Yrði vikurnáma við Hafursey á Mýrdalssandi að veruleika og vinnslan næmi um 1 milljón tonna á ári, líkt og þýska fyrirtækið STEAG Power Minerals (SPM) áformar, þyrftu vörubílar að aka tæplega 30 þúsund ferðir á ári um 180 kílómetra leið til Þorlákshafnar með vikurinn. Miðað við 249 vinnudaga á ári eins og áætlanir gera ráð fyrir, yrðu ferðir vörubílanna 120 á hverjum þeirra. „Svo má tvöfalda þessar tölur til að fá ferðirnar fram og til baka.“
Þetta segir Guðmundur Oddgeirsson, bæjarfulltrúi O-lista framfarasinna og félagshyggjufólks í Ölfusi. Hann hefur ýmislegt við hina fyrirhuguðu námuvinnslu að athuga, vinnslu sem yrðu sú langstærsta sinnar tegundar hér á landi – segir verið að reyna „að slá ryki í augu fólks“ – en bendir ennfremur á að önnur stór vikurvinnsla sé í kortunum. Þau áform eru á vegum Eignarhaldsfélagsins Hornsteins ehf. og efnið yrði fengið úr Litla-Sandfelli í Þrengslunum. Félagið og Ölfus undirrituðu viljayfirlýsingu vegna verkefnisins fyrir tæpu ári.
Að mati Guðmundar þarf að ræða þessi áform í samhengi, m.a. með tilliti til mikilla þungaflutninga um vegakerfi sem þegar er tæpt vegna álags, en einnig út frá áhrifunum á umhverfið og íbúa. „Þetta er ekkert smáræði og ég held að menn átti sig engan veginn á því hvað þetta er mikið umfang.“
Tillaga SPM að matsáætlun vegna vikurvinnslunnar á Mýrdalssandi var auglýst í sumar. Sjö lögbundnar umsagnir bárust frá stofnunum en eina athugasemdin sem barst að öðru leyti var frá Landvernd. Matsáætlun er eitt skref í umhverfismatsferli framkvæmda sem lýkur með áliti Skipulagsstofnunar.
SPM stofnaði fyrirtækið Power Minerals Iceland ehf. hér á landi og festi það kaup á jörðinni Hjörleifshöfða, sem hin fyrirhugaða náma er innan, og á í henni 90 prósent á móti 10 prósenta eignarhlut Lásastígs ehf.
Efnið yrði tekið úr vikurlagi úr Kötlugosum austan og suðaustan Hafurseyjar á Mýrdalssandi. Til að byrja með myndi vinnslan nema um 200 þúsund tonnum á ári en að fimm árum liðnum um einni milljón tonna. Vikrinum, sem ætlaður er sem íblöndunarefni í sement, yrði svo ekið á geymslusvæði í Þorlákshöfn og þaðan sett um borð í skip sem flytti hann til Evrópu og mögulega Norður-Ameríku.
Tillagan var til umræðu á síðasta fundi skipulags- og umhverfisnefndar Ölfus og setur hún spurningarmerki við áhrif verkefnisins á lífsgæði íbúa m.a. vegna foks á efni og mikillar umferðar. Einnig er í afgreiðslu nefndarinnar lögð áhersla á að ef af verkefninu verður verði að gera ráðstafanir til að hindra efnisfok og að efni verði ekki haugsett á hafnarsvæði.
Guðmundur lagði á þessum fundi framítarlega bókun þar sem m.a. sagði að efnisflutningarnir frá Mýrdalssandi til Þorlákshafnar, haugsetningin og akstur til skips og frá, myndu „vissulega hafa margvísleg áhrif til lakari lífsgæði íbúa Þorlákshafnar“.
Bæjarráðið áhugasamt
Sama dag og skipulags- og umhverfisnefnd fjallaði um málið var það einnig til umfjöllunar í bæjarráði. Þar var tekið fyrir minnisblað frá SPM þar sem fyrirtækið lýsir þeim vilja sínum að fá að koma upp aðstöðu til að geyma því sem nemur um það bil tveimur skipsförmum, um 18 þúsund tonnum, af jarðefnum nærri Þorlákshöfn. Sérstaklega lýsa þeir áhuga á þremur lóðum við Óseyrarbraut.
