Hagnaður Facebook á þriðja ársfjórðungi nam níu milljörðum dollara, eða sem nemur rúmum 1.166 milljörðum króna. Þá hefur notendum samfélagsmiðilsins fjölgað um sex prósent síðustu tólf mánuði og eru nú 2,9 milljarðar. Hagnaðurinn á sama tíma í fyrra var 7,8 milljarðar dollarar, eða sem nemur rúmum 1.010 milljörðum króna, og kemur þó nokkuð á óvart að hagnaðurinn í ár sé hærri þar sem samfélagsmiðlarisinn hefur mætt ýmsum hindrunum upp á síðkastið. Upphæðin kemur einnig á óvart í ljósi búnaðs í nýrri uppfærslu Apple stýrikerfis sem gerir það erfiðara að verkum að beina sérstökum auglýsingum að tilteknum hópi notena.
Frances Haugen, fyrrverandi starfsmaður Facebook, steig fram sem uppljóstrari í byrjun mánaðarins. Gögn sem hún lét af hendi til Wall Street Journal, og kölluð hafa verið Facebook-skjölin, gefa til kynna að Facebook leggi meiri áherslu á gróða frekar en öryggi notenda sinna og hafi hylmt yfir sönnunargögn um dreifingu falsfrétta og áróðurs í gróðaskyni. Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, tjáði fjárfestum á mánudag, þegar árshlutauppgjörið var kynnt, að umfjallanir um fyrirtækið í kjölfar uppljóstrana Haugen hafi fyrst og fremst dregið fram falska mynd af fyrirtækinu.
Nú er staðan sú að Facebook vill ekki lengur vera þekkt fyrst og fremst sem samfélagsmiðill og af þeirri neikvæðu athygli sem miðillinn hefur fengið heldur vill fyrirtækið einblína á framtíðina og hyggst tilkynna um nafnbreytingu á fyrirtækinu á árlegri ráðstefnu Facebook, sem ber yfirskriftina Collect, á fimmtudag.
Yngstu notendunum gæti fækkað um tæpan helming innan tveggja ára
Þrátt fyrir að notendum Facebook hafi fjölgað heilt á litið hefur táningum og notendum á þrítgusaldri fækkað til muna. Þetta er þróun sem Facebook hyggst sporna gegn.
Notendum í yngsta aldurshópnum, 13-19 ára, hefur fækkað um 13 prósent frá 2019 og gera spár ráð fyrir að þeim fækki um allt að 45 prósent á næstu tveimur árum. Upplýsingarnar koma frá rannsakendum Facebook og voru settar fram í minnisblaði fyrr á þessu ári. Þar kemur einnig fram að því yngri sem notandinn er, því ólíklegri er hann til að nota Facebook að staðaldri.
Í Facebook-skjölunum má finna eitt og annað sem snýr að áhrifum miðilsins á ungt fólk, meðal annars skaðleg áhrif Instagram á ungar stúlkur hvað varðar líkamsímynd og umdeildar tilraunir Facebook til að ná til ungmenna. Ljóst er að Facebook á verðugt verkefni fyrir höndum, ætli miðillinn sér að „endurheimta týndu kynslóðina“.