afsökunar með heilsíðuauglýsingum í prentmiðlum og vefborðum á tveimur víðlesnustu fréttasíðum landsins. Það hefur ekki gerst.