„Bæjarráð lýsir sig áhugasamt fyrir framgangi þessa máls og [er] jákvætt fyrir því að finna starfseminni hentuga lóð innan sveitarfélagsins svo fremi sem tryggt sé að allt jarðefni verði geymt í lokuðum húsum þannig að ekki sé sjón-, ryk- eða hávaðamengun af starfseminni,“ segir í samþykkt ráðsins um málið. Var bæjarstjóra falið að upplýsa fyrirtækið um þessa afstöðu og vinna því áfram farveg.
„Við höfum hist til að fara yfir hlutina en málin eru á frumstigi hvað okkur varðar,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfus, við Kjarnann. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafi sagst þurfa lóð sem næst hafnarsvæðinu sem og skipalægi. „Við höfum á sama hátt útskýrt áherslur okkar hvað varðar skipulag og gert félaginu grein fyrir því að ríkar kröfur verði gerðar til allrar starfsemi sem liggur nærri íbúðasvæðum. Þannig komi ekki til greina að um verði að ræða opnar efnisgeymslur né nokkra starfsemi sem leiðir til ryk- eða hljóðmengunar svo dæmi sé tekið.“
Guðmundur bendir á að hafnarsvæðið sé nálægt byggðinni og „ef vikurinn af Mýrdalssandi yrði fluttur til Þorlákshafnar yrði unnið með hann allan sólarhringinn“ og því myndi fylgja hávaði, hvort sem haugarnir yrðu yfirbyggðir eða ekki. Flytja þurfi efnið frá geymslusvæði til skips – hvort sem það yrði með færibandi, eins og nefnt er í skýrslunni, eða á vörubílum.
Hann bendir enn fremur á að byggðin í Þorlákshöfn færist sífellt nær þeim vegi sem vörubílar aka að hafnarsvæðinu. „Framkvæmdaaðilar eru svo tvísaga í því, samkvæmt skýrslunni, hvar haugsetningin á að vera.“ Ýmist sé talað um að hún yrði í 2,5 kílómetra fjarlægð frá höfninni eða fimm. Þá megi einnig skilja, við lestur skýrslunnar, að hún yrði á hafnarbakkanum.
Að mati Guðmundar verður að gera ríkari kröfu á framkvæmdaaðila í nákvæmni í skýrslum sem þessum – enda séu þær grundvallarplagg fyrir eftirlitsaðila, sveitarfélög og aðra til að gera upp hug sinn varðandi áformaðar framkvæmdir. Í skýrslu SPM sé bæði magn og fyrirhugaðar staðsetningar starfseminnar á reiki. Á einum stað sé t.d. talað um 200 milljóna tonna vinnslu á ári „sem er augljóslega villa,“ segir Guðmundur. „Menn eru almennt alltof ginkeyptir fyrir að stökkva á eitthvað án þess að skoða málin til enda.“ Í þessu tilviki sé verið að tala um 200 þúsund tonna framleiðslu í byrjun, „en við eigum að horfa á endapunktinn, það sem þeir stefna á að gera, sem er um milljón tonna ársframleiðsla“.
