„Þetta er ekki rétt,“ segja talsmenn tékkneska fyrirtækisins EP Power Minerals (EPPM) um ásakanir tveggja ferðaþjónustufyrirtækja um hótanir og rógburð. EPPM hyggur á vikurnám úr Mýrdalssandi og samkvæmt umhverfismatsskýrslu mun fyrirtækið nota gamla þjóðveginn á sandinum til að komast með vikurinn frá Hafursey þar sem náman yrði staðsett.
Í umsögn ferðaþjónustufyrirtækisins SouthCoast Adventure við skýrsluna var rengd sú fullyrðing að hann væri í eigu EPPM. Um væri að ræða þjóðleið í eigu íslenska ríkisins sem hefði síðustu ár verið þjónustaður af þeim ferðaþjónustufyrirtækjum sem hann nýta, m.a. við að aka ferðamönnum að íshellunum í Kötlujökli. „Vafi leikur því á eignarhaldi EPPM á gamla þjóðveginum og hvort eþeir hafi rétt ti að rjúfa hann þar sem fyrirhugað námusvæði liggur,“ sagði í umsögn ferðaþjónustufyrirtækisins Katla Track .
Í svörum EPPM og verkfræðistofunnar Eflu við umsögnunum, sem send voru Skipulagsstofnun nýverið og Kjarninn fékk afhent, segir að „enginn vafi“ sé á eignarhaldinu. „Vegagerðin er búin að afsala sér veginum og hann er nú á forræði landeigenda.“
Landeigendur jarðarinnar Hjörleifshöfða, sem gamli þjóðvegurinn fer um, eru EP Power Minerals og tveir Íslendingar sem eiga 10 prósent á móti tékkneska fyrirtækinu.
Ferðaþjónustuaðilarnir gagnrýna í umsögnum sínum að EPPM ætli sér að gera endurbætur á veginum svo hann þoli þungaumferð og að hann verði ein akrein með reglulegum útskotum á 500 metra fresti svo að bílar geti mæst. „Engin umfjöllun er um áhrif þessa á aðkomu að þjóðlendunni og upplifun ferðamanna sem sækja svæðið heim til að upplifa náttúrufegurð og kyrrð; hvorki á framkvæmdatíma vegagerðar né á vinnslutíma efnistöku,“ segir í umsögn Kötlu Track.
EPPM tekur ekki undir þetta í svörum sínum. „Kyrrðin mun aukast til muna við að keyra á vegi sem er búið að endurbyggja og verður viðhaldið til að aksturinn sé sem auðveldastur. Ef sett verður bundið slitlag munu þægindin og kyrrðin aukast enn frekar.“
Þá hafna talsmenn fyrirtækisins alfarið þeim ásökunum að hótanir hafi borist frá forsvarsmönnum þess um gjaldtökur á veginum og lokanir að þjóðlendunni Kötlujökli.
Í svörum við þessu segir að Íslendingarnir sem eigi 10 prósent í Hjörleifshöfða hafi stofnað fyrirtækið Viking Park Iceland ehf. sem ætli að byggja upp ferðaþjónustu á jörðinni. „Öll umræða um gjaldtöku er frá leigjendum þeirra komin. EPPM ætli „að leyfa þessum heimamönnum að byggja upp ferðaþjónustuna í friði“ og skipti sér ekki að því að öðru leyti en að ætla sér að vera „góður granni,“ líkt og það er orðað. „Enginn fulltrúi EPPM hefur nokkurn tímann verið í samskiptum við Katlatrack og hótað né svo mikið sem minnst á gjaldtöku.“
Þá segir að fulltrúar Viking Park hafi ekki talað um að loka þjóðlendunni né loka aðgangi að Hjörleifshöfðajörðinni, „eingöngu taka gjald af umferð á vegi sem landeigendur þurfa að byggja upp og viðhalda“.
SouthCoast Adventure eru á sömu nótum í sinni umsögn um hina áformuðu námuvinnslu og þungaflutninga sem henni fylgja.
„EP Power Minerals taka fram í skýrslunni að þeim sé það mikilvægt að vinna framkvæmdina í sátt og samlyndi við heimamenn og að þeir muni koma fram við landið og íbúa af virðingu,“ segir í umsögninni. „Því miður er það ekki það viðhorf sem að við höfum mætt af þeirra forsvarsmönnum heldur þvert á móti hroka, hótunum og rógburði.“
Talsmenn EPPM segja að enginn starfsmaður eða fulltrúi fyrirtækisins hafi „nokkurn tímann átt í samskiptum“ við SouthCoast Adventure. „Líklegra er að hér sé verið að rugla EPPM saman við einhverja aðra sem að tala alls ekki fyrir hönd fyrirtækisins. EPPM leggur mikla áherslu á að starfa í sátt og samlyndi við heimamenn og sýna landi og þjóð virðingu.“
Í svörum við þessum ásökunum ferðaþjónustufyrirtækjanna segist EPPM leggja mikla áherslu á að Skipulagsstofnun „geri sér grein fyrir því að hér er um misskilning að ræða og að EPPM hafi ekki átt í neinum samskiptum né haft neina aðkomu að þessu máli“.