Í júní verður ýmsum örvandi aðgerðum í danska hagkerfinu hætt og við taka, líkt og á síðasta ári, „sumarpakkar“ sem eiga að gagnast þeim greinum sem hvað verst hafa orðið úti í kórónuveirufaraldrinum.
Fénu verður útdeilt í ýmsar áttir en fjármálaráðherrann, Nicolai Wammen, segir að áherslan verði áfram á þær greinar sem hafi átt sérstaklega erfitt uppdráttar í faraldrinum. „Okkur hefur tekist að halda smittölunum niðri og efnahagslífinu uppi og þess vegna er Danmörk á betri stað en löndin í kringum okkur,“ sagði ráðherrann á blaðamannafundi í gær vegna málsins.
Auk aðgerða sem beinast að fyrirtækjum verður verð á lestarmiðum innan Danmerkur lækkað til að hvetja fólk til að ferðast innanlands í sumar.
Talið er að ferðaþjónustan í Danmörku hafi orðið af 31 milljarði danskra króna á síðasta ári, um 630 milljörðum íslenskra króna. „Sumarpakkinn“ sem fer til stuðnings ferðaþjónustunni verður um 32 milljarðar íslenskra króna. Fjármagnið verður fengið úr „stríðskassanum“ – sérstökum sjóði sem settur var á fjárlög ársins til að koma til móts við afleiðingar faraldursins.
Pakkinn er þó ekki klár því fyrst þarf þingið að koma saman og samþykkja hann. Þá fær þingið einnig það verkefni að móta aðgerð um hvernig draga skuli í skrefum úr stuðningi við atvinnulífið á næstu mánuðum.