Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins var spurður út í skattastefnu flokksins er hann var gestur Forystusætisins á RÚV á fimmtudagskvöld. Framsókn boðar í kosningastefnu sinni að fjármagnstekjuskattur fyrirtækja verði þrepaskiptur og þau fyrirtæki sem skili yfir 200 milljóna hagnaði greiði meira. Á sama tíma verði tryggingagjald fyrirtækja líka þrepaskipt og minni fyrirtæki greiði minna en þau gera í dag.
Athyglisvert er að í þættinum líkti formaðurinn skattastefnu Framsóknarflokksins við þá stefnu sem Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur talað fyrir í skattamálum. Tillögur Biden-stjórnarinnar í skattamálum, sem settar voru fram fyrr á árinu, hafa vakið töluverða athygli fyrir róttækni, en enn er óljóst nákvæmlega hvernig þeim reiðir af í meðförum Bandaríkjaþings. Biden-stjórnin hefur að undanförnu haft forystu um það að alþjóðlegur lágmarksskattur á fyrirtæki verði tekinn upp og Framsókn segist sammála því að slíkur eigi að vera til staðar.
„...úti í Bandaríkjunum er forseti sem hefur stefnu Framsóknarflokksins mjög ofarlega í sínum huga og er að leggja nákvæmlega þetta til, það er að segja, að jafna leikinn og láta stærri fyrirtækin sem sýna meiri hagnað borga meira og leggja til alheimsskatt á stóru alþjóðlegu fyrirtækin,“ sagði Sigurður Ingi í þættinum.
Orð Sigurðar Inga voru sett fram í gamansömum tóni, en er hægt að segja að demókratinn Joe Biden sé nálægt stefnu Framsóknarflokksins í skattamálum, eins og formaðurinn vakti upp hughrif um með orðum sínum? Stutta svarið er nei, ekki alveg.
Biden hefur lagt til að fjármagnstekjur verði skattlagðar til jafns við laun
Tillögurnar sem Biden hefur lagt fram eru umtalsvert róttækari en það sem Framsóknarflokkurinn boðar. Sigurður Ingi lagði meira að segja sjálfur áherslu á það í viðtalinu við RÚV að Framsóknarflokkurinn væri flokkur hófseminnar, í skattamálum sem öðrum og sagði ekki búið að útfæra hversu háan skatt flokkurinn myndi vilja sjá á ríkustu fyrirtæki landsins. Það yrði útfært eftir kosningar, ef Framsóknarflokkurinn fengi til þess umboð.
Biden-stjórnin hins vegar lagði til dæmis fram tillögu um að byrja að skattleggja fjármagnstekjur sem næmu yfir einni milljón bandaríkjadala til jafns við launatekjur í efsta þrepi, sem myndi þýða að allt að 39,6 eða 43,4 prósenta skatt á tekjur sem í dag bera 20 prósent skatt. Bandaríkjaforseti lagði einnig til við þingið að tekjuskattur fyrirtækja hækkaði upp í 28 prósent, en fyrirtækjaskatturinn í Bandaríkjunum er í dag flatur 21 prósent skattur af hagnaði.
Það hefur því einmitt vakið athygli hvað Joe Biden hefur verið stórhuga í áformum sínum um aukna skattlagningu þeirra ríkustu í bandarísku samfélagi, en nýlegar fréttaskýringar frá Bandaríkjunum benda þó til þess að þessi miklu áform forsetans verði verulega útþynnt eftir málamiðlanir á meðal þingmanna demókrata í báðum deildum Bandaríkjaþings. Samkvæmt vefmiðlinum The Hill hafa hagsmunahópar í bandarísku viðskiptalífi beitt sér af nokkrum þunga gegn skattahækkunaráformum og telja sig vera að ná ágætum hljómgrunni á meðal þingmanna Demókrataflokksins.
Niðurstaða Staðreyndavaktarinnar
Þrátt fyrir að Framsóknarflokkurinn segist um þessar mundir vilja hækka skatta á stærstu og ríkustu fyrirtækin í landinu og tali vel um alþjóðlegan fyrirtækjaskatt er Biden töluvert róttækari í sínum framlögðu tillögum en Framsóknarflokkurinn. Það er því hálfsannleikur hjá Sigurði Inga að gefa til kynna að Joe Biden Bandaríkjaforseti sé með sambærilega skattastefnu og Framsóknarflokkurinn, eða hafi hana ofarlega í sínum huga.