Vísindamenn hjá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni vara fólk við því að blanda saman bóluefnum gegn COVID-19 frá mismunandi framleiðendum og segja sérfræðinga í heilbrigðisvísindum verða að taka allar slíkar ákvarðanir.
„Þetta er nokkuð hættuleg stefna sem hér er að eiga sér stað,“ sagði Soumya Swaminathan, barnalæknir og yfirsérfræðingur stofnunarinnar á blaðamannafundi á mánudagskvöld. „Það myndi skapast óvissuástand í löndum ef borgararnir færu sjálfir að ákveða hvenær og með hvaða bóluefni þeir fengju seinni sprautu eða þá þriðju – ef um endurbólusetningu er að ræða.
Swaminathan sagði að blöndun bóluefna væri „ekki studd gögnum“ en ítrekaði svo í tísti eftir fundinn að hún hefði átt við að einstaklingar ættu ekki að geta ákveðið sjálfir hvaða bóluefni þeir fengju í annarri, þriðju eða jafnvel fjórðu sprautu, ef að því kæmi. Slíkar ákvarðanir ættu aðeins að vera á forræði heilbrigðisyfirvalda og ávallt byggðar á nýjustu vísindagögnum. „Beðið er eftir niðurstöðum rannsókna á því að blanda saman bóluefnum,“ skrifaði hún. „Meta þarf bæði ónæmi og öryggi í því sambandi.“
Individuals should not decide for themselves, public health agencies can, based on available data. Data from mix and match studies of different vaccines are awaited - immunogenicity and safety both need to be evaluated https://t.co/3pdYj4LUdz
— Soumya Swaminathan (@doctorsoumya) July 12, 2021
Einhverjar þeirra rannsókna sem þegar eru hafnar eru sagðar benda til að blöndun bóluefna komi ekki að sök en mun lengra á eftir að ganga í þeim þar til óyggjandi niðurstöður liggja fyrir.
Blöndun bóluefna frá ólíkum framleiðendum hefur verið framkvæmd í sumum löndum, sérstaklega þar sem skortur hefur orðið á ákveðinni tegund bóluefnis þegar komið er að seinni skammti. Það sem sérfræðingar WHO óttast er að einhverjir kunni að fara þá leið að leyfa einstaklingum að velja hvaða bóluefni þeir fái þegar komi t.d. að endurbólusetningu. Því þurfi heilbrigðisyfirvöld hvers lands að marka sér skýra stefnu þar um sem yrði síðan uppfærð eftir því sem ný gögn berast.
WHO gaf út leiðbeiningar í júní um blöndun bóluefna og þar kom fram að ef þyrfti mætti gefa fólki sem fengið hefði fyrri sprautu af AstraZeneca bóluefni Pfizer í seinni sprautu. Slíkt hefur m.a. verið gert hér á landi, í Kanada og á Spáni.
Stór klínísk rannsókn á blöndun efna þessara tveggja fyrirtækja er nú í gangi við Oxford-háskóla. Nýlega var bóluefni Moderna bætt inn í rannsóknina sem og bóluefni Novovax Inc.