Dagar stjórnenda Volkswagen-bílaframleiðands virðast vera taldir eftir að þessi næst stærsti bílaframleiðandi heims viðurkenndi að hafa framleitt 11 milljón bíla og selt um allan heim með kerfi sem var ætlað að svindla á útblástursprófunum.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, er meðal þeirra þjóðarleiðtoga sem hafa tjáð sig um málið. „Ég vona að allar staðreyndir málsins verði uppi á borðum eins fljótt og auðið er,“ sagði hún og bætti við að umferðarmálaráðherra Þýskalands væri í beinum samskiptum við fyrirtækið.
Volkswagen hefur neitað því að Martin Winterkorn, þýskur forstjóri Volkswagen, verði látinn fara og að Matthias Müller, formaður stjórnar systurfélagsins Porche taki við. Dagblaðið Tagesspiegel hafði eftir ónafngreindum heimildum úr stjórn fyrirtækisins að Winterkorn verði látinn fara.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans hefur Hekla, umboðsaðili Volkswagen á Íslandi, ekki fengið upplýsingar um málið og getur ekki staðfest hvort bílar með þessum búnaði hafi verið seldir hér á landi.
Winterkorn sendi frá sér yfirlýsingu síðdegis í dag þar sem hann sagðist sjálfur enn vera að viða að sér upplýsingum um málið. „Misferli hjá Volkswagen má aldrei gerast aftur,“ sagði hann og ítrekaði að rannsóknarferlið verði opið og gagnrýnið.
Martin Winterkorn ásamt Matthias Müller. (Mynd: EPA)
Hlutabréfaverð í Volkswagen hefur hrunið síðan málið kom upp um helgina og segjast stjórnendur fyrirtækisins nú hugsanlega þurfa að skuldsetja fyrirtækið í fyrsta sinn, eftir að hafa sett 6,5 milljarða evra til hliðar til þess að borga hugsanlegar skaðabætur og kostnað vegna svindlsins.
Virði fyrirtækisins á markaði hefur fallið um þriðjung, eða því sem nemur 25 milljörðum evra síðustu tvo daga. Hlutabréfaverð í öðrum evrópskum bílaframleiðendum hefur einnig hrunið. Hið franska Peugeot hefur fallið um sjö prósent, BMW um fimm prósent og Daimler (eigandi Mercedes-Benz) hefur fallið um 5 prósent.
Kjarninn sagði frá því á sunnudag að Volkswagen hefði verið gert að endurkalla 482 þúsund bíla í Bandaríkjunum vegna þess að hugbúnaðargalli í bílunum gerðu það að verkum að þeir menguðu mun meira en þeir máttu gera samkvæmt bandarískri löggjöf. Jafnframt hefur Volkswagen verið sektað um 37.500 dali fyrir hvern bíl sem mælist ólöglegur.
Winterkorn sendi frá sér yfirlýsingu á sunnudag, og las hana upp tárvotur á blaðamannafundi. „Afsakið“ sagði hann, og horfði síðan út í sal. Hann sagði viðskiptavini og birgja fyrirtækisins eiga skilið að fá afsökunarbeiðni vegna þessa „galla“ sem fundist hefði í hugbúnaði í bílum fyrirtækisins. Sá búnaður stýrir aflstýringu í vélinni, og reyndist ýta undir alltof mikla losun á nítrógen oxíði, eða um fjörtíufalt meiri losun en leyfilegt er.
Auk þess eru uppi ásakanir um að fyrirtækið hafa vísvitandi svindlað á prófunum bandarískra yfirvalda, en engar ákærur hafa verið gefnar út ennþá. Samkvæmt umfjöllun Quartz og BBC er ekki útilokað að það verði gert og eru það þá æðstu stjórnendur fyrirtækisins sem þurfa að bera ábyrgð. Winterkorn fékk spurningar frá blaðamönnunum á fundinum, um hugsanlegt glæpsamlegt athæfi, en neitaði að tjá sig um þær.
Volkswagen er álitið varða í þýskum iðnaði. Fyrirtækið var stofnað árið 1937 til þess að framleiða ódýra fjölskyldubíla fyrir þjóðina. Meira en hálf milljón manns starfar hjá fyrirtækinu um allan heim og það stjórnar fjölda vörumerkja auk Volkswagen eins og Audi, Bentley, Seat og Lamborghini.