Félagið í söluferli
SPM er í söluferli. Fyrirtækið EP Power Europe (EPPE), sem er hluti af tékknesku Energetický a průmyslový holding (EPH) samsteypunni, er að kaupa það af STEAG. Um þetta er fjallað í matsskýrslu fyrirtækisins. EPPE mun með kaupunum eignast SPM að fullu og allar eignir þess á Íslandi, þ.m.t. jörðina Hjörleifshöfða og Power Minerals Iceland ehf. Guðmundur kallaði þetta „brask“ í bókun sinni í skipulags- og umhverfisnefnd. Spurður nánar út í hvað hann eigi við segir hann söluna vekja spurningar um ávinning verkefnisins. „Er þetta raunverulega að fara að skila einhverju fyrir loftslagið og hagkerfið eins og þeir vilja vera láta?“
STEAG er einn af stærstu orkuframleiðendum Þýskalands og sérhæfir sig í kolaverum og hin síðari ár einnig í öðrum orkugjöfum. SPM, dótturfélag þess, heldur utan um viðskipti með hliðarafurðir kolabrennslunnar, m.a. sölu á svokallaðri flugösku sem notuð er sem íblöndunarefni í sement. Meginmarkmiðið með því að vinna vikur á Mýrdalssandi er að sögn SPM að draga úr kolefnislosun tengdri sementsframleiðslu með því að nota vikur í stað öskunnar. „Með aukinni umhverfisvitund hefur kolaverum í Vestur-Evrópu fækkað mikið og framboð á kolaösku dregist saman,“ segir í matsáætlun SPM. Í Þýskalandi sé stefnt að því að árið 2038 verði búið að loka öllum kolaverum. „Í stað þess að útvega kolaösku annars staðar frá ætlar SPM sér að nota vikur til að bjóða viðskiptavinum sínum umhverfisvænt hráefni.“
En hver yrði hin raunverulega kolefnislosun frá vikurframleiðslunni, með þessum mikla akstri landshluta á milli sem og skipaflutninga til Evrópu og Norður-Ameríku? Á þetta benda bæði Landvernd og Heilbrigðiseftirlit Suðurlands í athugasemdum sínum við tillögu að matsáætlun framkvæmdarinnar og vilja að kolefnisspor hinnar fyrirhuguðu starfsemi verði reiknað út.
„Svo er það náttúruverndin í þessu,“ segir Guðmundur sem furðar sig á þeirri staðhæfingu sem sett er fram í skýrslu SPM að hin áformaða náma sé „vissulega endurnýjanleg“ – líkt og það er orðað. Katla muni gjósa aftur „og það munu koma jökulhlaup niður á Mýrdalssand sem bera með sér óhemju af vikri og öðrum jarðefnum“.
Ef þetta væru gild rök, segir Guðmundur, „væri þá ekki hægt að heimfæra þau á allt? Hverja einustu framkvæmd sem hér hefur verið gerð? Þetta er einkennileg réttlæting á raski á náttúrunni og allt eins mætti þá segja: Að öllum líkindum má búast við ísöld og að mannanna verk muni afmást. Eru það gild rök fyrir að raska landi?“
Elliði bæjarstjóri segir að fundir með framkvæmdaaðilum hafi verið „með ágætum“, enda fyrirtækið ekki að „fara fram á neitt annað af okkur en lóð og hafnaraðstöðu. Eitthvað sem við erum svo sem að vinna að alla daga. Staðan núna er sú að við erum að lenda í þröngri stöðu með lóðir undir atvinnustarfsemi og fjölmargar fyrirspurnir frá fyrirtækjum sem sjá framtíðina í Þorlákshöfn“.
Hann segir eingöngu hafa verið rætt við fyrirtækið um að koma starfsemi þeirra fyrir annað hvort utan þéttbýlisins í Þorlákshöfn eða innan iðnaðar- og hafnarsvæðis. „Í báðum tilvikum með aðkomu beint að höfninni án umferðar um íbúðabyggðina.“
Segir aðkomu íbúa verða tryggða
Viðræðurnar séu enn á frumstigi og of snemmt sé að fullyrða nokkuð um hvert þær leiði. Spurður hvort að til greina komi að íbúar fái að kjósa um málið segir hann það ekki hafa verið rætt sérstaklega „en það er þó hverjum degi ljósara að ef til dæmis þarf að breyta skipulagi þá verður aðkoma íbúa tryggð“.
Guðmundi hugnast hins vegar hugmyndin alls ekki. Starfsemin yrði af þeirri stærðargráðu að hún myndi hafa mikil áhrif, ekki síst í litlu samfélagi eins og Þorlákshöfn. „Þó að þetta myndi skila tekjum með hafnargjöldum og fleiru þá verðum við að hugsa um hverju við erum að fórna.“