Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, segir að það sé augljóst að ásakanir Halldórs Kristmannssonar, fyrrum samstarfsmann hans, um ofbeldi, morðhótanir og skipulagðar rógsherferðir, séu lagðar fram í fjárhagslegum tilgangi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Róberti sem barst fjölmiðlum í dag.
Líkt og kom fram í Kjarnanum fyrr í dag sagðist Halldór, sem hefur verið einn nánasti samstarfsmaður Róberts síðastliðna tvo áratugi, Róbert hafa orðið uppvís að morðhótunum, líkamsárásum, svívirðilegum ásökunum og ærumeiðingum í garð meintra óvildarmanna.
Þá hafi Róbert lagt á ráðin um rógsherferðir í fjölmiðlum gegn ýmsu fólki sem hann hafi borið kala til. Þar á meðal hafi verið viðskiptakeppinautar og opinberir embættismenn. Einnig segist Halldór hafa persónulega orðið fyrir líkamsárás og orðið vitni af annarri frá Róberti, þegar hann var undir áhrifum áfengis á viðburðum Alvogen erlendis.
Róbert segir hins vegar augljóst, af bréfasendingum lögmanna Halldórs, að ásakanirnar séu gerðar í fjárhagslegum tilgangi, enda komi þar fram kröfur um greiðslur til handa honum. Einnig bætir Róbert við að fram hafi komið óháð alþjóðleg lögmannsstofa til að fara ofan í saumana á kvörtunum Halldórs, auk þess sem talað var við tugi starfsmanna og farið yfir fjölda gagna, en fyrirtækið sendi frá sér tilkynningu í síðustu viku það taldi ásakanirnar ekki eiga sér neina stoð.