„Maður finnur það alltaf betur og betur þegar fyrirtæki fara að stækka, hvað það skiptir gríðarlega miklu máli hvað þú gerir fyrst,“ segir Georg Lúðvíksson, forstjóri og einn stofnenda Meniga. Georg er reynslumikill frumkvöðull og hefur stofnað fyrirtæki í þrígang, sem öll hafa náð nokkurri stærð þó Meniga sé þeirra stærst, en það er nú komið með um hundrað starfsmenn.
Hann segir margar ákvarðanir í upphafi hafa mikil áhrif á framhald þróunar í fyrirtækjum. Þannig skipti miklu máli hvernig teymi stofnenda er samsett. Hann segir rannsóknir sýna að það komi verst út að stofna fyrirtæki með vinum eða fjölskyldumeðlimum, en vissulega séu á því undantekningar. Þá skipti fyrstu ráðningarnar einnig miklu máli þar sem hæfileikaríkt fólk laði að sér annað hæfileikaríkt fólk, sem síðan geti haft mikil áhrif á möguleikana til vaxtar.
Georg er verkfræðingur að mennt með MBA próf frá Harvard Business School.
https://vimeo.com/135883556
Hann segir Startup Reykjavík viðskiptahraðalinn hafa virkjað frumkvöðlaumhverfið á Ísland enn meira til góðs, og að það sé ekki tilviljun að hann hafi hlotið verðlaun nýverið, sem besti viðskiptahraðall Norðurlanda.
Verkefnin sem valin hafa verið til þátttöku í Startup Reykjavík nú í sumar:
- Wasabi Iceland – Ætla að rækta hágæða wasabi á Íslandi með því að nýta hreint vatn og endurnýjanlega orku
- Ludis – Þróa leikjavettvang sem gerir leikjahönnuðum kleift að hanna og notendum að spila leiki sem nota samskipti á milli sjónvarps og síma
- Elsendia – Tengir saman rafræn skilríki og rafræna lyfseðla. Fólk getur keypt lyf á netinu með öruggum hætti og fengið sent heim
- Viking Cars – Markaðstorg þar sem bílaeigendur geta deilt bílnum sínum með öðrum með öruggum hætti. Í raun eins og Airbnb nema fyrir bíla.
- Spor í sandinn – Sjálfbær gróðurhús tengd sundlaug í hjarta borgarinnar bjóða upp á sölu staðbundinna matvæla og nýja upplifun í ferðaþjónustu fræðslu og afþreyingu
- Genki instruments – Eru að þróa nýstárleg raftónlistarhljóðfæri sem tengja má saman með áður óséðum hætti
- Datadrive – Hugbúnaður sem tekur við upplýsingum úr bílnum þínum og tengir beint við snjallsímann
- Delphi – Nýta þekkingu fjöldans til þess að spá fyrir um tiltekna viðburði í framtíðinni
- Floori – Hugbúnaður sem hjálpar kennurum að skilja og meta árangur nemenda með því að bjóða upp á krossaspurningar í gegnum vef og snjallsíma
- Hún / Hann Brugghús – Örbrugghús með áherslu á frumlega gæðabjóra í takmörkuðu upplagi
Teymunum tíu sem valin hafa verið til þátttöku verður lagt eftirfarandi til:
- Tvær milljónir í hlutafé frá Arion banka gegn 6% hlutdeild í fyrirtækinu
- 10 vikna þjálfun/ráðgjöf frá mentorum víðs vegar að úr atvinnulífinu
- Sameiginleg aðstaða allra viðskiptateymanna
- Tækifæri til að kynna sig og verkefni sín fyrir fjárfestum á lokadegi verkefnisins.
Þetta er annað árið í röð sem Kjarninn fylgir Startup Reykjavík náið eftir, en allt frá stofnun Kjarnans hefur mikil áhersla verið lögð á nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi ýmis konar, í efnistökum, og það sama má með segja um lítil og meðalstór fyrirtæki.
Startup Reykjavík er samstarfsverkefni Arion banka og Klak Innovit, og eru myndböndin unnin í samstarfi við hraðalinn.